Nokkur hagnýt ráð í vinnu með börnum á einhverfurófinu

Einhverf börn upplifa heiminn oft óútreiknanlegan og streituvekjandi. Til að barnið nái sem bestum árangri þarf það aðstoð til að skilja umhverfi sitt betur og auk þessa er miklvægt að aðlaga umhverfið eins og hægt er að þeirra þörfum.

Gefðu barninu þann tíma sem það þarf

Mörg einhverf börn þurfa lengri tíma til að sinna flestum athöfnum í daglegu lífi. Til dæmis við að færa sig milli kennslustofa, koma sér að því að læra og gera skrifleg verkefni. Þetta á líka við verkefnin heimavið. Oft þurfa þau meiri tíma en aðrir til að aðlaga sig að nýju umhverfi.  Það hjálpar ekki að reka á eftir barninu!

Þau þurfa að vera vel undirbúin

Það er mikilvægt að undirbúa barnið vel fyrir breytingar. Dæmi um þetta er breyting á uppröðun húsgagna eða ef daglegar venjur riðlast. Því er gott að segja barninu ef líkur eru á því að dagskrá geti hugsanlega breyst. Ein leið til að undirbúa barnið er að nota félagsfærnisögur.

Frjáls tími

Oft hefur gagnast vel að börnin hafi tækifæri til að komast burt úr kennslustofunni eða öðrum krefjandi aðstæðum þegar þau hafa fengið nóg. Það er mikilvægt að leggja ekki of mikið á barnið á hverjum degi. Barnið þarf þó að fá tækifæri til að kljást við erfið og létt verkefni og framkvæma  bæði það sem þau langar til að gera og það sem þau langar ekki að gera. Það getur reynst vel að kenna börnunum leiðir til að róa sig niður.

Skynúrvinnsla

Mikilvægt er að huga að skynúrvinnslu barnsins t.d. viðkvæmni fyrir hljóðum eða snertifælni. Nauðsynlegt er að vera meðvitaður um hvaða skynáreiti barnið þolir illa. Hvaða áreiti mætti forðast til að gera lífið auðveldara? Hvaða áreiti mætti auka?

Sjónrænar vísbendingar

Sjónrænar vísbendingar eru mjög mikilvægar til að aðstoða barnið í ýmsum aðstæðum í daglegu lífi. Sjónrænar vísbendingar eru til í ólíkum formum t.d. gæti verið gagnlegt að hafa lista yfir hvað er ætlast til af barninu í kennslustund. Sömuleiðis má gera lista t.d. með myndum yfir hvaða verkefni barnið á að gera og krossa við þegar það klárar og einnig er hægt að gera fyrirmynd af verkefninu. Ein hugmynd er að gera miða sem gæti verið fyrirfram ákveðin vísbending um að fara á rólegan stað.

Notaðu einfalt tungumál

Talaðu skýrt og reyndu að einfalda mál þitt jafnvel þótt barnið noti stundum flókið mál í eigin tali. Einhverf börn eiga erfitt með að skilja hæðni, orðatiltæki og líkingar. Þau eiga einnig erfitt með að skilja tjáningu án orða. Vertu eins skýr og hnitmiðaður og mögulegt er í þeim skilaboðum sem þú gefur barninu.  Það er mun árangursríkara að brjóta verkefni niður í litlar einingar frekar en að nota almenn fyrirmæli. Sem dæmi er betra að segja barninu frekar að ganga fyrst frá bókunum og svo frá fötunum en að segja því að laga til í herberginu sínu því þá getur  barnið átt erfitt með að átta sig á hvar það á að byrja. Í kennslustofunni þarf að taka tillit til þess að hópfyrirmæli vilja fara framhjá börnum á einhverfurófinu. Það þarf að skrifa mikilvæg fyrirmæli upp á töflu og minna barnið á að taka þau til sín. Hafa í huga að gera fyrirmælin eins nákvæm og mögulegt er. Fáðu endurgjöf frá barninu um að það skilji hvað er ætlast til af því t.d. með því að láta barnið endursegja fyrirmælin.

Útskýrðu það sem þú ert að gera upphátt

Börn á einhverfurófinu þurfa oft meiri tíma til að læra það sem öðrum finnst sjálfsagt. Ef aðstæður leyfa er hægt að kenna þeim með því að segja upphátt frá því sem verið er að gera. Til dæmis er hægt að kenna hvernig tekist er á við minniháttar vonbrigði með því  að orða upphátt hvað gert er í slíkum aðstæðum: T.d. þegar þú týnir lyklunum þínum, þá leitar þú fyrst í vasanum, hvar varst þú þegar þú notaðir þá síðast...?  Það getur reynst vel að undirbúa barnið fyrir það sem á að gerast svo sem bekkjarferðir með því að lýsa í smáatriðum væntanlegri atburðarás munnlega eða skriflega. Þannig má orða það sem þú ert að fara að gera þannig að barnið sé viðbúið.

Hrósaðu óspart

Það er gott fyrir sjálfstraust barnsins að því sé hrósað. Vertu duglegur að hrósa fyrir það sem vel er gert. Útskýrðu hvers vegna þú varst ánægður með að barnið gerði eins og það gerði. Settu orð á hegðun barnsins til dæmis ,,Gaman að sjá að þú ferð sjálfur í skóna" eða ,,Þér gekk vel á prófinu, þú varst líka búinn að vera svo duglegur að læra" Slíkar setningar kenna barninu um orsakasamhengi hlutanna. Barnið þarf skýr skilaboð um hvort það sé á réttri leið eða ekki. Einnig er hægt að hrósa fyrir viðleitni.

Hlustaðu vel

Leyfðu barninu að útskýra sína hlið og reyndu að fá skýrari mynd af því sem barnið er að segja.  Ef þú hlustar lærir barnið að tjá sig á skýrari máta.

 

Lauslega þýtt og aðlagað úr bókinni Simple strategies that work eftir Brenda Smith Myles.
Kristjana Magnúsdóttir, nóv. 2011