Vorráðstefna 2017

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu 11. og 12. maí í vor undir yfirskriftinni Fötluð börn og ungmenni. Heildræn þjónusta: árangur og áskoranir. Hér er hægt að skoða glærur frá ráðstefnunni.

Dagskráin er fjölbreytt að venju, fyrirlesarar koma víða að og hafa ólíkan bakgrunn. Að þessu sinni verður dagskránni ekki skipt upp í tvær málstofur samtímis heldur gefst kostur á að hlýða á alla fyrirlestrana og taka þátt í umræðum.

Undir yfirskriftinni Heildræn þjónusta – Sameiginleg ábyrgð munu fulltrúar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar, ríkis og Reykjavíkurborgar ræða mikilvægi heildrænnar þjónustu fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra og ýmsar áskoranir í því sambandi. Ný framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra verður kynnt og útskýrt hvernig Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra er lagður til grundvallar þjónustu í Reykjavík. Vel heppnuð þjónustuúrræði verða einnig til umræðu þ.e. teymisvinna fyrir börn með hegðunar- og tilfinningavanda með þátttöku m.a. barna- og unglingageðdeildar og samþætt þjónusta fyrir börn í Breiðholti. Að lokum mun ungur maður með hreyfihömlun gera grein fyrir sínum viðhorfum, mikilvægi sjálfstæðrar búsetu og virkrar þátttöku í samfélaginu.

Einhverfa – Ýmsar áskoranir er yfirskrift dagskrárinnar eftir hádegi þann 11. maí. Kynntar verða nýjar leiðbeiningar um verklag við greiningu einhverfu og rætt hvort háskólar á Íslandi undirbúi fagfólk til vinnu með einhverfum börnum. Viðhorf gagnvart einhverfum verða reifuð ekki síst sérstaða stúlkna. Framkvæmdastjóri Specialisterne gerir grein fyrir þeirra starfi, m.a. því hvernig styrkleikar fólks á einhverfurófi nýtast á vinnumarkaði, og ungur maður segir frá sinni reynslu af vinnu á almennum markaði. Í lok dags fáum við föður fatlaðs barns til að lýsa sinni reynslu af þjónustunni.

Heildræn og örugg þjónusta – Lærum af reynslunni er yfirskrift dagskrárinnar að morgni 12. maí. Í ljósi umfjöllunar um skýrslu Vistheimilanefndar um Kópavogshælið verður sjónum beint að mannréttindum fatlaðra. Frummælendur verða með stutt innlegg og í kjölfarið eru pallborðsumræður þar sem tækifæri gefst til fyrirspurna og skoðanaskipta. Gerð verður grein fyrir mikilvægi sveigjanleika í þjónustu við ungt fólk sem Reykjavíkurborg stefnir að með tilraunaverkefninu „Frá barni til fullorðins“ og sjónum beint að þeirri lífsfyllingu sem íþróttir og sumardvöl veitir fötluðum börnum.

Undir yfirskriftinni Menntun fyrir lífið verður gildi menntunar í víðu samhengi reifað og bent á nýjar leiðir til náms og afþreyingar með aðstoð tækninnar. Fulltrúar Klettaskóla ræða hugmyndafræði skólans og heildstæða þjónustu sem þar er veitt. Nýr fræðsluvefur (www.leikni.is) um samskipti og kynheilbrigði verður kynntur sem og diplómanám í myndlist fyrir nemendur með þroskafrávik.

Snemmskráning á ráðstefnuna er frá 10. mars til 25. apríl. Frá 26. apríl hækkar ráðstefnugjaldið.

Skráningu lauk mánudaginn 8. maí kl. 13:00.

Staður: Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík hér er kort

Dagsetning og tími: 11. og 12. maí kl. 09:00-16:00.

Hér er hægt að skoða dagskrána