Tákn með tali (TMT) er tjáskiptaaðferð sem upphaflega var þróuð fyrir nemendur með mál- og tjáskiptavanda en reynslan hefur sýnt fram á að hún hentar mun fjölbreyttari hópi fólks á öllum aldri. Aðferðin byggir á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Um er að ræða náttúruleg tákn svo sem bendingar, látbragð og svipbrigði að viðbættum táknum úr táknmáli heyrnarlausra. Áhersla er lögð á að tákna lykilorð hverrar setningar.
TMT nýtist fólki á öllum aldri sem hefur tal- og málörðugleika af öðrum orsökum en heyrnarleysi. Undanfarin ár hefur komið í ljós að aðferðin nýtist vel í fjölmenningarlegu umhverfi til dæmis í leik- og grunnskólum. Aðferðin er málörvandi fyrir öll ung börn og því óhætt að hvetja foreldra og kennara ungra barna að nota TMT sem skemmtilegt málörvunartæki sem um leið hjálpar þeim sérstaklega sem á þurfa að halda
Takk fyrir mig Ég vil borða Mér er kalt
TMT er ávallt notað samhliða tali enda er markmiðið að kenna viðkomandi að tjá og skilja íslenskt talmál. Táknin gera málið sjónrænt og styðja þannig við töluðu orðin. Táknin vara lengur en orðin sem hverfa um leið og þau eru sögð. Það gefur viðkomandi lengri tíma til að vinna úr og skilja það sem sagt er. Táknin eru oftast myndræn og lýsandi og því auðskilin. TMT er í raun eðlilegt framhald af þeim tjáningarmáta sem flest ung börn hafa og ráða við löngu áður en þau hafa þroska til að mynda töluð orð.
Misjafnt er hvenær byrjað er að nota TMT með barni enda mismunandi hvenær fólk áttar sig á að barn virðist ekki hafa náð valdi á talmáli á tilætluðum tíma. Ekkert er því til fyrirstöðu að nota TMT með barni strax á fyrstu aldursmánuðum þess á sama máta og við tölum við öll börn strax frá fæðingu þó fyrstu orð þess heyrast ekki fyrr en tæplega ári síðar.
Ung börn og börn með þroskaskerðingar þurfa góðan tíma, öflugar/stöðugar fyrirmyndir og miklar endurtekningar til að tileinka sér nýja þekkingu. Fólk sem umgangast barnið þarf að sýna þolinmæði og þrautseigju. Það tekur börnin misjafnlega langan tíma að tileinka sér táknin og því mikilvægt að gefast ekki upp á lærdómsferlinum. Það jafnast fátt á við það að sjá barn nota fyrsta táknið sitt.
Til að byggja upp gott Tákn með tali umhverfi fyrir barn þarf að gera TMT að eðlilegum þætti í daglegu umhverfi þess. Muna þarf að nota táknin alltaf þegar talað er við barnið. Gott er að hafa í huga að tákna í byrjun aðeins stök orð en ekki heilu setningarnar. Mikilvægt er að sett séu raunhæf markmið og ætla sér hvorki of mikið né of lítið. Nota skal óspart þau tákn sem fólk kann og bæta við táknaforðann eftir þörfum. Mikilvægasta hlutverk þeirra sem annast barnið er að vera góðar fyrirmyndir. Barnið lærir ekki ný tákn nema það sjái aðra nota þau – barnið lærir ekki að nota táknin í samskiptum nema það sjái aðra gera það. Barn sem búið er að læra fullt af táknum og nýtir þau til að tjá sig gerir það ekki við þá sem ekki nota tákn á móti. Mikilvægasta hlutverkið er sem sagt að vera „góðar fyrirmyndir“.
Best er að byrja á að nota tákn sem eru notuð daglega og oft á dag. Þessi tákn tengjast oftast:
- Daglegum athöfnum s.s: Borða, drekka, baða, leika, duglegur, meira, allt búið, bless, datt, takk, gaman
- Leikföngum og áhugaverðum hlutum s.s: Bolti, sími, dúkka, bíll, bók, kubbar, dudda, kisa …
- Fólkinu í nærumhverfinu og gæludýrum heimilisins s.s: Mamma, pabbi, afi, amma, Óli bróðir, Emma systir, Tara (hundurinn), Siggi frændi …
Sofa Drekka Góður Bless
- Notuð eru um 40 tákn á dag.
- Flest tákn sem eru notuð koma fyrir oft á dag og flesta daga.
- Börn læra táknin smátt og smátt því þau sjá þau notuð aftur og aftur.
- Munið að það getur tekið tíma fyrir barn að byrja að gera fyrstu táknin og það gerist bara ef þau sjá okkur nota þau.
Heiti sem nýtast við leit á netinu:
TMT=Tákn með tali
TTT=Tegn til tale (danska)
TTT=Tecken till tal (sænska)
TSS=Tecken som stöd (sænska)
Key word signing (enska)
Baby signs (enska)
Signing for hearing (enska)
Íslenskt efni:
Tákn með tali - Orðabók með táknmyndum og fræðslu, gefin út af Menntamálastofnun. Höfundar: Sigrún Grendal Magnúsdóttir og Björk Alfreðsdóttir. Teiknari táknmynda: Sigurborg I. Sigurðardóttir. Orðabókin skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er fræðsla og kynning á TMT og hugmyndir í kennslu og þjálfun. Í seinni hlutanum er táknasafnið sjálft – 790 táknmyndir. Hægt að prenta bókina út og eiga útprentaða í aðgengilegri möppu.
TMT rafbók - Sama bók og lýst er hér að ofan nema í rafrænu formi þannig að það er hægt að fletta og skoða hana í rafrænu formi.
TMT CD - Verkfæraforrit (sbr TMT tölvuforritið hér að ofan) fyrir kennara sem nota Tákn með tali með nemendum sínum. Forritið er ætlað til að auðvelda vinnu sem fylgir gerð náms-og kennsluefnis í tengslum við TMT. Fljótlegt er að finna tiltekna táknmyndir og nota þær á fjölbreyttan hátt. Forritið tekur mið af algengum teikniforritum. Notandinn flettir upp á táknmyndum, velur og setur þær inn á blaðsíðuna.
TMT tölvuforrit - Forritið er á vef Menntamálastofnunar og inniheldur leiðbeiningar, forritið sjálft og þau tákn sem koma fyrir í TMT orðabókinni. Höfundur: Indriði Björnsson. TMT forritið er verkfæri fyrir fagfólk og aðra þá sem nota TMT með skjólstæðingum sínum. Notað til að útbúa efni til þjálfunar og kennslu, verkefnavinnu, gera söngbækur, veggspjöld, merkingar o.fl. skemmtilegt.
Það er upplagt að nota TMT forritið þegar verið er að útbúa ýmis konar kennsluefni svo sem einstaklingsmiðaðar TMT orðabækur, merkja fatahólf barnanna í leikskólanum, setja tákn við söngtexta og fleira. Táknmyndirnar eru svart-hvítar og skýrar í útprentun. Vert er að hafa í huga að táknmyndirnar eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir fullorðna fólkið til að skilja og læra ný tákn. Börnin læra táknin á því að sjá þau notuð í daglegum samskiptum og aðstæðum heima, í skólanum og samfélaginu.
Tmt.is er skemmtilegur vefur til að skoða í tölvunni. Byggir á táknunum sem finnast í Tákn með tali orðabókinni (menntamálastofnun). Hér eru táknin í lit og með hreyfingu. Hægt er að prenta táknin út en þau verða ekki eins skýr og í ofangreindu forriti frá Menntamálastofnun. Vefstjóri er Inga V. Einarsdóttir. Þessi vefur verður ekki í áframhaldandi þróun.
TMT orðabókin mín - er lítið hefti sem Inger Jóhanna Daníelsdóttir þroskaþjálfi og Sigrún Grendal Magnúsdóttur tóku saman fyrir þá sem eru að byrja að kenna og nota TMT. Um er að ræða einföld tákn sem tengjast daglega lífinu. Upplagt er að hafa þessi tákn sem viðmið um fyrstu tákn barnsins. Þeim fylgja einfaldar myndir (Picture Communication Symbols) sem geta hjálpað þeim aðstandendum sem ekki skilja íslenska textann sem er við hvert tákn. Heftið nýtist fjölskyldunni og þeim sem eru að vinna með barnið í skóla og frístundum. Auðvelt er að bæta við texta á öðrum tungumálum. Upplagt að prenta heftið og setja í möppu sem höfð er aðgengileg sem flestum.
Tákn með tali - Vinnustund með Sigrúnu Grendal - Upptaka á YouTube ætluð ungum notendum TMT.
Upplagt að horfa saman á þetta myndband og fá hugmyndir hvernig hægt er að nota TMT með ungum börnum og þeim sem eru að læra TMT. Myndbandið hefur notið mikillar vinsælda hjá yngri kynslóðinni. Mörg barnanna hafa lært öll táknin sem þarna eru tekin fyrir og eru dugleg að herma og prófa sig áfram.
Mimi bækurnar - fjalla um söguhetjuna Mimi, sem segir stuttar sögur þar sem notast er við einföld tákn með tali til að laða fram orðmyndun barna. Bækurnar fást hjá Pennanum Eymundsson, Heimkaupum og Forlaginu og eru auk þess komnar á bókasöfn víða um land.
Gullkistan - er borðspil sem inniheldur 300 spurningar táknaðar með Tákn með tali tjáningarleiðinni.
Spilið hentar fyrir fólk frá 4ra ára aldri. Þetta er frábært spil sem hentar fullkomlega fyrir leikskóla, grunnskóla og alla sem vilja æfa sig og læra Tákn með tali. Spilið stuðlar jafnframt að félagslegri þátttöku. Landssamtökin Þroskahjálp veittu viðurkenningu þessu lokaverkefni til B.A. gráðu í þroskaþjálfafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vorið 2023. Höfundar verkefnisins eru Elísa Marey Sverrisdóttir, Sara Hlín Liljudóttir og Snædís Helma Harðardóttir.
TMT námskeið: Á vef Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að finna upplýsingar um þau TMT námskeið sem haldin eru á vegum stofnunarinnar. Hægt að sérpanta TMT námskeið sem haldin eru fyrir ákveðna hópa og stofnanir. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá fræðslu- og kynningarsviði Ráðgjafar- og greiningarstöðvar með því að senda tölvupóst á fraedsla@rgr.is eða hringja í síma 510 8400.
©Ráðgjafar- og greiningarstöð
Sigrún Grendal Magnúsdóttir talmeinafræðingur, febrúar 2024.