Samkvæmt lögum um Ráðgjafar- og greiningarstöð skal frumgreining hafa farið fram áður en vísað er. Það felur í sér að fyrstu athuganir og þroskamælingar þurfa að fara fram í nærumhverfi barnsins á vegum sérfræðiþjónustu leikskóla eða grunnskóla, sérfræðiþjónustu heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi sérfræðinga.
Starfsemin er skipulögð á grundvelli heildstæðrar þjónustu og fjölskyldumiðaðrar nálgunar. Foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í þjónustuferlinu og að eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða þjónustu fyrir barn og fjölskyldu. Algengustu ástæður tilvísunar eru grunur um einhverfu og skyldar raskanir, þroskahömlun og hreyfihamlanir.
Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar eru m.a. að annast:
- Greiningu barna og ungmenna með þroskaraskanir sem vísað er til athugunar að lokinni frumgreiningu.
- Ráðgjöf og fræðslu varðandi viðeigandi íhlutun og önnur úrræði sem þörf er á.
- Tilvísun til annarra meðferðaraðila og stofnana í því skyni að barnið njóti viðeigandi þjónustu.
- Langtímaeftirfylgd fyrir börn sem búa við óvenjuflóknar eða sjaldgæfar þroskaraskanir.
- Faglega aðstoð og ráðgjöf til samstarfsaðila.
- Fræðilegar rannsóknir á sviði fatlana og þroskaraskana.
Ráðgjafar- og greiningarstöð er samkvæmt lögum heimilt að afla og vinna með persónuupplýsingar. Henni er jafnframt heimilt að miðla niðurstöðum greininga og öðrum upplýsingum til þjónustuveitenda til að þeir geti sinnt hlutverki sínu gagnvart barninu og fjölskyldu þess. Í ljósi þessa er ekki lengur krafist skriflegs samþykkis forráðamanna barna fyrir öflun og miðlun upplýsinga.
Sjá vallista hér til hægri fyrir nánari upplýsingar.