19.06.2023
Dagskrá námskeiða Ráðgjafar- og greiningarstöðvar á haustönn liggur nú fyrir. Sem fyrr kennir margra grasa í námskeiðsflórunni og eru námskeiðin kennd bæði staðbundið og í fjarkennslu. Kennd verða námskeið sem hafa verið lengi á dagskrá eins og Einhverfurófið - grunnámskeið, Atferlisíhlutun fyrir börn með þroskafrávik, AEPS - færnimiðað matskerfi, Skipulögð kennsla, Tákn með tali og mörg fleiri. Námskeið RGR henta fagfólki sem vinnur með fötluðum börnum og börnum með þroskafrávik og aðstandendum. Á dagskránni er einnig að finna nýrri námskeið eins og Náttúruleg kennsla, Skólafólk, ráð og leiðir, Systkinasmiðjan og fleiri.
19.05.2023
Föstudaginn 26. maí nk. ver Sigríður Lóa Jónsdóttir, sálfræðingur á Ráðgjafar- og greiningarstöð, doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Að bera kennsl á einhverfu snemma. Early detection of autism.
17.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar var haldin 11. og 12. maí sl. Tæplega 400 manns sóttu ráðstefnuna að þessu sinni en hún var haldin bæði á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og í streymi fyrir þau sem ekki áttu heimangengt. Góður rómur var gerður að ráðstefnunni og þeim erindum sem þar voru flutt, svo sem í könnun þátttakendur voru beðnir að taka þátt í eftir að henni lauk. Einnig komu fram í könnuninni margar góðar hugmyndir frá þátttakendum vegna vorráðstefnu RGR 2024 sem skipuleggjendur eru þakklátir fyrir og munu taka tillit til.
10.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) hefst í dag fimmtudaginn 11. maí og stendur fram á föstudag, 12. maí. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega að vori á undanförnum áratugum og er þetta í 38. skiptið sem hún er haldin. RGR heldur úti öflugu fræðslustarfi og námskeiðsdagskrá á vor- og haustönn á hverju ári en óhætt er að segja að metnaðarfull dagskrá ráðstefnunnar, þar sem málefni fatlaðra barna og barna með þroskafrávik hafa verið í brennidepli, sé kóróna fræðslustarfsins.
Ráðstefnan, sem er bæði staðbundin og send út í streymi, er opin öllum og hægt er að skrá sig til leiks allt þar til dagskráin hefst.
05.05.2023
Bilun kom upp í vefkerfi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) í gærkvöldi sem olli því að fréttatilkynning um vorráðstefnu RGR var send allt að 40 sinnum á móttakendur á póstlista. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið móttakendum. Þetta hefur ekki gerst áður í fræðslustarfinu og munum við leita leiða til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.
03.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) verður haldin á Reykjavík Hilton Nordica nk. 11. og 12. maí nk. Ýmis mál í deiglunni verða til umfjöllunar undir yfirskriftinni: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir. Fögnum fjölbreytileikanum er yfirskrift erindis Guðmundar Ármanns Péturssonar formanns Félags áhugafólks um Downs heilkenni. Skólafólk í Kópavogi kynnir verkefnið, Hvað gerum við þegar beita þarf líkamlegu inngripi og/eða nota einveruherbergi í skólastarfi? Fagmennska, sjálfsrækt fagfólks, farsældarlögin í framkvæmd, rafrænt aðgengi fyrir alla, þjónusta við fötluð börn af erlendum uppruna, íþróttastarf fatlaðra, jafningjafræðsla og margt fleira er á dagskránni.
18.04.2023
Dagskrá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar liggur nú fyrir en ráðstefnan verður haldin 11. - 12. maí 2023. Ráðstefnan stendur yfir í einn og hálfan dag, en henni lýkur á hádegi föstudaginn 12. maí. Yfirskrift hennar að þessu sinni er: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir.
17.04.2023
Ráðgjafar- og greiningarstöð auglýsir laust til umsóknar starf ráðgjafa í snemmtækri íhlutun á Yngri barna sviði. Á sviðinu er veitt þjónusta við ung börn og börn á leikskólaaldri og fjölskyldur þeirra. Leitað er að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á að starfa að fjölbreyttum verkefnum tengdum fjölskyldum fatlaðra barna með þverfaglegu teymi starfsfólks stofnunarinnar.
14.04.2023
Ráðgjafar- og greiningarstöð auglýsir laus sæti á námskeiðið Ungmenni með einhverfu og önnur þroskafrávik sem haldið verður 27. apríl nk. frá kl. 9.00 – 16.00 í fyrirlestrarsal DeCode í Reykjavík. Námskeiðið er ætlað foreldrum, aðstandendum og starfsfólki sem sinnir umönnun, ráðgjöf, þjálfun og kennslu ungmenna með einhverfu og önnur þroskafrávik frá 13 ára aldri.
27.03.2023
Helen Marie Frigge hlaut nýlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni nema í starfsréttindanámi í sálfræði frá Sálfræðifélagi Íslands en hún er um það bil að ljúka klínískri sálfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið heitir Exploration of Referral Patterns and Diagnoses in Relation to Native Versus Foreign Background in Children with Suspected Neurodevelopemental Disorders, eða „Tilvísana- og greiningarmynstur meðal barna með grun um taugaþroskaröskun; Samanburður eftir bakgrunni.“ það er unnið undir handleiðslu Urðar Njarðvík, Emilíu Guðmundsdóttur og Evald Sæmundsen en Helen var í starfsnámi á Ráðgjafar- og greiningarstöð.