Börn á grunn- og framhaldsskólaaldri og fjölskyldur þeirra fá þjónustu á eldri barna sviði.

Byggt er á teymisvinnu með áherslu á þátttöku foreldra og þjónustuaðila sem fjölskyldunum tengjast, svo sem skólum, félags- og skólaþjónustu. Starfsmenn sviðsins sinna fræðslu og ráðgjöf til fjölskyldna og samstarfsaðila bæði í formi námskeiða og einstaklingsmiðaðrar fræðslu. Þar er meðal annars fjallað um einhverfu, þroskahömlun og ýmsar hagnýtar leiðir í starfi með börnum og ungmennum með sérþarfir þar sem færni í daglegu lífi, félagsleg þátttaka og undirbúningur fyrir fullorðinsárin eru í brennidepli.

Þegar barni hefur verið vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð og máli þess hefur verið vísað á fagsvið er ákveðið hvaða starfsmaður verður tengill fjölskyldunnar og hefur yfirsýn yfir þjónustuna. Hann ræðir við foreldra og fær mynd af þörfum og styrkleikum barns og fjölskyldu. Í samstarfi við annað fagfólk tekur tengillinn þátt í að miðla upplýsingum og stuðla að viðeigandi úrræðum og samvinnu milli þjónustukerfa. Hlutverk hans er einnig að styðja foreldra og hvetja þá til virkrar þátttöku, meðal annars til að gera kröfur um og eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða þjónustu við barn og fjölskyldu. Hlutverk tengils getur verið breytilegt eftir eðli mála og verklagi á fagsviðum.

Áhersla er lögð á að greina þarfir og styrkleika viðkomandi barns og fjölskyldu, svo finna megi leiðir til að efla sjálfstæði og þátttöku í samfélaginu. Til að meta færni, þroska og hegðun er aflað upplýsinga með viðtölum við foreldra og barn, auk þess sem lagðar eru fyrir staðlaðar athuganir og spurningalistar. Kennarar veita einnig mikilvægar upplýsingar um nám, færni og félagslega stöðu nemandans í skólanum. Góð samvinna er við fagfólk í öðrum þjónustukerfum eins og skóla- og félagsþjónustu, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, barnalækna og aðra sérfræðinga.

Starfsfólk Eldri barna sviðs