Rannsóknir og þróun

Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur það hlutverk að sinna fræðilegum rannsóknum og þróun á sviði fötlunar og þroskaraskana. Stofnunin safnar, miðlar og þróar þekkingu á þessu sviði í samvinnu við innlenda og erlenda fræðimenn, og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi og þróunarverkefnum samkvæmt 4. gr. laga nr. 83/2003, með breytingu sem tók gildi 1. janúar 2022.

Rannsóknir geta meðal annars beinst að greiningar- og matstækjum, gæðum og árangri þjónustu, snemmtækri íhlutun, erfðafræði og faraldsfræði fatlana, málefnum fjölskyldna, þátttöku og lífsgæðum fatlaðs fólks.

Samstarf

Ráðgjafar- og greiningarstöð vinnur að rannsóknum í samstarfi við innlendar og erlendar stofnanir og félög. Meðal innlendra samstarfsaðila eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Barnaspítali Hringsins, Íslensk erfðagreining og Sjónstöðin. Á alþjóðavettvangi tekur stofnunin þátt í samstarfsverkefnum á vegum Evrópusambandsins og í norrænu rannsóknasamstarfi (sjá birtar rannsóknir).

Þátttaka í rannsóknum

Starfsfólk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar eða samstarfsaðilar geta haft samband við foreldra varðandi þátttöku í rannsóknum. Foreldrar ákveða sjálfir hvort þeir vilja taka þátt og það hefur engin áhrif á þá þjónustu sem fjölskyldan fær hjá stofnuninni.

 

Emilía Guðmundsdóttir, október 2025.