Hvert á að leita?

Þegar grunur vaknar um alvarleg frávik í þroska eða aðlögun barns er best að leita til þess fagaðila sem best þekkir barnið og leita eftir ráðleggingum um nauðsynlegar athuganir.

Þegar um ungbörn er að ræða er eðlilegt að leita ráðgjafar hjá sérfræðingum sem sinna ungbarnavernd, til barnalæknis eða heilsugæslulæknis.

Þegar um leikskóla- eða grunnskólabörn er að ræða er best að snúa sér til kennara eða skólastjóra eða til sérfræðinga, sem hafa milligöngu um að barnið komist til athugunar og í þroskamælingar hjá skólaþjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu. Einnig er hægt að leita til sérfræðinga á heilsugæslustöðvum, sjálfstætt starfandi lækna og sálfræðinga og til sérfræðinga hjá þroska-og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hverjum er vísað?

Þegar grunur vaknar um alvarlegar þroskaraskanir hjá barni, hefst ferli athugana og rannsókna sem getur leitt til tilvísunar.

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að sinna greiningu og ráðgjöf vegna barna með alvarlegar þroskaraskanir, sem geta leitt til fötlunar og leiðbeina um meðferðar- og íhlutunarleiðir til þess að draga megi sem mest úr afleiðingum fötlunar.

Þegar um alvarlegan meðfæddan vanda er að ræða, er barni vísað fljótlega eftir fæðingu, jafnvel beint af fæðingar- eða barnadeild. Þar má til dæmis nefna börn með alvarlegan vanda er tengist byggingu og starfsemi miðtaugakerfisins. Algengustu ástæður tilvísana ungra barna á aldrinum 0-2 ára sem vísað er á Ráðgjafar- og greiningarstöð eru hreyfihamlanir, almennur seinþroski, einhverfa og blinda.

Grunur um frávik í þroska getur einnig vaknað í ungbarnaeftirliti eða þegar barn byrjar í leikskóla. Ef athuganir og þroskamælingar staðfesta alvarleg frávik, leiða slíkar athuganir til tilvísunar. Á þessum aldri eru algengustu ástæður tilvísana grunur um þroskahömlun eða einhverfu. Frávik í þroska og aðlögun grunnskólabarna hafa í vaxandi mæli leitt til frekari athugana og tilvísana á Ráðgjafar- og greiningarstöð. Með aukinni þekkingu á þroska- og námsferli barna og skilningi á mikilvægi góðrar aðlögunarfærni og velgengni í félagslegum samskiptum hafa fleiri börn og unglingar komið í athuganir á vegum skólaþjónustu leikskóla og grunnskólaskóla. Þegar grunur leikur á að um þroskahömlun og/eða einhverfurófsröskun geti verið að ræða er barni eða unglingi vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð til frekari athugana og ráðgjafar.

Hér má finna nánari upplýsingar um markhópa stofnunarinnar.

Hverjir vísa á Ráðgjafar- og greiningarstöð?

Ungbörnum með alvarleg frávik í þroska og þekkt heilkenni er gjarnan vísað beint á Greiningarstöð af sérfræðingum heilbrigðisþjónustunnar, t.d. sérfræðingum Ungbarnaverndar, Barnaspítala Hringsins eða barnadeildar FSA.

Þegar um börn á leikskóla- eða grunnskólaaldri er að ræða þarf frumgreining að hafa farið fram áður en barninu er vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð. Það felur í sér að fyrstu athuganir og þroskamælingar fara fram í nærumhverfi barnsins á vegum skólaþjónustu leikskóla og grunnskóla, heilsugæslu eða hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum, oftast sérhæfðum barnalæknum eða sálfræðingum.

Þegar frumgreining bendir til alvarlegra raskana á þroska er það á ábyrgð þess sérfræðings, sem framkvæmt hefur athuganir að vísa barninu formlega til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Sjá tilvísun - eyðublöð. Það er jafnframt á ábyrgð frumgreiningaraðila að stuðla að því að viðeigandi þjónusta, þjálfun og sérkennsla, hefjist sem fyrst.

Sjá nánar leiðbeiningar vegna tilvísunar

Athugið að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinnir almennt ekki börnum með sértækar raskanir í málþroska. Stöðin hefur þó á undanförnum árum sinnt takmörkuðum hópi barna með sértækar málþroskaraskanir gjarna í tengslum við fötlun barns, en sú þjónusta hefur verið afmörkuð. Ástæða þessa er fyrst og fremst komin til vegna mikillar aukningar tilvísana barna með alvarlegri vanda. Sjá nánar um þetta mál hér.