Ataxia telangiectasia

Inngangur

Ataxia telangiectasia (AT) er erfðasjúkdómur sem leggst meðal annars á taugakerfi og ónæmiskerfi. Sjúkdómurinn einkennist af vaxandi óstöðugleika við hreyfingar (ataxi) sem leiðir til alvarlegrar færniskerðingar. Einnig er útvíkkun á háræðum (telangiectasia) dæmigerð.

Sjúkdómnum var fyrst lýst 1926 af tveimur frönskum læknum, Ladislav Sylalba og Kamil Henner. Elena Boder og Robert Sedwick gáfu sjúkdómnum nafnið ataxia telangiectasia en hann er einnig þekktur undir nafninu Lois-Bar-heilkenni.

Tíðni

Ataxia telangiectasia er mjög sjaldgæfur sjúkdómur. Talið er að eitt af hverjum 40-100.000 börnum greinist  með AT. Til samanburðar má geta þess að á Íslandi fæðast að meðaltali 4700 börn á ári þannig að hér á landi má búast við að barn greinist með sjúkdóminn á tíu til tuttugu ára fresti.  

Orsök

AT orsakast af stökkbreytingu í geni sem kallast ATM og er staðsett á litningi 11 (11q22.3). Genið stýrir framleiðslu á prótíni, ATM-kínasa (ATM-kinase), sem gegnir mikilvægu hlutverki við frumuskiptingu og viðgerðir á erfðaefninu. Áður en fruman skiptir sér þarf allt genamengið að tvöfaldast og er hlutverk ATM-kínasa meðal annars að uppgötva villur við afritun erfðaefnisins. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir frumur ónæmiskerfisins og þær frumur í heilanum sem stjórna hreyfingum.

Við venjulegar röntgenrannsóknir og við gjöf ákveðinna krabbameinslyfja eykst hættan á að erfðaefnið skaðist. Hjá fólki sem ekki er með AT er skaðinn lagfærður og frumur með villur í uppröðun erfðaefnisins skipta sér ekki. Hjá fólki með  AT heldur frumuskiptingin hinsvegar áfram þrátt fyrir að villa sé til staðar. Þetta leiðir meðal annars til aukinnar tíðni krabbameins og þess að hin ýmsu líffæri starfa ekki eðlilega.

Erfðir

Sjúkdómurinn erfist víkjandi sem þýðir að hann kemur einungis fram ef barn erfir stökkbreytta ATM genið frá báðum foreldrum sínum. Ef foreldrarnir eru báðir með ATM genið eru 25% líkur á því að barn þeirra fái sjúkdóminn og helmingslíkur á því að barnið verði arfberi með eitt stökkbreytt gen. Einstaklingur sem er með eitt stökkbreytt gen hefur yfirleitt það mikla framleiðslu á ATM-kínasa að einkenni sjúkdómsins koma ekki fram.

Einkenni

Einkennin geta verið margvísleg og þau eru einstaklingsbundin.

Áhrif á vöðva

Fyrstu einkenni AT eru oft þau að barnið á í erfiðleikum með að stýra hreyfingum augnanna, sem getur leitt til tvísýnis. Við 1-2 ára aldur, þegar barnið er að læra að ganga, koma fram samhæfingarerfiðleikar sem valda viðvarandi óstöðugleika. Við 4-5 ára aldur eru mörg börn með AT farin að nýta sér hjálpartæki við gang og við 9-10 ára aldur er um  helmingur þeirra farinn að nota hjólastól. Skjálfti, ósjálfráðar hreyfingar, stífni í vöðvum, jafnvægis- og kyngingarerfiðleikar og óskýrt tal geta líka einkennt sjúkdóminn. Börn með AT geta tileinkað sér nýja færni þrátt fyrir þessa erfiðleika en með aldrinum versnar samstilling sjónar og handa og geta þeirra minnkar.

Þroski

Börn með AT taka yfirleitt eðlilegum framförum í þroska fyrstu mánuðina. Vitsmunaþroski þeirra er almennt eðlilegur en seinkaður málþroski og framburðarerfiðleikar eru algengir. Sjónvandamál geta haft áhrif á lestrargetu. Samhæfingarerfiðleikar hamla skrift og geta einnig haft áhrif á leik.

Ónæmisgalli

Áhrif AT á ónæmiskerfið eru margvísleg. Hóstarkirtill, sem er hluti ónæmiskerfisins, þroskast ekki eðlilega. Sumir eru með fækkun á eitilfrumum. Flestir eru með skort á mótefnum (IgA, IgG2 og IgE) sem getur leitt til tíðra sýkinga. Endurteknar bakteríusýkingar í loftvegum og lungum eru algengastar og vöðvaslappleiki, sem hindrar eðlilegan hósta, hefur þar líka áhrif.

Önnur einkenni

Háræðavíkkun er saklaust einkenni sem sést fyrst í augnhvítunni og á eyrum. Einstaklingar með AT eiga oft erfitt með að borða vegna tyggingar- og kyngingarerfiðleika. Slef getur verið áberandi vegna slappleika í vöðvum í munni. Minnkun á framleiðslu hormóna getur valdið vaxtarskerðingu og seinkuðum kynþroska. Hárið getur gránað snemma og húðin orðið þunn og hrukkótt, jafnvel á unglingsárum. Talið er að um 20-40 % þeirra sem eru með sjúkdóminn fái krabbamein, einkum er tíðni hvítblæðis, eitlakrabbameins og brjóstakrabbameins aukin. Lífslíkur einstaklinga með sjúkdóminn minnka mjög þegar komið er á unglingsaldur.

Greining

Greiningin byggist fyrst og fremst á hinum dæmigerðu líkamlegu einkennum. Það styður greininguna ef blóðprufur sýna mótefnaskort eða ákveðið prótín (Alfa-fetoprotein). Stundum er hægt er að sýna fram á stökkbreytingu í ATM geninu. Hjá fjölskyldum þar sem stökkbreytingin er þekkt er hægt að bjóða erfðapróf á fósturskeiði. Mælt er með erfðaráðgjöf ef einstaklingur hefur greinst með AT. Hjá arfberum er tíðni krabbameins aukin þó þeir séu ekki með sjúkdóminn. Þess vegna getur haft þýðingu að upplýsa ættingja sem gætu verið með stökkbreytinguna um hugsanleg áhrif, orsök og erfðamynstur.

Meðferð

Ekki er komin fram meðferð sem læknar sjúkdóminn eða hindrar framgang hans. Mikilvægt er að barnið og fjölskyldan tengist þverfaglegu teymi sem veitir stuðning varðandi daglegt líf, heilsufar og þroska. Í slíku teymi er gjarnan barnalæknir, sálfræðingur, sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi, talmeinafræðingur og félagsráðgjafi. Stuðningurinn felst  meðal annars í meðferð við einkennum sjúkdómsins, aðstoð við að finna hjálpartæki, upplýsingagjöf og viðtölum. Einnig er veitt ráðgjöf varðandi aðlögun heimilis og leikskóla/skóla. Reynt er að viðhalda hreyfifærni sem lengst og hindra að liðir aflagist. Mælt er með að einstaklingurinn hafi aðgang að stuðningi til dæmis hjá sálfræðingi. Sömuleiðis er mælt með stuðningi fyrir foreldra og systkini hjá Systkinasmiðjunni.  Stuðningsúrræði frá félagsþjónustu geta komið að gagni svo sem skammtímavistun eða stuðningsfjölskylda.

Talmeinafræðingur getur veitt aðstoð vegna tyggingar- og kyngingarvanda, auk talþjálfunar og leiðbeininga vegna óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Næringarráðgjafi veitir ráðgjöf meðal annars varðandi orkubætingu og hentugt fæði. Hjá sumum börnum er brugðið á það ráð að tengja næringarslöngu við magann í gegnum kviðvegginn. Ef mikið er um sýkingar er hægt að gefa immunuglobulin til að bæta ónæmissvar. Mælt er með því að taka ekki röntgenmyndir nema brýn ástæða sé til þar sem einstaklingar með AT eru sérlega viðkvæmir fyrir geislun. Í staðinn er mælt með ómun eða segulómun. Í skólanum getur verið þörf fyrir sérkennslu og aðra aðstoð.

Sjúkdómsgangur

Einkenni sjúkdómsins og lífslengd er mjög einstaklingsbundin. Sjúkdómurinn er framsækinn og krefst ævilangrar meðhöndlunar. Æviskeiðið er marktækt styttra en hjá þeim sem ekki eru með sjúkdóminn og beinist meðferðin fyrst og fremst að því að auka lífsgæði. Á Íslandi er starfandi stuðningsfélagið Einstök börn og Umhyggja einnig er bent á aðstoð Sjónarhóls þar sem hægt er að fá ráðgjöf fyrir foreldra barna með sérþarfir ef á þarf að halda.   

Á heimasíðu Greiningarstöðvar er að finna nokkrar greinar þar sem fjallað er um heilkenni. Ekki eru tök á að vera með tæmandi lýsingar á meðferðarúrræðum í þeim öllum, meðal annars þar sem möguleikar á aðstoð við barn og fjölskyldu taka stöðugt breytingum. Bent er á að í öðrum greinum á heimasíðunni kunna að vera hugmyndir eða úrræði sem gætu einnig nýst fyrir börn með Ataxia telangiectasia og fjölskyldur þeirra.

Heimildir

M.a.  Frambu í Noregi og fleiri. 

© Margrét Valdimarsdóttir, Solveig Sigurðardóttir og Ingólfur Einarsson, Greiningarstöð, nóvember 2011 (síðast breytt ágúst 2013).