Þroski og færni

Vitsmunaþroski

Greindarpróf Wechslers fyrir börn á grunnskólaaldri – 4. útgáfa (WISC-IVIS) (Einar Guðmundsson, Sigurgrímur Skúlason og Kristbjörg Soffía Salvarsdóttir, 2006) eða Wechsler Intelligence Scale for Children – Fourth Edition er notað til að meta greind barna á aldrinum sex til 16 ára. Heildartala greindar lýsir almennri hæfni á vitsmunasviði en hún er reiknuð út frá frammistöðu á fjórum prófhlutum sem hver um sig metur mikilvægan hluta almennrar greindar. Málstarf byggir á munnlegum undirprófum þar sem reynir á rökhugsun, málskilning og máltjáningu við úrlausn verkefna. Skynhugsun byggir á undirprófum sem reyna á rökhugsun og sjónræna úrvinnslu. Prófhlutinn vinnsluminni byggir á undirprófum sem reyna á minni og einbeitingu þegar unnið er með heyrnrænar upplýsingar. Vinnsluhraði byggir á undirprófum sem reyna á vinnsluhraða, samhæfingu hugar og handa og sjónræna úrvinnslu. Meðaltal fyrir hvern aldursflokk er 100, frammistaða flestra liggur á milli 85 og 115. Á hverju undirprófi eru reiknaðar mælitölur, þar er meðaltalið 10 en frammistaða flestra liggur á milli 7 og 13.

Greindarpróf Wechslers handa börnum á leikskóla- og grunnskólaaldri – Endurskoðuð útgáfa (WPPSI-RIS) (Einar Guðmundsson, 2008) eða Wechsler Preschool and Primary Scale of Intelligence – Revised er notað til að meta greind barna á aldrinum þriggja til sjö ára. Heildartala greindar lýsir almennri hæfni á vitsmunasviði en hún er reiknuð út frá frammistöðu á tveimur prófhlutum, munnlegum og verklegum, sem innihalda fimm undirpróf hvor. Munnlegur prófhluti krefst munnlegra svara og reynir meðal annars á rökhugsun, málskilning, máltjáningu og talnaskilning. Verklegur prófhluti krefst svara í formi hreyfiviðbragða (benda, staðsetja, teikna) og reynir meðal annars á sjónræna úrvinnslu, samhæfingu hugar og handa og rökhugsun. Meðaltal fyrir hvern aldursflokk er 100 og frammistaða flestra liggur á milli 85 og 115. Á hverju undirprófi eru reiknaðar mælitölur, þar er meðaltalið 10 en frammistaða flestra liggur á milli 7 og 13.

Aðlögunarfærni

Vineland Adaptive Behaviour Scales – Third Edition, Survey Interview Form (VABS-3) (Sparrow, Cicchetti og Saulnier, 2016) er staðalbundið matstæki sem notað er til að meta aðlögunarfærni. Aðlögunarfærni nær yfir tiltekna hegðun sem einstaklingur þarf að búa yfir til að eiga samskipti við aðra og leysa ýmis viðfangsefni í daglegu lífi. VABS-3 er hálfstaðlað viðtal þar sem upplýsinga er aflað hjá forráðamönnum barna og unglinga. Við úrvinnslu er tekið mið af aldri og færni borin saman við frammistöðu jafnaldra. Matstækið skiptist í fjögur megin svið: Boðskipti, athafnir daglegs lífs, félagslega aðlögun og hreyfifærni.

Hreyfifærni og hreyfiþroski

Alberta Infant Motor Scale (AIMS) (Piper M.C. og Darrah, J., 1994) er grófhreyfiþroskapróf sem ætlað er að greina seinkun / frávik í hreyfiþroska ungbarna á aldrinum 0 til 18 mánaða. Niðurstöður eru gefnar í hundraðsröð meðal jafnaldra. Stuðst er við viðmið frá Kanada.

Bruininks-Oseretsky Test of Motor Proficiency (BOT-2) ( Bruininks R.H. og Bruininks B.D., 2005) er hreyfifærnipróf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4 - 21 árs. Það skiptist í fjóra hluta, þ.e. a) stjórn fínhreyfinga, b) samhæfing handa, c) samhæfing líkama og d) styrkur og snerpa. Innan hvers hluta eru tvö undirpróf. Niðurstöður eru gefnar upp í staðaltölum (meðaltal 50 ± 10), mælitölu (meðaltal 15 ± 5) og hundraðshlutum. Stuðst er við bandarísk viðmið. Íslensk þýðing leiðbeiningaheftis (Áslaug Guðmundsdóttir, Björg Guðjónsdóttir og Björk Gunnarsdóttir, 2005).

Gross Motor Function Measure (GMFM) (Palisano R.,Rosenbaum P., Walter S., Russell D., Wood E., og Galuppi B., 2002) er markbundið (criterion-referenced)/staðalbundið (norm-referenced) grófhreyfipróf fyrir börn og fullorðna með CP. Prófið skiptist í 5 undirþætti og breytingar (framför eða afturför) eru metnar með því að bera saman mælingar frá einum tímapunkti til annars. Niðurstaðan er gefin í prósentum þar sem 100% svarar til hreyfigetu 5 ára heilbrigðs barns. Til eru tvær útgáfur; lengri GMFM-88 og styttri GMFM-66. Leiðbeiningar hafa verið þýddar á íslensku (Björg Guðjónsdóttir og Unnur Árnadóttir, 2007).

Gross Motor Function Classification System Expanded and Revised (GMFCS-ER) (Palisano R., Rosenbaum P., Bartlett D. og Livingston M. 2007) er flokkun á grófhreyfifærni barna með CP, aukin og endurskoðuð útgáfa. Færniflokkarnir eru 5 (I-V) og lýsir flokkur I mestri færni. Íslensk þýðing (Björg Guðjónsdóttir, 2008) https://canchild.ca/system/tenon/assets/attachments/000/000/070/original/GMFCS-ER_Translation-Iceland.pdf

Manual Ability Classification System (MACS) (Eliasson A., Krumlinde-Sundholm L., Birgit Rösblad B., Beckung E., Arner M. og Rosenbaum P.L. 2006) er flokkun á fínhreyfifærni barna með CP á aldrinum 4-18 ára. Færniflokkarnir eru 5 (I-V) og lýsir flokkur I mestri færni. Íslensk þýðing (Gerður Gústavsdóttir og Valrós Sigurbjörnsdóttir, 2010). https://macs.nu/files/MACS_Islanske_2010.pdf

Peabody Developmental Motor Scales, 2. ed. (PDMS-2) (Rhonda Folia M. og Fewell R.R., 2000) er hreyfiþroskapróf sem ætlað er að meta gróf- og fínhreyfigetu barna frá 0 til 72 mánaða. Prófið skiptist í grófhreyfihluta (sem skiptist í 4 undirpróf) og fínhreyfihluta (sem skiptist í 2 undirpróf). Niðurstöður eru gefnar í þroskatölum (meðaltal 100 ±15) og hundraðsröð meðal jafnaldra. Stuðst er við bandarísk viðmið. Íslensk þýðing á leiðbeiningum og fyrirmælum (Anna Guðný Eiríksdóttir, Áslug Guðmundsdóttir og Björg Guðjónsdóttir 2007).

Annað um þroska og færni

Bayley Scales of Infant Development – Third Edition (BSID-III) (Bayley, 2006) er þroskapróf sem notað er til að meta þroskastöðu ungra barna á aldrinum eins til 42 mánaða. Með prófinu er hægt að leggja mat á vitsmunaþroska, málþroska, hreyfiþroska, félags- og tilfinningalegan þroska og aðlögunarfærni. Niðurstöður eru gefnar upp í þroskaaldri (lífaldur barna í stöðlunarúrtakinu sem höfðu sama stigafjölda að meðaltali).

Smábarnalistinn (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson, 2005) er íslenskur og staðlaður spurningalisti sem er ætlaður mæðrum til útfyllingar til að meta þroska smábarna á aldrinum 15 til 38 mánaða og samanstendur af sex undirprófum sem mynda tvo prófþætti: Hreyfiþátt (Grófhreyfingar, Fínhreyfingar, Sjálfsbjörg) og Málþátt (Hlustun, Tal). Niðurstöður fyrir hvert undirpróf eru gefnar upp í mælitölum þar sem meðaltalið er 50 og staðalfrávik 10. Niðurstöður fyrir prófþættina tvo eru gefnar upp í mælitölum þar sem meðaltalið er 100 og staðalfrávik 15. Heildartala listans, þroskatalan, er gerð af öllum fimm undirprófum hans og hefur meðaltalið 100 og staðalfrávik 15.

Íslenski þroskalistinn (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson, 1997) er íslenskur og staðlaður spurningalisti sem er ætlaður mæðrum til útfyllingar til að meta þroska smábarna á aldrinum 3 til 6 ára og samanstendur af sex undirprófum sem mynda tvo prófþætti: Hreyfiþátt (Grófhreyfingar, Fínhreyfingar, Sjálfsbjörg) og Málþátt (Hlustun, Tal, Nám). Niðurstöður fyrir hvert undirpróf eru gefnar upp í mælitölum þar sem meðaltalið er 50 og staðalfrávik 10. Niðurstöður fyrir prófþættina tvo eru gefnar upp í mælitölum þar sem meðaltalið er 100 og staðafrávik 15. Heildartala listans, þroskatalan, er gerð af öllum sex undirprófum hans og hefur meðaltalið 100 og staðalfrávik 15.

Communication Matrix (Rowland, 2010) er matstæki fyrir forráðamenn og fagfólk til að meta boðskiptafærni einstaklinga með fatlanir. Skoðuð eru mismunandi stig boðskipta, allt frá fyrstu stigum hjá þeim sem ekki tjá sig með máli, að notkun tákna og máls.

Einhverfa

Greiningartæki fyrir einhverfu

Greiningarviðtal fyrir einhverfu (ADI-R) eða Autism Diagnostic Interview – Revised (Rutter, LeCouteur og Lord, 2003) er viðtal þar sem foreldrar eða nánustu aðstandendur svara spurningum um þroskasögu og ýmis hegðunareinkenni sem tengjast einhverfu. Upplýsinga er aflað um núverandi hegðun og einnig um liðin tímabil, með áherslu á árið milli fjögurra og fimm ára þegar einhverfueinkenni koma gjarnan hvað skýrast fram. Einkennin sem spurt er um tilheyra flest einhverjum af einkennasviðunum þremur sem skilgreina einhverfu samkvæmt ICD-10 og DSM-IV (félagslegt samspil, mál og tjáskipti og sérkennileg og áráttukennd hegðun). Viðtalið hefur verið íslenskað og staðfært.

Autism Diagnostic Observation Schedule, Second Edition (ADOS-2) (Lord, Rutter o.fl., 2012) er staðlað matstæki sem hannað er til að kalla fram og meta félagslega hegðun og samskipti hjá einstaklingum þegar grunur er um röskun á einhverfurófi. Við athugunina er boðið upp á athafnir sem valdar eru út frá aldri og/eða færni einstaklingsins til að tjá sig með tali. Þetta er gert með því að velja viðeigandi einingu (module) en þær eru alls fimm talsins. Smábarnaeining er ætluð ungum börnum frá 12 til 30 mánaða aldri sem tala ekki eða tjá sig með stökum orðum. Eining eitt er ætluð einstaklingum frá 31 mánaða aldri sem tala ekki eða tjá sig með stökum orðum. Eining tvö er ætluð einstaklingum sem tala í einföldum setningum. Eining þrjú er ætluð börnum og unglingum sem tjá sig í löngum setningum reiprennandi. Eining fjögur er ætluð ungmennum og fullorðnum einstaklingum sem tjá sig í löngum setningum reiprennandi.

Skimunartæki fyrir einhverfu

Childhood Autism Rating Scale, Second Edition (CARS-2) (Schopler o.fl., 2010) er matstæki notað af fagfólki til að bera kennsl á einhverfueinkenni hjá börnum frá tveggja ára aldri út frá beinu áhorfi.

Gátlisti fyrir einhverfu hjá smábörnum, breyttur og endurskoðaður með eftirfylgdarviðtali (M-CHAT-R/F) eða Modified Checklist for Autism in Toddlers, Revised with Follow-Up a (Robins, Fein og Barton, 2009) er tveggja þrepa skimunartæki, ætlað börnum á 16 til 30 mánaða aldri, sem byggir á upplýsingum frá foreldrum og er ætlað að meta áhættu fyrir einhverfurófsröskun.

Spurningalisti um félagsleg tjáskipti (SCQ) eða Social Communication Questionnaire (Rutter, Bailey og Lord, 2003) er lagður fyrir foreldra eða aðra sem þekkja vel til barnsins. Listinn er til í tveimur útgáfum, æviskeiðsútgáfa (lifetime) er ætluð fyrir börn frá fjögurra ára aldri og útgáfa fyrir núverandi hegðun (current) er ætluð fyrir börn frá tveggja ára aldri. Listinn var þróaður út frá ADI-R greiningarviðtali fyrir einhverfu.

Skimunarlisti einhverfurófs (ASSQ) (Ehlers, Gillberg og Wing, 1999) eða Autism Spectrum Screening Questionnaire er skimunarlisti einkenna einhverfu ætlaður foreldrum og kennurum barna og unglinga á aldrinum sex til 17 ára til útfyllingar.

Próf fyrir einhverfurófseinkenni hjá börnum (CAST) eða Childhood Autism Spectrum Test (Scott o.fl., 2002) er skimunarlisti fyrir börn á aldrinum fjögurra til 11 ára til að skoða vanda tengdan félagsfærni og samskipum, einkum vanda á sviði einhverfurófs. Listinn er ætlaður foreldrum.

Spurningalisti um félagslega svörunarhæfni (SRS) eða Social Responsiveness Scale (Constantino og Gruber 2012) metur alvarleika skerðingar í félagsfærni hjá börnum á aldrinum fjögurra til 18 ára. Listinn er til í foreldraútgáfu og kennaraútgáfu.

Hegðun og líðan

Greiningarviðtöl fyrir raskanir í hegðun og líðan

K-SADS-PL greiningarviðtal eða Schedule for Affective Disorders and Schizophrenia for School-Age Children-Present and Lifetime version (Kaufman o.fl., 1997) er hálfstaðlað spyrjendamiðað greiningarviðtal sem byggir á stöðluðum greiningarskilmerkjum DSM-IV og greinir helstu raskanir í hegðun og líðan barna og unglinga. Íslensk staðfærsla hefur viðunandi réttmæti og áreiðanleika. Viðtalið er ætlað börnum og forráðamönnum barna og unglinga á aldrinum sex til 18 ára.

ADIS kvíðagreiningarviðtal eða Anxiety Disorders Interview Schedule for DSM-IV (Albano og Silverman, 1996) er hálfstaðlað greiningarviðtal sem byggir á greiningarviðmiðum DSM-IV. Því er einkum ætlað að greina kvíðaraskanir barna og unglinga, en jafnframt ofvirkni/hvatvísi og athyglisbrest, hegðunarvanda, mótþróa, depurð og fleira. Viðtalið er ætlað börnum á aldrinum sjö til 17 ára og foreldrum þeirra.

Skimunartæki fyrir raskanir í hegðun og líðan

Spurningar um styrk og vanda (SDQ) eða Strength and Difficulties Questionnaire (Goodman, 1997) er spurningalisti sem lagður er fyrir foreldra og starfsfólk skóla/leikskóla til að fá vísbendingar um hegðun, líðan og félagsleg samskipti barna á aldrinum fjögurra til 16 ára. Niðurstaða barns er borin saman við hóp jafnaldra.

Ofvirknikvarðinn eða ADHD-Rating Scale (DuPaul, 1998) er spurningalisti sem er lagður fyrir foreldra og kennara til að meta einkenni athyglisbrests og ofvirkni/hvatvísi hjá börnum á aldrinum fjögurra til 16 ára. Þau einkenni sem spurt er um samsvara greiningaratriðum í DSM-IV. Niðurstaða barns er borin saman við hóp jafnaldra.

Achenbach System of Empirically Based Assessment (ASEBA) (Achenbach og Rescorla, 2000) er matskerfi sem samanstendur af skimunar- og matslistum um hegðun og líðan einstaklinga yfir mismunandi æfiskeið. Listinn er til í foreldraútgáfu (Child Behavior Checklist, CBCL), kennaraútgáfu (Teacher Rating Form, C-TRF) og sjálfsmatsútgáfu fyrir börn og unglinga á aldrinum 11 til 18 ára (Youth Self Report, YSR).

Þunglyndiskvarði fyrir börn (CDI) eða Children´s Depression Inventory (Kovacs, 1992) er sjálfsmatskvarði sem er notaður til að meta þunglyndiseinkenni barna og unglinga á aldrinum sjö til 17 ára. Listinn skiptist í fimm meginþætti sem helst einkenna þunglyndi: Neikvætt skap, Samskiptavandamál, Vanvirkni, Leiði og Neikvætt sjálfsmat.

Spurningalisti um fælni og kvíða (MASC) eða Multidimensional Anxiety Scale for Children (March, 1997) er sjálfsmatslisti sem metur kvíðaeinkenni barna og ungmenna á aldrinum átta til 19 ára. Hann er samansettur af fjórum kvörðum: Líkamleg einkenni (streita og líkamleg einkenni), Forðun (fullkomnunarárátta og bjargráð), Félagsfælni (frammistöðukvíði og ótti við niðurlægingu) og Aðskilnaður/felmtur (skyndileg ofsahræðsla eða hræðsla við aðskilnað/að vera einn).

Anxiety Scale for Children – Autism Spectrum Disorder (ASC-ASD) (Rodgers o.fl., 2016) er sjálfsmatslisti sem metur kvíðaeinkenni barna og unglinga á aldrinum átta til 16 ára sem greind hafa verið með röskun á einhverfurófi. Einnig er til foreldraútgáfa af listanum (ASC-ASD – P).