Félagshæfnisögur eða félagsfærnisögur eru stuttar sögur sem hjálpa barninu í ýmsum aðstæðum. Sögurnar er auðvelt er að útbúa og nota. Sagan er lesin með barninu áður en það fer í viðkomandi aðstæður. Það má síðan taka söguna með og til dæmis hafa hana í töskunni og rifja upp ef á þarf að halda. Barnið er minnt á, „Manstu hvað gerist næst í sögunni?“ Einnig er hægt að lesa söguna fyrir barnið áður en það fer að sofa þar til það hefur lært hana.

Grunnatriði

  • Sögurnar eru stuttar, oftast 1 A4 blað
  • Þær eru alltaf jákvæðar
  • Heiti þeirra er lýsandi fyrir það sem sagan er um, til dæmis „Ég fer í bað“
  • Sagan er skrifuð eins og barnið sé að segja hana: „Ég heiti Óli og ég á heima ...“
  • Leitast við að hrósa barninu í sögunni: „Ég er duglegur“
  • Félagshæfnisögur enda oft á uppörvandi setningu eins og: „Það er gaman í sundi“

Sjá líka hér:

  • Í hverri sögu eru teknar fyrir afmarkaðar aðstæður
  • Lýst er hvernig æskilegt er að barnið bregðist við í aðstæðunum
  • Ekki hafa kröfurnar of miklar í sögunni
  • Gott að hafa myndir sem tengjast áhugamáli barnsins
  • Myndir fást til dæmis með því að leita á netinu, líka má nota ljósmyndir eða teikningar
  • Myndir eru valdar eftir aldri og þroskastigi
  • Nota einfalt mál sem barnið skilur
  • Fyrir yngri börn eru setningar stuttar og margar myndir, fyrir unglinga er meiri texti og færri myndir
  • Sögurnar eru sagðar á hlutlausan hátt og ekki minnst á það sem á ekki að gera, nema einstaka sinnum fyrir unglingana
  • Það er hægt að segja söguna með nafni barnsins „Sigga getur...“
  • Gott er að tala um að reyna: „Ég ætla að reyna að ...“
  • Sleppa neikvæðum orðum og fullyrðingum eins og „alltaf“ eða „aldrei“ því sum börn taka þeim bókstaflega. Betra er að nota „stundum“ og „oftast“
  • Ekki vera með fleiri en 1-2 félagshæfnisögur í gangi í einu
  • Sagan er notuð eins oft og þörf er á
  • Þegar barnið er búið að læra söguna - og hegðunina - er sagan tekin úr umferð
  • Mælt er með því að geyma gamlar félagshæfnisögur til dæmis í möppu ef ástæða væri til að grípa til þeirra aftur seinna
  • Sumum börnum finnst gaman að skoða gamlar félagshæfnisögur til að rifja upp allt sem þau kunnu ekki en eru farin að gera betur
  • Stundum er hægt að fá aðstoð við að gera félagshæfnisögur hjá starfsmönnum leikskóla eða skóla
  • Sögurnar leiðrétta misskilning og geta minnkað kvíða. Þær hjálpa barninu að skipuleggja sig og leysa vandamál


Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Sigrún Hjartardóttir og Margrét Valdimarsdóttir, nóvember 2011.