Forstjóri, staðgengill forstjóra, fjármálastjóri, mannauðsstjóri og sviðsstjórar mynda yfirstjórn faglegrar og fjárhagslegrar starfsemi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar.

Tilvísanir, læknaritun og móttaka
Meginverksviðið er úrvinnsla á tilvísunum sem berast stofnuninni, gæðastarf og skráning auk læknaritunar og skjalavörslu. Einnig fellur hér undir móttaka þeirra sem koma á Ráðgjafar- og greiningarstöð og símavarsla. Inntökustjóri stýrir þessum verkefnum. Starfsfólk Tilvísana, læknaritunar og móttöku.

Yngri barna svið
Á yngri barna sviði er veitt þjónusta við ung börn og þau börn sem eru á leikskólaldri og fjölskyldur þeirra. Starfsfólk Yngri barna sviðs.

Eldri barna svið
Á eldri barna sviði er veitt þjónusta við börn á grunn- og framhaldsskólaaldri og fjölskyldur þeirra. Starfsfólk Eldri barna sviðs.

Langtímaeftirfylgd
Á langtímaeftirfylgd er veitt þjónusta við börn og unglinga að 18 ára aldri, sem þurfa sérhæfða eftirfylgd og ráðgjöf og fjölskyldur þeirra. Starfsfólk Langtímaeftirfylgdar

Mat á stuðningsþörf
Mat á stuðningsþörf er verkefni sem er unnið fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og felur í sér mat á stuðningsþörf fatlaðra barna og fullorðinna hér á landi. Starfsfólk verkefnisins.

Fræðslu- og kynningarstarf
Markmið er að sinna verkefnum sem lúta að innra og ytra fræðslu- og kynningarstarfi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar þar með talið námskeiðum og árlegri vorráðstefnu. Fræðslustjóri er tengiliður varðandi kynningu á starfsemi stofnunarinnar og hefur yfirumsjón með heimasíðu. Starfsfólk Fræðslu- og kynningarstarfs.

Rannsóknir og samstarf við háskóla
Verkefnin eru að framfylgja stefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar um þróun rannsóknarstarfs. Rannsóknarstjóri hefur yfirsýn yfir rannsóknir sem stofnunin eða einstakir starfsmenn tengjast, hefur frumkvæði að rannsóknum og veitir ráðgjöf um málefni sem að þeim lúta. Starfsfólk í Rannsóknum og samstarfi við háskóla.

Skipurit Ráðgjafar- og greiningarstöðvar
 

Fræðslustarf

Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins býður upp á fjölbreytt námskeið um ýmis efni sem tengjast fötlunum barna, svo sem um ýmsar fatlanir, þjálfunar- og meðferðarleiðir og fleira. Sjá námskeið á næstunni. Námskeiðin eru ætluð þeim sem vinna með börnum með þroskafrávik og fatlanir og eru einnig opin foreldrum og öðrum aðstandendum. Á hverju ári sækir hátt á annað þúsund manns þessi námskeið, þar á meðal starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla, fagfólk úr ýmsum faggreinum, auk foreldra.

Markmiðið er að auka þekkingu og efla skilning á þörfum barna og ungmenna með þroskaraskanir, skapa vettvang fyrir fólk sem vinnur að sambærilegum verkefnum og í sumum tilvikum að kenna sérhæfðar aðferðir og vinnubrögð í meðferðar- eða greiningarstarfi. Auk opinna námskeiða býður Ráðgjafar- og greiningarstöð upp á styttri kynningar í leik-, grunn- og framhaldsskólum skjólstæðinga sinna.

Frá því að stofnunin tók til starfa hefur á hverju vori verið haldin tveggja daga ráðstefna sem á sér fastan sess meðal þeirra sem starfa að málefnum fatlaðra. Þá er tekið fyrir eitthvað sérstakt efni sem varðar börn og ungmenni með þroskafrávik og fatlanir. Á undanförnum árum hefur Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (áður Greiningar- og ráðgjafarstöð) einnig skipulagt margar stærri ráðstefnur meðal annars með erlendum fyrirlesurum og þátttakendum, oft í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök.

Helstu samstarfsaðilar

Helstu samstarfsaðilar og tilvísendur á Ráðgjafar- og greiningarstöð eru sérfræðingar félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, barnadeildir og barna - og unglingageðdeildir sjúkrahúsa, Þroska- og hegðunarstöð, sjálfstætt starfandi barnalæknar og aðrir sérfræðingar í heilbrigðisþjónustu. Þegar tilvísanir eru metnar er meginreglan er sú að börn sem vænta má að búi við mesta skerðingu í þroska og færni til frambúðar njóti forgangs að þjónustunni.

Góð og regluleg samvinna er við þjónustuaðila sem tengjast börnum og fjölskyldum yfir lengri tíma og má þar nefna Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Ráðgjafar- og greiningarstöð og BUGL halda reglulega samráðsfundi sem miða að því að auka samfellu í úrræðum og stuðla að heildstæðari þjónustu við sameiginlega skjólstæðinga. Áhersla er lögð á gagnkvæma upplýsingamiðlun, ráðgjöf og markvissa samvinnu varðandi tilvísanir og einstaklingsmál. Einnig eru haldnir samráðsfundir með deildarstjórum við Þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, öðrum sveitarfélögum, sérfræðingum á Tauga- og hæfingarsviði Reykjalundar og sérfræðingum á Þroska- og hegðunarstöð.

Í öllu starfi er byggt er á náinni samvinnu við fjölskyldur þeirra barna og unglinga sem nýta þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og foreldrar hvattir til þess að taka virkan þátt og eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða íhlutun og ýmis konar stuðnings- og þjónustuúrræði. Fagfólk eins og kennarar og aðrir sem tengjast barninu á heimaslóðum eru einnig lykilaðilar í samstarfi um málefni þess og fjölskyldunnar.