Skref fyrir skref margmiðlunarkennsluefni fyrir foreldra og fagfólk
Á árunum 2011 – 2013 tók Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (nú Ráðgjafar- og greiningarstöð) þátt í evrópsku samstarfsverkefni sem var styrkt af Leonardo, menntaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið fólst í þýðingu, staðfærslu og frekari þróun á margmiðlunarkennsluefni sem kallast Skref fyrir skref (Simple Steps) og var upphaflega þróað á Norður-Írlandi.
Markmið efnisins er að veita haldgóðar grunnupplýsingar um kennslu sem byggir á hagnýtri atferlisgreiningu.
Kennsluefnið samanstendur meðal annars af myndskeiðum, lesefni, viðtölum, sýnikennslu og útskýringamyndum þar sem farið er yfir þann grunn í hagnýtri atferlisgreiningu sem nauðsynlegt er að hafa í upphafi íhlutunar.
Efnið er einkum ætlað foreldrum, stuðningsaðilum, kennurum og öðrum sem koma að uppeldi og kennslu barna með einhverfu. Það nýtist þó einnig við kennslu barna sem eru með önnur frávik í þroska og hegðun. Þá hefur það verið notað á námskeiðum í hagnýtri atferlisgreiningu í háskólum og þróaður hefur verið námsvísir (study guide) til þess að nota á námskeiðunum.
Hægt er að kaupa leyfi um aðgang að Skref fyrir skref á netinu á vægu verði (tæplega kr. 5000.-) og veitir það aðgang að efninu á tíu tungumálum í ótakmarkaðan tíma. Eins geta foreldrar og fagaðilar sem hafa í hyggju að nota kennsluefnið haft samband við þann atferlisráðgjafa sem þeir tengjast á Ráðgjafar- og greiningarstöð og óskað eftir ókeypis aðgangi.
Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni www.simplestepsautism.com.
Skólar og aðrir sem óska eftir að kaupa fimm leyfi eða fleiri geta athugað möguleika á magn afslætti. Beiðnir þar að lútandi svo og aðrar fyrirspurnir sem tengjast kaupum á leyfi skal senda á ensku á netfangið: info@simplestepsautism.com.
Almennum fyrirspurnum um vefsíðuna má beina til Herdísar Ingibjargar A. Svansdóttur atferlisfræðings á Ráðgjafar- og greiningarstöð, herdis.i.svansdottir@rgr.is.
Uppfært í nóvember 2024