Atferlisíhlutun (hagnýt atferlisgreining)

Atferlisíhlutun er markviss, árangursrík og viðurkennd leið sem hefur verið þróuð til þess að byggja upp margvíslega færni hjá börnum. Atferlisíhlutun byggir á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar (applied behaviour analysis, ABA). Atferlisgreining er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á lögmálum hegðunar og leggur áherslu á að hagnýta þá þekkingu á ýmsum sviðum mannlífsins, meðal annars við kennslu barna með frávik í þroska.

Markmið og einstaklingsnámskrá
Stefnt er að því að barnið öðlist sem mest sjálfstæði, geti notið hæfileika sinna, átt gefandi samskipti við aðra og lifað sem innihaldsríkustu lífi. Markmið sem unnið er að dags daglega, eru skilgreind fyrir hvert barn í samvinnu við foreldra. Í því skyni er stuðst við matslista til að meta færni barnins. Horft er til þarfa þess með hliðsjón af því sem jafnaldrar eru að gera, einnig er tekið mið af styrkleikum, áhugasviði og óskum foreldra.

Hvernig fer atferlisíhlutun fram?
Bein kennsla
er yfirleitt notuð til þess að kenna nýja eða flókna færni sem krefst mikillar athygli frá barninu. Sú færni sem á að kenna, eins og t.d. leikur, er brotin niður í lítil skref, sem eru kennd á kerfisbundinn hátt og tengd saman í flóknari athafnir. Í beinni kennslu eru m.a. notaðar aðgreindar kennsluæfingar (discreet trials).

Náttúruleg kennsla (incidental teaching)er notuð til þess að kenna barninu færni í náttúrulegu umhverfi þess. Þjálfi fylgir þá áhuga og frumkvæði barnsins. Barnið er því leiðandi og kennslan felld inn í daglegt líf þess.

Áætlun vegna óæskilegrar hegðunar
Í vinnu með börnum sem hafa þróað óæskilega hegðun, miðar vinna atferlisfræðings að því að skilgreina og skilja vandann. Greining byggir yfirleitt á viðtali við foreldra og stundum við starfsfólk sem vinnur með barninu, auk beinnar athugunar á hegðun barnsins í daglegu umhverfi þess. Í framhaldi af því er annað hvort gert kerfisbundið mat á óæskilegu hegðuninni eða sett af stað skráning í þeim tilgangi að greina þá umhverfisþætti sem hafa áhrif á hegðun barnsins hverju sinni.

Gert er ráð fyrir að barnið sýni óæskilega hegðun því hún gefur barninu aðgang að eftirsóknarverðum afleiðingum, til dæmis ef barn getur ekki tjáð sig þá getur óæskileg hegðun orðið til þess að það nær athygli annarra og fær þá að drekka, borða, knúsa, leika eða annað sem það þarf á að halda. Í áætluninni er því barninu kenndar æskilegar leiðir til þess að nálgast þessar afleiðingar. Áætlunin er ávallt einstaklingsmiðuð.

Endurskoðað í október 2018/BKG

Hér má nálgast færnismatslista.

Hér má nálgast skráningarblöð.