Ráðgjafar- og greiningarstöð (RGR) hefur breytt skipulagi sínu. Það hefur verið einfaldað og sviðum fækkað úr sjö í þrjú. Nýju sviðin eru Greiningarsvið, Ráðgjafarsvið og Skrifstofa forstjóra. Til að tryggja sem besta nýtingu á þekkingu sérfræðinga stofnunarinnar verða einnig starfandi verkefnamiðuð teymi þvert á sviðin.
Megintilgangur breytinganna er að bæta þjónustu við hagaðila og stuðla að meiri samfellu í þjónustu stofnunarinnar, hvort sem það er við fötluð börn, fjölskyldur þeirra, þjónustuaðila eða aðra samstarfsaðila. Börn/fjölskyldur sem eru í mestri þörf fyrir sérhæfða ráðgjöf og/eða langtímaeftirfylgd eru þannig tengd einu sviði þann tíma sem þau eru í þjónustu hjá RGR, þ.e. Ráðgjafarsviði en fá jafnframt þjónustu frá Greiningarsviði þegar kemur að athugunarferli barns. Önnur börn tengjast fyrst og fremst Greiningarsviði en fá jafnframt tímabundna þjónustu Ráðgjafarsviðs, eftir því sem ástæða er til.
Helstu verkefni Ráðgjafarsviðs eru sérhæfð ráðgjöf og eftirfylgd vegna barna með miklar áskoranir í taugaþroska. Einnig er veitt langtímaeftirfylgd vegna barna með flókinn samsettan vanda og víðtækar þjónustuþarfir. Byggt er á teymisvinnu og gildum fjölskyldumiðaðrar þjónustu. Þjónustan er sniðin að þörfum hverrar fjölskyldu og reynt að stuðla að viðeigandi úrræðum og samvinnu milli þjónustukerfa. Veitt er sérhæfð ráðgjöf t.d. vegna áskorana tengdum fæðuinntöku, hegðun, tjáskiptum og svefni.
Helstu verkefni Greiningarsviðs er að annast þverfaglegar athuganir á börnum sem vísað er á stofnunina í kjölfar frumgreiningar. Algengustu ástæður tilvísunar eru grunur um einhverfu og/eða þroskahömlun. Athugunarferli byggist á þverfaglegri teymisvinnu og notkun viðurkenndra mats- og greiningartækja, þar sem lögð er áhersla á þátttöku foreldra og barns, auk þess sem ítarlegra upplýsinga er aflað frá þjónustuaðilum sem fjölskyldunum tengjast, s.s. skólum, heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi sérfræðingum og félags- og skólaþjónustu.
Starfsfólk beggja sviða annast fræðslu og ráðgjöf til fjölskyldna og samstarfsaðila, í formi námskeiða auk einstaklingsmiðaðrar fræðslu og ráðgjafar.
Á Skrifstofu forstjóra eru verkefni sem ná til innri og ytri þjónustu stofnunarinnar, þ.e. reksturs, mannauðs, fræðslu- og kynningarmála, rannsókna og samskipta (úrvinnslu tilvísana og skjalavörslu) ásamt Stöðluðu mati á stuðningsþörf fatlaðs fólks frá sex ára aldri (SIS A og SIS C mat). Með breytingunni verður betri nýting á sérþekkingu starfsfólks, auðveldara verður að veita þjónustu út frá þörfum hverju sinni og stofnunin þar með betur í stakk búin til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni.