Áhrifaþættir erfiðrar hegðunar
- Algengt er að börn noti erfiða hegðun vegna þess að þau hafa ekki aðrar leiðir til þess að tjá sig um hvað það er sem þau vilja eða til að losna við að gera eitthvað sem þau vilja ekki. Þetta er sérstaklega algengt hjá börnum sem eru með frávik í málþroska en á einnig við um börn sem ekki hafa slík frávik.
- Aðrir þættir eins og þreyta, hungur, vanlíðan eða verkir geta líka haft áhrif á hegðun. Ef barnið glímir við svefnvanda eða fæðuinntökuvanda er mikilvægt að takast á við það til þess að barninu líði betur og þurfi sjaldnar að grípa til erfiðrar hegðunar.
- Ef barnið glímir við svefnerfiðleika eða tíð veikindi getur þurft að taka tillit til þess og minnka kröfur þá daga sem barnið er ekki í sínu besta formi.
- Mikilvægt er að áætlun sé til staðar um hvernig á að kenna barninu að nálgast það sem það vantar eða tjá sig á æskilegan hátt um að það vilji ekki gera eitthvað. Ef barnið hefur ekki færni til að tjá sig með töluðu máli þá þarf að finna aðra tjáningarleið fyrir barnið, t.d. tákn með tali eða PECS boðskiptakerfið.
Fyrirmæli
- Gætið þess að öll fyrirmæli séu skýr og hnitmiðuð, t.d. „komdu“, „settu kubbana í kassann“, „hengdu upp úlpuna þína“ o.s.fr.v. Forðist óskýr fyrirmæli sem innihalda óþarfa upplýsingar.
- Gefið barninu frekar fyrirmæli um hvað á að gera í stað þess sem á ekki að gera- t.d. segið frekar „við göngum inni“ heldur en „ekki hlaupa“.
- Gætið þess að ná athygli barnsins áður en fyrirmæli eru gefin, t.d. með því að nefna nafn barnsins og vera í augnhæð þess.
- Ef barnið er gjarnt á að bregðast illa við fyrirmælum er gott að reyna að fækka fjölda fyrirmæla um daginn og halda sér einungis við þau fyrirmæli sem nauðsynlegt er að barnið fylgi (t.d. í tengslum við athafnir daglegs lífs).
- Gefið barninu mörg tækifæri yfir daginn til þess að velja og upplifa að það hafi stjórn á eigin lífi. Til dæmis er hægt að leyfa barninu að velja í hvaða röð það gerir hlutina, úr hvaða glasi það drekkur, hverju það klæðist o.s.frv. Hér er oft gott að bjóða tvo valkosti, t.d. „hvort viltu græna vettlinga eða rauða vettlinga?“.
Sjónrænar upplýsingar
- Skapið fyrirsjáanleika í gegnum daginn með því að nýta sjónrænar upplýsingar. Þær má útfæra á ýmsan hátt, allt eftir því hvað hentar hverju barni fyrir sig.
- Í byrjun getur verið gott að hafa skipulagið einfalt, t.d. „fyrst og svo“, þar sem barnið getur séð hvað er næst á dagskrá og hvað tekur við næst. Sérstaklega er gott að nýta slíkt skipulag í kringum aðstæður sem reynast barninu erfiðar svo það geti séð hvað tekur við eftir að það er búið.
- Hugið að röð dagskrárliða þannig að eftir athafnir sem reynast barninu erfiðar eða það er gjarnt á að mótmæla taki við eitthvað skemmtilegt.
- Einnig má bjóða barninu að velja hvað það vill gera eftir að fyrri athöfninni lýkur, t.d. „fyrst ætlum við að bursta tennur, en hvað langar þig að gera næst?“. Hér má sýna barninu nokkra valmöguleika og barnið getur þá sjálft valið hvaða mynd það vill setja á spjaldið.
- Hafið í huga að brjóta athafnir niður eins og þörf er á. Fyrir mörg börn er t.d. óljóst hvað það á að gera ef myndin á skipulaginu sýnir bara „leika“ – þá gæti verið betra að brjóta leikinn niður í smærri athafnir og setja þær upp í röð, t.d. púsla, perla, kubba o.s.frv.
- Sjónrænar leiðbeiningar má einnig nota til að brjóta flóknar athafnir niður í smærri einingar, t.d. handþvott eða að klæða sig í föt, þannig það sé skýrt fyrir barninu hvað það á að gera og í hvaða röð.
- Gott er að nota tímavaka (hægt að kaupa t.d. í A4 eða ná í app í síma/spjaldtölvu) svo barnið sjái hversu langt er í að það þurfi að skipta um athöfn. Hann má líka nota til að auka úthald barnsins í ákveðnum stundum, t.d. samverustund eða í leik – byrjið þá á mjög stuttum tíma og lengið smám saman.
© Herdís Ingibjörg A. Svansdóttir, atferlisfræðingur og þroskaþjálfi, Ráðgjafar- og greiningarstöð.
Uppfært í desember 2024.