Hér er hægt að lesa almenna grein um kjörþögli sem birtist í Talfræðingnum, tímariti talkennara og talmeinafræðinga árið 2007 (1. tbl. 20. árg.). Höfundur er Brynja Jónsdóttir talmeinafræðingur.
Almennar ráðleggingar varðandi börn þar sem grunur er um kjörþögli
Bjóða upp á val frekar en kröfu um tal
- Mikilvægt er að finna leiðir fyrir barnið til að taka þátt í ólíkum aðstæðum með sem minnstum kvíða.
- Til að ná því fram þarf að vinna með það að venjast aðstæðum og endurtekningu. Dregið er úr kröfum um tal en áhersla er á að barnið upplifi jákvæðni tengdri þátttöku í aðstæðum.
- Smám saman lengist tíminn sem barnið tekur þátt og þátttakan verður meiri.
- Þarna skiptir máli að gefa barninu val á því hvernig það tekur þátt. Það er hins vegar ekki í boði að taka ekki þátt.
- Í staðinn fyrir að spyrja „ertu tilbúin að vera með?“ eða „hvað viltu gera?“ þá er betra að bjóða upp á nokkra valkosti og spyrja barnið hvað það vilji af möguleikunum.
Mikilvægir þættir til að létta á kröfum
- Talið við barnið einstaklingslega ef það reynist barninu erfitt að tala þegar aðrir eru nálægt.
- Komið ykkur saman um aðra leið til tjáningar fyrir barnið sem það getur notað í samskiptum við þá sem eru utan þægindaramma þess.
- Ef barnið tekur ekki þátt, þá er mikilvægt að hafa það áfram með í samtalinu með því að nota frásagnaraðferð frekar en að spyrja barnið.
- Byggið upp jákvætt samband með því leggja áherslu á það sem er skemmtilegt að gera frekar en samtal.
- Verið meðvituð um styrkleika barnsins, það er hvað barnið getur en ekki hvað barnið getur ekki.
- Verið meðvituð um að eigin kvíði og pirringur getur smitað út frá sér. Leggið áherslu á að að samskipti séu jákvæð upplifun og gerið leik úr nýjum áskorunum.
- Svarið því sem barn segir eða kemur á framfæri gegnum aðrar tjáskiptaleiðir. Ekki leggja áhersluna á það að barnið talaði eða gaf frá sér hljóð.
- Gerum ekki mikið úr því að barnið tali. Við getum þurft að útskýra fyrir jafningjahópnum að barnið muni byrja að tala einn daginn og þá eigi þau ekki að gera mikið úr því.
- Hrósið barninu aðeins í samhengi við markmið í þjálfuninni t.d. með því að setja broskall á blað eða í bók frekar en að setja á peysu barns.
- Skiptið verkefnum / aðstæðum sem eru kvíðavekjandi upp í minni búta sem barnið á auðveldara með að takast á við. Barnið tekst þá á við kvíðann í litlum skrefum.
- Hjálpið barninu að skilja að kvíði er eðlilegur og hann minnki þegar maður prófar aðstæðurnar og venjist þeim.
- Talið við barnið um hugrekkið sem það er að sýna með því að prófa nýjar aðstæður.
- Skrifið niður eða sýnið með myndum hvað muni gerast í aðstæðunum og hjálpið barninu að sjá að það þarf ekki að óttast í aðstæðunum.
- Reynið að fylgja því eftir þegar barnið sýnir jákvæða hegðun. Til dæmis þegar það sýnir hugrekki, samhug, er hjálpsamt eða hlýðið þá fylgi slíkri hegðun knús og jákvæð athygli frekar en að hafa athyglina á því þegar barnið vill ekki taka þátt.
- Ef barnið tjáir sig við einhvern sem er innan þeirra þægindaramma með bendingum eða hvísli þá er best að minna barnið blíðlega á að það sé í lagi að tala.
- Reynið að sleppa því að giska á hvað barnið vill.
- Tryggið að heima fyrir séu samtöl á rólegu nótunum og jákvæð upplifun fyrir alla innan fjölskyldunnar.
- Ekki láta aðra svara fyrir barnið og talið ekki sjálf fyrir það. Biðjið jafningjahópinn til dæmis um að svara ekki fyrir einhvern annan þegar spurt er spurninga og útskýrið fyrir barninu að það sé alveg í lagi að svara án orða þar til það sé tilbúið að tjá sig með orðum.
- Hvetjið til samskipta jafningjahópsins og barnsins en setjið ekki pressu á talað mál.
- Hugið að því að barnið eyði ekki sífellt meiri tíma eitt.
- Nýtið áhugamál barnsins með því að biðja það um að kenna þér nýja færni. Sýnið því að þið þurfið raunverulega hjálp frá barninu.
Heimildir
Johnson, M. og Wintgens, A. (2017). The selective mutism resource manual. Routledge.
© Herdís Hersteinsdóttir, Ráðgjafar- og greiningarstöð, 2024.