Oral-facial-digital syndrome I og II (Munn-andlits-fingra/táa heilkenni)

Inngangur

Munn-andlits-fingra/táa heilkenni eða Oral-facial-digital syndrome (OFD, oro-facio-digital syndrome) er samheiti yfir 9 arfgeng heilkenni sem einkennast af missmíðum á munni (Oro), andliti (Facio) og fingrum/tám (Digital). Þessu einkennamynstri var fyrst lýst árið 1941 af norska lækninum Otto J. Mohr og var þá kallað Mohrs heilkenni en í dag kallast það OFD II. Árið 1954 lýstu tveir tannlæknar, Jean Psaume og Eline Papillon-Léage, öðru heilkenni sem kallast OFD I (Papillon Léage-Psaumes heilkenni). OFD I og OFD II eru algengust þeirra heilkenna sem OFD hugtakið nær yfir og verður þeim lýst hér.
 

Tíðni

Nákvæm tíðni er ekki þekkt en talið er að einn af hverjum 100.000 nýburum sé með OFD heilkenni. OFD I heilkennið greinist einungis hjá konum, því karlkyns fóstur deyja fyrir fæðingu. OFD I er mun algengara en OFD II. Önnur heilkenni sem falla undir OFD eru mjög sjaldgæf.

Orsök

Orsök OFD I er stökkbreyting á X litningi í OFD1 geninu (CXORF5). Genið stýrir myndun prótínsins OFD1 sem gegnir hlutverki við myndun bifhára (cilia) á frumum líkamans. Kvenkyns fóstur eru með tvo X litninga og ef annar þeirra er með OFD1 stökkbreytinguna stýrir hinn X litningurinn því að nokkur framleiðsla verður á prótínínu. Framleiðslan er þó ekki nægjanleg og missmíðar koma fram á ýmsum líffærum. Karlkyns fóstur sem eru með OFD 1 stökkbreytinguna á X litningi sínum deyja í móðurkviði því þau vantar alveg þetta lífsnauðsynlega prótín.

Erfðir

OFD I erfist ríkjandi með X-litningi og koma einkenni fram ef stökkbreyting er í OFD1 geninu (high penetrance). Í flestum tilfellum er um nýjar stökkbreytingar að ræða en þá eru litlar líkur á því að foreldrar eignist annað barn með heilkennið (1%). Hinsvegar eru helmingslíkur á því að kona með OFD I heilkennið eignist stúlku sem væri með stökkbreytinguna.

OFD II erfist víkjandi og er orsökin ekki þekkt. Ef foreldrar eiga barn með OFD II eru 25 % líkur við hverja þungun á því að OFD II heilkennið komi fram.

Einkenni

OFD I Við fæðingu getur barnið verið með missmíðar á munni, andliti, fingrum/tám og heila. Andlitslag er sérkennandi með háu enni, breiðu bili milli augna (hypertelorism), misstórum nösum, flötum nefbroddi auk smávaxins kjálka og kinnbeins (micrognathia). Skarð í vör, góm eða tungu er algengt og há gómhvelfing. Lítil, góðkynja æxli (hamartoma eða lipoma) sjást oft á tungu og stundum eru tennurnar of margar eða of fáar eða þær eru óvenjulegar að lögun og staðsetningu.

Missmíð á fingrum er til staðar í 50-70% tilvika, þeir geta verið samvaxnir (syndactyly), stuttir (brachydactyly) eða bognir (clinodactyli) en sjaldnar sjást breytingar á tám. Óregluleg kölkun í útlimabeinum sést á röntenmynd og er ásamt blöðrunýrum (polycystic kidney) einkennandi fyrir OFD I.

Oft eru til staðar frávik í uppbyggingu heila (65%), einkum óeðlileg holrúm eða blöðrur (cysts), breytingar í litla heila eða hvelatengsl vantar (corpus callosum agenesis). Flogaveiki, vatnshöfuð (hydrocephalus) og jafnvægiserfiðleikar geta fylgt. Um helmingur barna með heilkennið er með námserfiðleika eða þroskahömlun sem yfirleitt er væg. Oft er málþroski barnanna seinkaður.

Blöðrunýru með vatnsfylltum holrúmum geta valdið nýrnabilun (60%). Oftast koma blöðrurnar ekki fram fyrr en á fullorðinsaldri en stöku sinnum hjá börnum. Einnig geta verið blöðrur á lifur, eggjastokkum og brisi. Hár á höfði er gjarnan þurrt og stökkt og einnig geta myndast hárlausir blettir (alopecia) á höfðinu. Litlir ljósleitir hnúðar(milia) í andliti eru mest áberandi á nýburaskeiði en geta skilið eftir sig ör.

OFD II: Einkenni OFD II eru svipuð OFD I. Höfuð er smátt (microcephali) og enni sérkennilega lagað auk þess sem kjálkinn er oft lítill. Skarð í vör og tungu er algengt og einnig tunguhaft. Tennur getur vantað eða verið óvenjulega staðsettar og góðkynja æxli verið til staðará tungu. Stundum er breitt bil milli augna og húðfelling í innri augnkróki (epicanthus). Heyrnarskerðing er algeng. Oft sjást breytingar í litla heila, sérstaklega í miðlínu (vermis).

Börn með OFD II fæðast gjarnan með samvaxna fingur eða auka fingur/tær. Auka stórutær á báðum fótum er einkennandi fyrir heilkennið. Hryggskekkja og útstætt bringubein (pectus excavatum) geta verið til staðar. Á nýburaskeiði getur öndunin verið óregluleg, löng öndunarhlé komið fram með hröðum andardrætti á milli. Oft er vöðvaspenna lág (hypotonus), hreyfiþroski seinkaður og jafnvægi skert. Hluti barnanna er með frávik í þroska.

Greining

OFD greinist við læknisskoðun en röntgenrannsóknir eru hafðar til hliðsjónar. Blöðrunýru koma einungis fram við OFD I. Stundum greinist OFD I ekki fyrr en á fullorðinsárum og þá í tengslum við nýrnabilun. Við greiningu á OFD I er einnig hægt að nota erfðapróf ef stökkbreytingin er þekkt en fylgjusýni í 12.-14. viku meðgöngu getur sýnt fram á OFD I. Breið stórutá eða auka stórutá einkennir OFD II heilkennið. Oft er hægt að greina OFD II með sónarskoðun eftir 16. viku meðgöngu. Aðrir sjúkdómar með lík einkenni eru ADPKD (Autosomal Dominant Polycystic Kidney Disease), Hnjóskahersli (Tuberous sclerosis), von Hippel-Lindau sjúkdómur og Meckel-Gruber heilkenni. Mælt er með erfðaráðgjöf.

Meðferð

Ekki er til lækning við OFD heilkenni. Meðferðin fer eftir einkennum og felst helst í skurðaðgerðum. Ef barn fæðist með skarð í vör, góm eða tungu er aðgerð gerð snemma. Góðkynja æxli í munni eru fjarlægð og stundum er þörf á tannaðgerðum. Frávik á tám og fingrum er oft hægt að lagfæra með aðgerð og stundum þarf að sérsmíða skó. Talmeinafræðingur veitir talþjálfun, er ráðgefandi við val á tjáskiptaleiðum auk þess sem hann getur leiðbeint varðandi örvun munnsvæðis.

OFD I

Tannréttingar og kjálkaaðgerðir geta verið nauðsynlegar. Mælt er með reglulegu eftirliti á starfsemi nýrna með blóðrannsóknum og blóðþrýstingsmælingum. Ef blöðrur hafa myndast á nýrum er einnig mælt með reglubundinni ómun nýrna. Við nýrnabilun er þörf á blóðskilun eða nýrnaígræðslu. Flogaveiki er meðhöndluð með lyfjum.

OFD II Öndunartruflanir þarf að rannsaka en til eru sérstök eftirlitstæki eða vaktarar (home monitoring) til að fylgjast með öndun barnsins. Til að bæta heyrn eru notuð heyrnartæki.

Þverfaglegt teymi getur veitt ráðgjöf og upplýsingar meðal annars varðandi stuðningsúrræði, eftirlit, val á hjálpartækjum og aðlögun húsnæðis. Sérkennsla er mikilvæg ef þroskafrávik eru til staðar. Fjölskyldan getur haft gagn af stuðningi sálfræðings en stuðning fyrir systkini má finna í Systkinasmiðjunni (www.systkinasmidjan.com). Stuðningsúrræði félagsþjónustu geta komið að gagni einnig á fullorðinsárum. Bent er á Sjónarhól–ráðgjafarmiðstöð (www.sjonarholl.net) þar sem hægt er að fá ráðgjöf fyrir foreldra barna með sérþarfir ef á þarf að halda. Horfur eru einstaklingsbundnar og fara eftir því hversu alvarleg einkennin eru. Ef missmíðar eru einungis á andliti og fingrum/tám eru horfurnar almennt góðar.

Frekari upplýsingar og myndir:

https://rarediseases.info.nih.gov/diseases/4121/orofaciodigital-syndrome-1

www.jisppd.com/article.asp?issn=0970-4388;year=2011;volume=29;issue=6;spage=83;epage=86;aulast=Tuli

Á heimasíðu Greiningarstöðvar er að finna nokkrar greinar þar sem fjallað er um heilkenni. Ekki eru tök á að vera með tæmandi lýsingar á meðferðarúrræðum í þeim öllum, meðal annars þar sem möguleikar á aðstoð við barn og fjölskyldu taka stöðugt breytingum. Bent er á að í öðrum greinum á heimasíðunni kunna að vera hugmyndir eða úrræði sem gætu einnig nýst fyrir börn með Oral-facial-digital heilkenni og fjölskyldur þeirra.

Heimildir

Oral-Facial-Digital Syndrome Type I, OFD1, Orofaciodigital Syndrome I. HV,B Franco. GeneReviews [Internet] 2010. Tekið af vef National Center for Biotechnology Information, U.S. National Library of Medicine í Bandaríkjunum 16.01.2012: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK1188/

Multiple milia in a newborn with congenital malformations: oral-facial-digital syndrome type 1. A Nanda og fél. Pediatr. Dermatol. 2010;27:669-70

Tekið af vef socialstyrelsen í Svíþjóð þann 03.01.2012:

http://www.socialstyrelsen.se/ovanligadiagnoser/orofaciodigitaltsyndromiochii

Tekið af vef socialstyrelsen í Danmörku þann 03.01.2012:

http://www.csh.dk/index.php?id=401&beskrivelsesnummer=300&p_mode=beskrivelse&cHash=61d6dada81

Milia: A review and classification. DR Berk, SJ Bayliss. Journal of the American Academy of Dermatology2008;59:1050-63  

© Margrét Valdimarsdóttir, Ingólfur Einarsson og Solveig Sigurðardóttir, Greiningarstöð, janúar 2012 (síðast breytt ágúst 2013).