„Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs" (Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 760, 2021).

Einstaklingar sem missa niður færni vegna sjúkdóma eða ná ekki eðlilegum þroskaáföngum eins og að sitja, standa og ganga geta haft gagn af hjálpartækjum. Hjálpartæki geta bætt færni, aukið sjálfsbjargargetu, auðveldað umönnun en eru jafnframt fyrirbyggjandi, t.d. við að styðja við liði og koma í veg fyrir skekkjur og aflaganir.

Áður en hjálpartæki er valið er mikilvægt að meta færni einstaklingsins og skoða hverjar þarfir hans eru. Svara þarf spurningum eins og hvað er einstaklingurinn að gera dags daglega, hvernig er umhverfi hans, hver er líkamleg geta og hver eru markmiðin með notkun hjálpartækisins? Hjálpartæki er síðan valið í samráði við væntanlegan notanda og fjölskyldu hans. Þeir fagaðilar sem að málum koma eru oftast iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar en einnig t.d. talmeinafræðingar við umsókn á sérhæfðum tjáskiptabúnaði.

Þegar búið er að taka ákvörðun um hjálpartæki þarf heilbrigðisstarfsmaður (oftast sjúkraþjálfari eða iðjuþjálfi) að senda umsókn um styrk til kaupa á tækinu til Sjúkratrygginga . Umsóknir eru afgreiddar eins fljótt og unnt er en tekur oft 2 - 5 vikur. Svar umsóknar er sent í rafræna gátt sjúkratrygginga og einstaklingar og umsækjendur geta sótt það með rafrænum skilríkjum hjá Ísland.is. Svar er einnig sent til seljanda. Þegar jákvætt svar hefur borist til seljanda hjálpartækisins getur hann pantað tækið, það er í hans höndum að útvega tækið og láta umsækjanda vita þegar það er tilbúið til afhendingar (oftast hjá seljanda en ef móttakandi tækis býr á landsbyggðinni er það sent til hans). Oft þarf að panta tækið erlendis frá og geta því liðið nokkrar vikur þar til tækið er komið til umsækjanda. Dæmi um hjálpartæki eru m.a. bæklunarskór, ökklaspelkur, hjólastólar, sérstakir vinnustólar, standbekkir og aðlöguð þríhjól.

Hjálpartæki eru í sífelldri endurskoðun og mikilvægt er að endurmeta stöðuna reglulega m.t.t. vaxtar og þroska notandans og hvernig tækið nýtist honum. Mikilvægt er að notandanum líði vel við notkun tækisins og að það nýtist því ef svo er ekki aukast líkur á að tækið sé lítið sem ekkert notað.

Að lokinni notkun skal skila hjálpartækjum sem hægt er að endurnýta. Öll tæki eru í eigu Sjúkratrygginga (SJTR) Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík.

Uppfært í janúar 2025 af Hönnu Marteinsdóttur sjúkraþjálfara

© Ráðgjafar- og greiningarstöð