Þjónustan

Meginstarfsemi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fer fram á þremur fagsviðum sem sinna beinni þjónustu við börn og fjölskyldur. Skipting miðast við aldur (yngri börn 0-6 ára og eldri börn 6-18 ára). Eitt sviðanna sinnir þjónustu við börn, að 18 ára aldri sem þurfa eftirfylgd til langs tíma eða sérhæfða eftirfylgd. 

Samkvæmt lögum um Ráðgjafar- og greiningarstöð skal frumgreining hafa farið fram áður en vísað er. Það felur í sér að fyrstu athuganir og þroskamælingar þurfa að fara fram í nærumhverfi barnsins á vegum sérfræðiþjónustu leikskóla eða grunnskóla, sérfræðiþjónustu heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Starfsemin er skipulögð á grundvelli heildstæðrar þjónustu og fjölskyldumiðaðrar nálgunar. Foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í þjónustuferlinu og að eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða þjónustu fyrir barn og fjölskyldu. Áður en barni er vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöðina þarf að vera búið að meta þroska þess og færni (frumathugun). Algengustu ástæður tilvísunar eru grunur um einhverfu og skyldar raskanir, þroskahömlun og hreyfihamlanir.

Sjá valmynd hér til hægri fyrir nánari upplýsingar.