Tíu ráð til að fá börn til að fylgja fyrirmælum (fyrir foreldra barna á aldrinum 1-12 ára)

1. Fækka fjölda fyrirmæla yfir daginn.

2. Ekki gefa fyrirmæli þegar barnið er í leik. Einbeita sér frekar að því að gefa barninu athygli (t.d. horfa á eða snerta létt) þegar það leikur sér og hrósa því þegar þú ert ánægð(ur) með það sem barnið er að gera. Vera til staðar fyrir barnið og taka því vel þegar það vill sýna þér eitthvað.

3. Gefa skýr fyrirmæli sem fela í sér verknað sem hægt er að fylgja eftir (t.d. komdu, taktu diskinn þinn, osfrv.). Ekki gefa fyrirmæli um að borða, sofa, pissa/hafa hægðir í klósettið eða tala (t.d. „segðu fyrirgefðu“). Þessa færni þarf að kenna með mótun ef barnið hefur ekki lært hana á viðeigandi aldurskeiði.

4. Gefa marga valkosti yfir daginn utan skipulegs íhlutunartíma og ýta þannig undir tilfinningu barnsins að það hafi stjórn á eigin lífi. Til dæmis að leyfa því að velja  á milli nokkurra valkosta um fatnað eða hvað það fær í drekkutíma eða í hvaða röð eigi að gera hlutina.

5. Nefna nafn barnsins áður en fyrirmæli eru gefin, bíða aðeins og halda fyrst áfram þegar barnið hefur svarað þér, horfir á þig og er hætt því sem það var að gera. Kenndu þetta með því að:

a) Segja barninu eða kenna því að þegar nafn þess er nefnt ætlist þú til þess að það hætti því sem það er að gera, svari með „já“-i, horfi á þig og bíði eftir fyrirmælum.

b) Mikilvægt er að nota nafn barnsins líka í upphafi setningar þegar þú hrósar því. Og rétt áður en þú gefur því góðgæti eða þegar það fær að gera eitthvað sem því finnst skemmtilegt. Þannig fyllist barnið áhuga þegar nafn þess er nefnt. Það skiptir máli að barnið geti átt von á skemmtilegum hlutum þegar það heyrir nafnið sitt þannig að nafn þess sé ekki eingöngu tengt við fyrirmæli.

6. Gefa stutt, skýr og hnitmiðuð fyrirmæli, til dæmis: „Jón.... settu alla kubbana í kassann“ en forðast óljós orðmörg eða óbein skilaboð eins og: „Láttu ekki svona“, eða „Mér finnst nú vera kominn tími til að einhver annar en ég taki til hér á heimilinu“.

7. Ef barnið þitt er ekki farið að svara nafni, reyndu þá að vera nálægt því og í hæð við það þegar þú gefur fyrirmælin. Snertu öxl þess eða handlegg og náðu fyrst athygli barnsins, til dæmis með smá hrósi. Þá væri hægt að leggja hendur þínar varlega yfir hendur barnsins ef það er enn upptekið af einhverju sem það er með í höndunum. Síðan orða fyrirmælin þannig að það komi fram hvað barnið á að gera en ekki það sem barnið á ekki að gera.

8. Gefðu fyrirmæli í þremur þrepum (segja, sýna, hjálpa). Alltaf að fylgja því eftir sem þú biður barnið um.

a) Þegar þú hefur náð athygli barnsins gefðu því nákvæm og skýr fyrirmæli eins og „náðu í boltann“.

b) Ef barnið hlýðir ekki þessum einföldu og skýru fyrirmælum eftir 5 sekúndur, endurtaktu þau þá og í þetta sinn sýnir þú barninu hvernig þú ætlast til þess að það geri.

c) Ef barnið fer ekki heldur eftir þessum fyrirmælum 5 sekúndum seinna endurtaktu þá fyrirmælin aftur og beindu því þá mjúklega að því sem það á að gera, til dæmis með því að taka hönd þess mjúklega í þína og færa það að boltanum sem það á að ná í. Alltaf fara eins varlega og nota sem minnsta stýringu og hægt er að komast af með. Passa að tónn raddar þinnar sé eðlilegur og vingjarnlegur, ekki byrsta þig. Það er mikilvægt að grípa ekki inn í með því að ljúka verkinu fyrir barnið og að sýna ekki neikvæðri hegðun athygli meðan þú ert að leiðbeina því.

d) Ef barnið fylgir fyrirmælunum strax eftir fyrstu leiðsögn (munnleg fyrirmæli) eða í annað skipti (munnleg fyrirmæli og því sýnt hvað á að gera) – hrósaðu þá barninu og orðaðu það sem barnið gerði vel. Til dæmis að segja: „Þakka þér fyrir að taka upp boltann“ eða „Dugleg(ur) ertu að taka upp boltann“. Ef þú þurftir að hjálpa barninu með því að nota líkamlega snertingu við leiðsögnina (þriðja þrepið) skaltu ekki hrósa barninu sérstaklega en einfaldlega halda áfram og gefa næstu fyrirmæli eða snúa þér að öðru sem liggur fyrir.

9. Hrósaðu barninu eða gefðu því aðra viðurkenningu þegar ástæða er til og jafnvel stöku sinnum einhverja umbun þegar það fylgir fyrirmælum þínum. Ef barnið hlýðir ekki er mikilvægt að veita því sem minnsta athygli (bæði jákvæða sem og neikvæða athygli), en sjá til þess að fyrirmælunum sé fylgt eftir.

10. Ef barnið fær reiðikast eða sýnir árásarhegðun þegar því eru gefin fyrirmæli er hægt að setja barnið í hlé í 1-2 mínútur á öruggan stað þar sem það hefur ekki aðgang að afþreyingu og getur róað sig. Að hléinu loknu er barninu gefin fyrirmælin aftur. 

Ten Compliance Strategies for Use in the Home by Parents og Young Children (1 to 12 years of age) eftir Gregory Hanley og Lauren Beaulieu við Wester New England University (2011). Þýtt með leyfi Gregory Hanley.

© Margrét Valdimarsdóttir, Tinna Björk Baldvinsdóttir og Atli Freyr Magnússon þýddu, Greiningar- ráðgjafarstöð, apríl 2013.