Börn með CP

Cerebral Palsy (CP) eða heilalömun er algengasta tegund hreyfihömlunar meðal barna. CP-fötlunin stafar af skaða eða truflun á virkni ákveðinna svæða í heila, sem annast stjórnun og samhæfingu hreyfinga. Heilinn verður oftast fyrir þessu áfalli meðan fóstrið er að þroskast í móðurkviði, en áfallið getur líka orðið í fæðingunni sjálfri eða á þroskaárum barnsins. Sjaldnast er skaðinn það afmarkaður að einungis verði röskun á hreyfingum heldur koma oft fram einkenni frá öðrum þroskasviðum. Grunnástandið versnar ekki þó að birtingarform fötlunarinnar breytist oft eftir því sem barnið eldist. Um það bil helmingur barna með CP hefur fæðst fyrir tímann. Fyrstu mánuðina ber mest á seinkun í hreyfiþroska, ósamhverfu í hreyfingum (þ.e. barnið hreyfir aðra líkamshliðina meira en hina), stífni í vöðvum eða óeðlilegum vöðvaslappleika. Óværð, svefnerfiðleikar og mötunarerfiðleikar geta fylgt með. Seinna geta fleiri fylgiraskanir komið í ljós.

Meira um CP hér.