08.08.2023
Upptökur af fyrirlestrum frá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 11. og 12. maí 2023 eru komnar á vef RGR. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir. Fyrirlestrar ráðstefnunnar voru alls 20 sem fluttir voru af 29 fyrirlesurum sem komu úr röðum fagfólks, stjórnsýslu, nemenda í sérdeildum og foreldra.
10.07.2023
Ráðgjafar- og greiningarstöð er lokuð vegna sumarleyfa frá og með 10. júlí. Opnum aftur þriðjudaginn 8. ágúst klukkan 10.
Sé erindið áríðandi má senda tölvupóst á netfangið rgr@rgr.is og verður því svarað eins fljótt og auðið er. Við minnum á upplýsingar á vef RGR, svo sem upplýsingar vegna námskeiða og fleira.
19.06.2023
Dagskrá námskeiða Ráðgjafar- og greiningarstöðvar á haustönn liggur nú fyrir. Sem fyrr kennir margra grasa í námskeiðsflórunni og eru námskeiðin kennd bæði staðbundið og í fjarkennslu. Kennd verða námskeið sem hafa verið lengi á dagskrá eins og Einhverfurófið - grunnámskeið, Atferlisíhlutun fyrir börn með þroskafrávik, AEPS - færnimiðað matskerfi, Skipulögð kennsla, Tákn með tali og mörg fleiri. Námskeið RGR henta fagfólki sem vinnur með fötluðum börnum og börnum með þroskafrávik og aðstandendum. Á dagskránni er einnig að finna nýrri námskeið eins og Náttúruleg kennsla, Skólafólk, ráð og leiðir, Systkinasmiðjan og fleiri.
19.05.2023
Föstudaginn 26. maí nk. ver Sigríður Lóa Jónsdóttir, sálfræðingur á Ráðgjafar- og greiningarstöð, doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Að bera kennsl á einhverfu snemma. Early detection of autism.
17.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar var haldin 11. og 12. maí sl. Tæplega 400 manns sóttu ráðstefnuna að þessu sinni en hún var haldin bæði á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og í streymi fyrir þau sem ekki áttu heimangengt. Góður rómur var gerður að ráðstefnunni og þeim erindum sem þar voru flutt, svo sem í könnun þátttakendur voru beðnir að taka þátt í eftir að henni lauk. Einnig komu fram í könnuninni margar góðar hugmyndir frá þátttakendum vegna vorráðstefnu RGR 2024 sem skipuleggjendur eru þakklátir fyrir og munu taka tillit til.
10.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) hefst í dag fimmtudaginn 11. maí og stendur fram á föstudag, 12. maí. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega að vori á undanförnum áratugum og er þetta í 38. skiptið sem hún er haldin. RGR heldur úti öflugu fræðslustarfi og námskeiðsdagskrá á vor- og haustönn á hverju ári en óhætt er að segja að metnaðarfull dagskrá ráðstefnunnar, þar sem málefni fatlaðra barna og barna með þroskafrávik hafa verið í brennidepli, sé kóróna fræðslustarfsins.
Ráðstefnan, sem er bæði staðbundin og send út í streymi, er opin öllum og hægt er að skrá sig til leiks allt þar til dagskráin hefst.
05.05.2023
Bilun kom upp í vefkerfi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) í gærkvöldi sem olli því að fréttatilkynning um vorráðstefnu RGR var send allt að 40 sinnum á móttakendur á póstlista. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið móttakendum. Þetta hefur ekki gerst áður í fræðslustarfinu og munum við leita leiða til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.
03.05.2023
Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) verður haldin á Reykjavík Hilton Nordica nk. 11. og 12. maí nk. Ýmis mál í deiglunni verða til umfjöllunar undir yfirskriftinni: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir. Fögnum fjölbreytileikanum er yfirskrift erindis Guðmundar Ármanns Péturssonar formanns Félags áhugafólks um Downs heilkenni. Skólafólk í Kópavogi kynnir verkefnið, Hvað gerum við þegar beita þarf líkamlegu inngripi og/eða nota einveruherbergi í skólastarfi? Fagmennska, sjálfsrækt fagfólks, farsældarlögin í framkvæmd, rafrænt aðgengi fyrir alla, þjónusta við fötluð börn af erlendum uppruna, íþróttastarf fatlaðra, jafningjafræðsla og margt fleira er á dagskránni.
18.04.2023
Dagskrá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar liggur nú fyrir en ráðstefnan verður haldin 11. - 12. maí 2023. Ráðstefnan stendur yfir í einn og hálfan dag, en henni lýkur á hádegi föstudaginn 12. maí. Yfirskrift hennar að þessu sinni er: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir.
17.04.2023
Ráðgjafar- og greiningarstöð auglýsir laust til umsóknar starf ráðgjafa í snemmtækri íhlutun á Yngri barna sviði. Á sviðinu er veitt þjónusta við ung börn og börn á leikskólaaldri og fjölskyldur þeirra. Leitað er að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á að starfa að fjölbreyttum verkefnum tengdum fjölskyldum fatlaðra barna með þverfaglegu teymi starfsfólks stofnunarinnar.