Breyting á þjónustu vegna barna með sértækar málþroskaraskanir

Greiningar-og ráðgjafarstöð sinnir almennt ekki börnum með sértækar raskanir í málþroska. Stöðin hefur á undanförnum árum sinnt takmörkuðum hópi barna með sértækar málþroskaraskanir, en þjónustan hefur verið afmörkuð og biðtími langur. Þessi þróun er fyrst og fremst komin til vegna mikillar aukningar tilvísana barna með alvarlegri vanda, svo sem raskanir á einhverfurófi, sem hafa notið forgangs að þjónustu stofnunarinnar, en einnig hefur greiningar- og ráðgjafarstarf utan stofnunarinnar eflst verulega, m.a með tilkomu greiningarteyma, aukinni reynslu og þekkingu annarra sérfræðinga og tilkomu betri greiningartækja. Í flestum tilvikum hefur börnum þegar verið vísað í margþætta þjónustu áður en komið hefur til afskipta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar.

Samkvæmt 1. grein laga nr. 83/2003 um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er hlutverk stofnunarinnar að tryggja að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar. Þó að börn með sértækar málþroskaraskanir þurfi umtalsverða aðstoð á uppvaxtarárum, m.a. í formi sérkennslu og talþjálfunar, búa fæst þeirra við fötlun á fullorðinsárum og hafa því ekki notið þjónustu hjá svæðisskrifstofum eða öðrum stofnunum fatlaðra. Þá veita málþroskaraskanir yfirleitt ekki rétt til framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Samkvæmt ofangreindu mun stofnunin ekki taka við tilvísunum, þegar frumgreining barnsins er sértæk röskun í málþroska (málhömlun), enda sé ekki grunur um þroskahömlun eða röskun á einhverfurófi eða skýr saga um afturför. Jafnframt vekur stofnunin athygli á meðfylgjandi tillögum starfshóps einhverfu- og málhömlunarsviðs um þær forsendur sem þurfa að vera til staðar við greiningu alvarlegra frávika í málþroska.

Nánari upplýsingar um forsendur og tillögur um starfsreglur: Umfjöllun um málhamlanir og Tillögur að starfsreglum