Blinda og sjónskerðing

Greindarþroski barna er mótaður af upplýsingum frá skynfærunum. Sjónin skipar þar háan sess því talið er að allt að 80% af skynjun á fyrstu árum ævinnar fáist með sjóninni. Með sjóninni skynjum við hluti í heild sinni og afstöðu til annarra hluta. Hún hjálpar okkur líka að tengja saman upplýsingar frá öðrum skynfærum. Ef sjónin er skert er mikilvægt að þjálfa fljótt aðra skynjun eins og snertiskyn, heyrn og lyktarskyn. Blind og sjónskert börn nálgast umhverfi sitt með öðrum hætti en sjáandi börn. Þau þurfa því sérstaka kennslu og leiðbeiningar til þess að geta lært það sem jafnaldrar þeirra læra með því að horfa í kringum sig.

Sjónskerðing er skilgreind út frá sjónskerpu annars vegar og sjónvídd hins vegar. Sjónskerpan er mikilvægur hluti sjónarinnar og gagnleg t.d. við lestur og aðra nákvæmnisvinnu. Skerpan er oftast metin með því að mæla hversu smáa stafi fólk getur lesið í ákveðinni fjarlægð af þar til gerðum sjónprófunartöflum. Hliðarsjónin er líka mikilvæg en hún gerir okkur kleift að skynja hreyfingar útundan okkur. Hún er mæld með sjónsviðsmælum og táknuð með gráðum sem menn sjá út frá miðju.

Niðurstöður sjónmælinga eru gefnar upp sem hlutfall (almennt brot) þar sem fyrir ofan strik kemur mælingarfjarlægðin en fyrir neðan strik sú fjarlægð sem eðlilega sjáandi einstaklingar greina viðkomandi stafi í. Einstaklingur telst blindur ef sjón mælist minni en 3/60 (5%) á betra auga með besta gleri eða ef sjónvídd er minni en 10°. Sjónin er talin skert ef sjónskerpan er minni en 6/18 (33%) á betra auga með besta gleri eða sjónsvið þrengra en 20°. Sjónskertir eiga í erfiðleikum með lestur venjulegs bókleturs þrátt fyrir bestu gleraugu. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að algengustu sjónvandamál fólks, eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja, flokkast ekki sem sjónskerðing enda leiðrétta gleraugu yfirleitt slíkan vanda.

Skyringarmynd-af-auga

Orðalisti
Sclera Augnhvíta
Iris Lithimna
Cornea Glæra
Pupil Ljósop
Lens Augasteinn
Conjunctiva Tára/augnslímhúð
Vitreous Augnhlaup
Choroid Æða
Optic nerve Sjóntaug
Macula Makúla (sjónskynjun er sterkust í þessum bletti)
Retina Sjónhimna

Blinda og sjónskerðing meðal barna er alvarleg fötlun og krefst sérhæfðrar þjónustu frá fyrstu byrjun. Miklu máli skiptir að greina sjónskerðinguna sem fyrst og hefja sértæka þjónustu eða snemmtæka íhlutun (early intervention). Búast má við að rúmlega eitt barn af hverjum þúsund, sem fæðast hér á landi, séu með galla í augum, sjóntaugum eða sjónstöðvum í heila. Í heildina fæðast hér á Íslandi u.þ.b. 5-6 sjónskert börn á ári hverju, þar af um eitt til tvö blind.

Sjónskerðing getur verið af ólíkum orsökum og lýst sér á margvíslegan hátt. Á Íslandi eru flest börn sjónskert eða blind vegna skaða eða áverka í miðtaugakerfinu. Augu þeirra eru þá heil en sjónúrvinnsla í heila skert. Mörg þeirra greinast með viðbótarfatlanir sem rekja má til miðtaugakerfisins, s.s. CP, þroskahömlun og flogaveiki. Aðrar algengar orsakir fyrir blindu eða alvarlegri sjónskerðingu hjá íslenskum börnum eru ýmsir meðfæddir augngallar t.d. smá augu (microphthalmos), meðfætt ský á augasteinum og albínismus. Í heildina má búast við að allt að helmingur sjónskertra barna sé með viðbótarfatlanir sem að sjálfsögðu hefur mikil áhrif á alla íhlutun og framtíðarhorfur barnanna.

© Solveig Sigurðardóttir, Greiningarstöð, 2011.