Eftirfarandi upplýsingar eru að mestu fengnar af heimasíðu FRAMBU sem er miðstöð í Noregi fyrir börn með sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Hægt er að opna eftirfarandi tengil og biðja um íslenska þýðingu í hægra horni vafrans (Google translate).

Lýsing á orkukornasjúkdómum - Frambu

Orkukornasjúkdómar

Orkukornasjúkdómar stafa af röskun í orkuefnaskiptum líkamans. Prótein, fita og sykur eru brotin niður og umbreytt í orku í líkamanum. Ferlið fer aðallega fram í orkukornunum sem eru í öllum frumum líkamans nema í rauðum blóðkornum. Orkuþörf líffærisins ákvarðar fjölda orkukorna í frumunni (frá núll til nokkur þúsund). Öndunarkeðjan í orkukornum frumunnar virkar ekki hjá einstaklingum með þessa sjúkdóma. Orkukornasjúkdómar eru arfgengir. Yfirleitt koma einkenni fyrst fram í líffærum með mikla orkuþörf þ.e. heila, hjarta, beinagrindarvöðvum, lifur og brisi. Áður fyrr var erfitt að greina þessa sjúkdóma en nýjar erfðarannsóknaraðferðir auðvelda greiningu.

Einkenni

Sjúkdómurinn getur komið fram hjá fólki á öllum aldri. Einkenni geta farið hægt versnandi. Þau geta komið fram í næstum öllum líffærum en oftast eru það vöðvar, hjarta, lifur og augu sem verða fyrir mestum áhrifum.  

 Einkenni koma frá mörgum líffærakerfum. 

  • beinagrindarvöðvar (slappleiki, þreyta, máttleysi, lömun/hömlun) 
  • hjarta  
  • heili og taugakerfi (námserfiðleikar, þroskahömlun, hreyfiröskun, samhæfingar- og jafnvægiserfiðleikar) 
  • sjón og augnvöðvar
  • heyrnarskerðing 
  • truflun á ósjálfráða taugakerfinu (truflun á starfsemi þvagblöðru, þarma, öndunar og hjartslætti) 
  • lifur og bris (m.a. meltingarvandamál) 
  • nýru og þvagfæri  
  • hormónatruflanir (insúlín, vaxtarhormón, skjaldkirtilshormón og fleira) 
  • beinmergur (blóðleysi) 

 Sumir undirflokkar valda einungis einkennum frá beinagrindar- og hjartavöðvum. 

Orkukornasjúkdómar – Undirhópar

Orkukornasjúkdómarnir eru margir og þeim fjölgar stöðugt. Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi. 

Alpers-sjúkdómurinn kemur fram fyrir tveggja ára aldur og veldur niðurbroti á heilavef og lifur. Sjúkdómurinn hefur áhrif á hreyfigetu og veldur flogaveiki sem oft er erfitt að meðhöndla. 

Kearns-Sayre heilkenni hefur áhrif á augnstarfsemi (litarefnisútfellingar í sjónhimnu), augnvöðva (hangandi augnlok), jafnvægi og samhæfingu hreyfinga (ataxia), hjartavöðva og líkamsvöxt. 

Leber hereditary optic neuropathy (LHON) veldur skyndilegu, hröðu sjóntapi með eyðileggingu á sjóntaug og sjónhimnu. Sjúkdómurinn kemur oftast fram hjá ungum karlmönnum.

Leigh heilkenni hefur áhrif á starfsemi taugakerfisins, einkum heilastofns, og getur valdið vaxandi erfiðleikum við kyngingu, stjórn öndunar og augnhreyfinga. Einkennandi breytingar sjást á segulómmyndum af heila. Einkenni koma oftast fram hjá ungum börnum. 

Maternally inherited diabetes and deafnesss (MIDD) einkennist af sykursýki og meðfylgjandi heyrnarskerðingu (sérstaklega hátíðni heyrnartap). Stundum kemur einnig fram sjúkdómur í sjónhimnu augna. Fólk með MIDD getur einnig fundið fyrir vöðvakrömpum eða vöðvaslappleika, sérstaklega við æfingar. Þar að auki geta fylgt hjartavandamál, nýrnasjúkdómar og hægðatregða. 

Mitochondrial encephalomyopathy, lactic acidosis and stroke-like episodes (MELAS) veldur einkennum frá taugakerfi vegna truflana á blóðflæði í heilanum (TIA eða alvarlegri truflunum á blóðflæði í heila). Flogaveiki getur komið fram sem og höfuðverkur sem getur líkst mígreni. Erfitt getur verið að meðhöndla flogin og forðast þarf ákveðin flogaveikilyf (m.a. valpróat). Sjúkdómurinn getur einnig valdið vöðvaslappleika, sykursýki, uppköstum, heyrnartapi o.fl. 

Myoclonic epilepsy with ragged red fibers (MERRF). Helstu einkenni eru vöðvaslappleiki, flogaveiki, sjón- og heyrnarskerðing, hreyfihömlun, óstöðugleiki (ataxia) og námserfiðleikar.  

Mitochondrial neurogastrointestinal encephalopathy (MNGIE). Þessi sjúkdómur veldur fyrst og fremst einkennum frá maga/þörmum og erfiðleikum við augnhreyfingar og stjórn vöðva í augnlokum. Sjúkdómurinn byrjar oft í æsku. 

Neuropathy, ataxia, retinitis pigmentosa syndrome (NARP) er ástand sem veldur ýmsum einkennum frá taugakerfinu. Sjúkdómurinn getur byrjað á barnsaldri eða snemma á unglingsárum. Hjá flestum eru fyrstu einkennin náladofi eða verkir í handleggjum og fótleggjum, vöðvaslappleiki, jafnvægistruflun og erfiðleikar við samhæfingu hreyfinga (ataxia). Margir upplifa einnig sjónskerðingu. 

Pearsons heilkenni er fyrst og fremst blóðsjúkdómur sem getur valdið alvarlegu blóðleysi vegna skertrar starfsemi í orkukornum beinmergs. Þau börn með Pearsons heilkenni sem lifa frumbernsku af geta fengið Kearns-Sayre heilkenni eða annan orkukornasjúkdóm síðar á ævinni. 

POLG-related mitochondrial disease stafar af stökkbreytingum í pólýmerasa gamma geninu (POLG gen) og leiðir oft til óstöðugleika (ataxia) við hreyfingar og flogaveiki. Dæmi um orkukornasjúkdóma af völdum POLG stökkbreytinga eru Alpers-sjúkdómur, Mitochondrial spinocerebellar ataxia & epilepsy (MSCAE), Mitochondrial spinocerebellar ataxia (MSCA), Progressive External Ophthalmoplegia (PEO) og Ataxia neuropathy spectrum. 

Progressive external ophthalmoplegia (PEO) veldur svipuðum einkennum og Kearns-Sayre heilkenni en kemur fyrst fram á unglingsárum eða á fullorðinsaldri. 

Tíðni

Ef á heildina er litið eru orkukornasjúkdómar ekki svo sjaldgæfir, einkennin eru margbreytileg og líklega eru sjúkdómarnir oft vangreindir. Orkukornasjúkdómar eru líklega algengustu arfgengu efnaskiptasjúkdómar hjá börnum. Rannsókn frá Vestur-Svíþjóð sýndi að 1 af hverjum 11.000 leikskólabörnum var með orkukornasjúkdóm. Tölur frá Bretlandi hafa sýnt að 1 af hverjum 5.000 gæti verið með orkukornasjúkdóm. (1)

Orsök

Orkukornasjúkdómar orsakast af erfðabreytileika sem veldur skertri getu orkukorna til að umbreyta efnum í orku. Stökkbreytingin getur verið í DNA frumukjarnans eða í eigin erfðaefni orkukornanna. Erfðabreytileikinn í orkukornunum þarf ekki að vera til staðar í öllum líffærum í sama mæli.  

Erfðir

Sjúkdómar geta erfst á fjóra mismunandi vegu; A-litnings víkjandi erfðir, A-litnings ríkjandi erfðir, kyntengdar erfðir og orkukornaerfðir. Öll fjögur erfðamynstrin koma fram í orkukornasjúkdómum. 

Í A-litnings víkjandi erfðum eru bæði móðir og faðir heilbrigðir berar sjúkdómsins. Í hverri meðgöngu eru 25% líkur á því að barnið erfi breytileika bæði frá móður og föður þannig að sjúkdómurinn kemur fram. Í A-litnings ríkjandi erfðum er annað foreldrið með erfðabreytileikann sem veldur sjúkdómnum. Annað foreldrið er þá með sjúkdóminn. Í hverri meðgöngu eru 50% líkur á að barnið erfi sjúkdóminn. Í kynbundnum erfðum er genabreytileikinn á X-litningi. Konur eru með tvo X-litninga og geta því verið heilbrigðir berar sjúkdómsins en þar sem karlar hafa aðeins einn X-litning fá þeir sjúkdóminn. Bæði dætur og synir fá erfðabreytileika frá móður en einungis dætur erfa breytileikann frá föður (þar sem þær erfa X-litning frá honum). Í orkukornaerfðum er erfðabreytileikinn staðbundinn í eigin erfðaefni orkukornanna, mtDNA. Orkukorna DNA erfist aðeins frá móður til barns. Þess vegna munu öll börn kvenna með breytileikann erfa sama breytileikann.  Erfðaráðgjöf er mikilvæg í þessum sjúkdómaflokki.  

Greining                                            

Grunur vaknar vegna klínískra einkenna og mikilvægt er að hafa efnaskiptasjúkdóma í huga ef um er að ræða framsækinn heilasjúkdóm og meðfylgjandi einkenni frá öðrum líffærum. Klínísk einkenni koma oft fram sem: 

  • verulega hækkaður styrkur mjólkursýru (laktats) í blóði og/eða mænuvökva og hækkað hlutfall milli laktats og pýruvats 
  • óeðlilegur útskilnaður lífrænna sýra í þvagi  
  • dæmigerðar breytingar í vefjasýnum 
  • staðfestur ensímgalli í öndunarkeðjunni eða pýrúvat dehýdrógenasa (PDH) 
  • stökkbreyting staðfest með DNA rannsókn. Erfitt getur verið að finna stökkbreytingarnar í blóðsýnum. Ef grunur vaknar gæti þurft að leita í sýnum úr öðrum vefjum. 
  • fjölskyldumeðlimur með orkukornasjúkdóm 
  • nýjar aðferðir við erfðarannsóknir gera kleift að skoða bæði kjarna-DNA og orkukorna-DNA og munu þær skipa stóran sess við greiningar í framtíðinni (2) 

Meðferð og eftirfylgni

Sem stendur er ekki til lækning við flestum orkukornasjúkdómum en rannsóknir eru í gangi og verið að prófa sérhæfða lyfjameðferð. (3) Alþjóðleg hagsmunasamtök fá oft að vita af nýjum meðferðum. (4) ClinicalTrials.gov er alheimsgagnagrunnur sem veitir yfirlit yfir allar yfirstandandi klínískar rannsóknir og niðurstöður þeirra.  

Meðferð við þessum sjúkdómum er því fyrst og fremst einkennamiðuð. Forðast skal ákveðin lyf eins og sum flogaveikilyf (natríumvalpróat). Hægt er að nota flest önnur lyf. Forðast þarf föstu þar sem hún veldur álagi á orkukornin. Algengir smitsjúkdómar geta valdið efnaskiptatruflunum hjá einstaklingum og valdið/aukið einkenni orkukornasjúkdóma. 

Meðferð með fæðubótarefnum eins og Q-10, aspartínsýru, karnitíni og kreatíni getur mögulega dregið úr þreytu og vöðvaslappleika. Reynt hefur verið að auka skammta af C, K og E vítamínum umfram hefðbundnar ráðleggingar, en ekki hefur verið sýnt fram á að það breyti ferlinu. Sumir gætu þurft sérstakt mataræði. Díklórasetat (DCA) getur dregið úr hækkuðu laktati en óvíst er hvort það hafi áhrif á sjúkdómsferlið. 

Holl og næringarrík fæða er mikilvæg. Margir þurfa um 120% af venjulegri kaloríuinntöku á dag. Fólk með orkukornasjúkdóma getur fljótt orðið mjög veikt af lélegri næringu, föstu eða smitsjúkdómum, sérstaklega ef þeim fylgja uppköst. Mikilvægt er að foreldrar barna með orkukornasjúkdóma séu meðvitaðir um þetta. (5, 6, 7)

Á heimasíðu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að finna nokkrar greinar þar sem fjallað er um heilkenni. Ekki eru tök á að vera með tæmandi lýsingar á meðferðarúrræðum í þeim öllum, meðal annars þar sem möguleikar á aðstoð við barn og fjölskyldu taka stöðugt breytingum. Bent er á að í öðrum greinum á heimasíðunni kunna að vera hugmyndir eða úrræði sem gætu einnig nýst fyrir börn með orkukornasjúkdóma og fjölskyldur þeirra.

  • Á Íslandi fer greining og eftirfylgd einkum fram á vegum sérfræðinga á Barnaspítala Hringsins.  
  • Barni getur einnig verið vísað í þjónustu á Ráðgjafar- og greiningarstöð.
  • Bent er á Sjónarhól – ráðgjafarmiðstöð  þar sem hægt er að fá ráðgjöf vegna barna með sérþarfir.  
  • Umhyggja er félag langveikra barna á íslandi.

Heimildir

  1. Mitochondrial disease: genetics and management - PMC (nih.gov)
  2. Schon KR, Ratnaike T, van den Ameele J, Horvath R, Chinnery PF. Hvatberasjúkdómar: greiningarbylting. Trends Genet. Sep 2020;36(9):702-717. doi: 10.1016/j.tig.2020.06.009. Epub 2020 13. júlí. PMID: 32674947. 
  3. Legemiddelhandoka « Lebers hereditære optikusnevropati (LHON)»  (legemiddelhandboka.no) 
  4. https://mitochondrialdisease.nhs.uk/patient-area/useful-links/ 
  5. https://www.mitopatients.org/images/Table_2.pdf
  6. Mitokondriesykdom - Frambu  
  7. Beskrivelse av mitokondriesykdom - Frambu

Aðrar heimildir og gagnlegar vefsíður

 

© Dagbjört Agnarsdóttir læknir og Solveig Sigurðardóttir barnalæknir, Ráðgjafar- og greiningarstöð, desember 2024.