Eftirfarandi upplýsingar eru að mestu fengnar af heimasíðu FRAMBU sem er miðstöð í Noregi fyrir börn með sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Hægt er að opna eftirfarandi tengla og biðja um íslenska þýðingu í hægra horni vafrans (Google translate).

Lýsing á orkukornasjúkdómi - Frambu

Leighs syndrom - Frambu

Leigh heilkenni

Leigh heilkenni er sjaldgæfur, arfgengur og framsækinn sjúkdómur sem hefur áhrif á taugakerfið, aðallega heila, heilastofn og sjóntaugar. Fyrstu einkenni sjúkdómsins koma gjarnan fram hjá börnum milli þriggja mánaða og tveggja ára aldurs, oft í tengslum við sýkingu. Sumir fá ekki einkenni sjúkdómsins fyrr en seinna á ævinni og framgangur er þá hægari. Heilkennið er nefnt eftir breska lækninum Dennis Leigh sem fyrstur lýsti því 1951.

Orsök

Leigh heilkenni tilheyrir hópi orkukornasjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að öndunarkeðjan í orkukornum frumanna virkar ekki. Orkukorn eru lítil líffæri sem finnast í öllum frumum líkamans nema rauðum blóðkornum. Öndunarkeðjan inni í orkukornum þarfnast súrefnis til að mynda orku fyrir öll ferli frumunnar. Prótein, fita og sykur eru brotin niður og umbreytt í orku í líkamanum. Ferlið fer aðallega fram inni í orkukornunum.

Erfðabreytileikar sem valda orkukornasjúkdómum geta verið í erfðaefni í frumukjarna, sem kallast nDNA, eða í erfðaefnisbúti sem staðsettur er í orkukornunum, sem kallast mtDNA. Leigh heilkenni getur komið fram vegna breytinga í bæði nDNA og mtDNA. (1) Til eru yfir 75 þekktir erfðabreytileikar sem leiða til Leigh heilkennis. Allir erfðabreytileikarnir hamla umbreytingu pýrúvats en því má líkja við eldsneyti sem gegnir lykilhlutverki í orkuefnaskiptum frumanna. Ef því er ekki umbreytt á réttan hátt skortir orku í frumurnar og mjólkursýra safnast fyrir. Þetta á sérstaklega við um frumur sem þurfa mikla orku, eins og frumur í heila og vöðvum.

Tíðni

Búast má við að einn af hverjum 30.000 - 40.000 fæðist með heilkennið.

Erfðir

Algengast er að Leigh heilkenni erfist með A-litnings víkjandi erfðum en þá eru bæði móðir og faðir heilbrigðir berar erfðabreytileikans. Í hverri meðgöngu eru 25% líkur á því að barnið erfi breytileika bæði frá móður og föður þannig að einkenni komi fram.

Í orkukornaerfðum er erfðabreytileikinn bundinn við erfðaefni orkukornanna, mtDNA. Orkukorna DNA erfist aðeins frá móður til barns. Þetta erfðamynstur sést í 20-30% tilvika. Ekki er víst að öll börn móður með erfðabreytileikann fái sjúkdóminn en það fer eftir því hvort hún sé með erfðabreytileikann í öllu mtDNA eða í hluta þess (heteroplasmy). Hlutfall mtDNA með erfðabreytileika getur einnig breyst á lífsleiðinni. Erfðafræðileg fósturgreining er sjaldan notuð við orkukornasjúkdóma því hætta er á falskt neikvæðri niðurstöðu. Barnið getur fæðst með Leigh heilkenni þótt ekkert óeðlilegt hafi fundist í fylgju- eða legvatnsprófi.

Erfðir geta einnig verið kynbundnar (X-tengdar víkjandi). Þetta þýðir að drengir sem eru með þennan erfðabreytileika á X-litningi sínum munu fá heilkennið. Stúlkur sem hafa erfðabreytileikann munu næstum alltaf hafa heilbrigðan X-litning að auki og fá því ekki alvarleg einkenni. Hins vegar munu þær bera erfðabreytileikann með sér. Helmingslíkur eru á að synir þeirra erfi heilkennið og helmingslíkur á að dætur þeirra verði einkennalausir arfberar erfðabreytileikans.

Í afar fáum tilfellum hefur nýr (de novo) erfðabreytileiki valdið Leigh heilkenni. Í þessum tilfellum er erfðaráðgjöf mikilvæg.

Einkenni, fylgikvillar og framgangur

Einkennin koma oft fram í barnæsku. Óværð og uppköst eru oft fyrstu einkennin ásamt stöðnun í þroska og tapi á hreyfifærni. Afturför í færni getur komið fram í tengslum við t.d. veirusýkingar. Kraftleysi í vöðvum sem stýra augnhreyfingum, andlitsvöðvum og tungu getur komið snemma fram og m.a. valdið því að börnin verða tileygð og eiga erfitt með kyngingu. Einnig geta fylgt erfiðleikar við samhæfingu hreyfinga og við að halda jafnvægi (ataxia). Með tímanum getur öndunin orðið óregluleg, truflanir komið fram í starfsemi hjartans auk stirðleika í hand- og fótleggjum. Rýrnun á sjóntaug og flogaveiki geta einnig verið hluti af einkennamyndinni. Hjá sumum kemur fram hjartabilun vegna breytinga í hjartavöðva.

Birtingarmynd Leigh heilkennis getur annars vegar verið hratt versnandi ástand hjá smábörnum sem oft veldur andláti innan nokkurra mánaða og hins vegar hægari framgangur þar sem ástandið getur varað í nokkur ár. Í síðarnefnda forminu geta einnig komið fram einkenni frá mænutaugum.

Greining

Greiningin byggir á klínískum einkennum og sérhæfðum rannsóknum, sérstaklega myndgreiningu af heila. (2) Hækkað innihald mjólkursýru (laktats) og pýruvats í blóði eða mænuvökva styður grun um orkukornasjúkdóm. Eðlileg gildi geta líka komið fram. Sameindaerfðafræðileg próf eru notuð til að staðfesta greininguna. (3)

Meðferð

Sem stendur er ekki til læknandi meðferð við Leigh heilkenni frekar en öðrum orkukornasjúkdómum en rannsóknir eru í gangi og verið að prófa sérhæfða lyfjameðferð. ClinicalTrials.gov er alheimsgagnagrunnur sem veitir yfirlit yfir allar yfirstandandi klínískar rannsóknir og niðurstöður þeirra. Meðferðin er því fyrst og fremst einkennamiðuð.

Flogaveiki, næringarerfiðleikar, vöðvastífleiki og vöðvaslappleiki ásamt tapi á lærðri færni eru dæmi um einkenni sem hægt er að meðhöndla og fylgja eftir. Mælt er með þverfaglegri nálgun. Eftirlit hjá sjúkra- og iðjuþjálfum er mikilvægt. Fylgst er með einkennum frá stoðkerfi. Hægt er að bregðast við t.d. aukinni vöðvaspennu og stífum vöðvum með teygjum, stoðtækjum, lyfjum og skurðaðgerðum. Einnig er hægt að auka virkni og þátttöku með hjálpartækjum og aðlögun umhverfis. Holl og næringarrík fæða er mikilvæg. Barnið þarf að fá reglulegar máltíðir því fasta getur valdið bráðri versnun. Þegar fæðuinntökuvandi er til staðar vegna tyggingar-og kyngingarvanda er mikilvægt að fylgjast með næringarástandi. (4) Klínískir næringarfræðingar geta veitt ráðleggingar.

Algengasta meðferðin við Leigh heilkenni er tíamín eða B1 vítamín. Hægt er að nota natríumbíkarbónat eða natríumsítrat til að meðhöndla hækkun á laktati. Einnig standa yfir rannsóknir á notkun díklórasetats (DCA) í sama tilgangi. (5) Meðferð með fæðubótarefnum eins og Q-10, aspartínsýru, karnitíni og kreatíni getur mögulega dregið úr þreytu og vöðvaslappleika. Reynt hefur verið að auka skammta af C, K og E vítamínum umfram hefðbundnar ráðleggingar, en ekki hefur verið sýnt fram á að það breyti ferlinu. (6)

  • Á Íslandi fer greining og eftirfylgd einkum fram á vegum sérfræðinga á Barnaspítala Hringsins.
  • Barni getur einnig verið vísað í þjónustu á Ráðgjafar- og greiningarstöð.
  • Bent er á Sjónarhól – ráðgjafarmiðstöð þar sem hægt er að fá ráðgjöf vegna barna með sérþarfir.
  • Einstök börn (einstokborn.is) er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæf heilkenni.
  • Umhyggja er félag langveikra barna á íslandi.

 

Myndir og frekari lesning

Leighs syndrom - Frambu

Leigh syndrome | UMDF

Heimildir

  1. Chinnery PF. Oversikt over primære mitokondrielle lidelser. 8. juni 2000 [oppdatert 29. juli 2021]. I: Adam MP, Ardinger HH, Pagon RA, Wallace SE, Bean LJH, Gripp KW, Mirzaa GM, Amemiya A, redaktører. GeneReviews ® [Internett]. Seattle (WA): University of Washington, Seattle; 1993–2021. PMID: 20301403.
  2. Rahman S, Blok RB, Dahl HH, Danks DM, Kirby DM, Chow CW, Christodoulou J, Thorburn DR. Leigh syndrom: kliniske trekk og biokjemiske og DNA-avvik. Ann Neurol. 1996 Mar;39(3):343-51. doi: 10.1002/ana.410390311. PMID: 8602753.
  3. Chinnery PF. Oversikt over primære mitokondrielle lidelser. 8. juni 2000 [oppdatert 29. juli 2021]. I: Adam MP, Ardinger HH, Pagon RA, Wallace SE, Bean LJH, Gripp KW, Mirzaa GM, Amemiya A, redaktører. GeneReviews ® [Internett]. Seattle (WA): University of Washington, Seattle; 1993–2021. PMID: 20301403.
  4. Medisinsk beskrivelse av Leighs syndrom - Frambu
  5. Leigh Syndrome | National Institute of Neurological Disorders and Stroke (nih.gov)
  6. Beskrivelse av mitokondriesykdom - Frambu

 

Aðrar heimildir og gagnlegar vefsíður

 

© Dagbjört Agnarsdóttir læknir og Solveig Sigurðardóttir barnalæknir, Ráðgjafar- og greiningarstöð, desember 2024.