Sigríður Lóa Jónsdóttir ver doktorsritgerð um snemmgreiningu einhverfu

Föstudaginn 26. maí nk. ver Sigríður Lóa Jónsdóttir, sálfræðingur á Ráðgjafar- og greiningarstöð, doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Að bera kennsl á einhverfu snemma. Early detection of autism.

Andmælendur eru dr. Marko Kielinen, þróunarstjóri við Nuorten Ystavat (NGO) í Finnlandi, og dr. Guðmundur Á. Skarphéðinsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Umsjónarkennari var Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi var Evald E. Sæmundsen, klínískur prófessor við Læknadeild.

Um doktorsritgerðina

Einhverfu er oftast hægt að greina á öðru eða þriðja aldursári. Samt sem áður eru almennt ekki borin kennsl á einhverfu fyrr en síðar. Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að rannsaka hvernig hægt er að finna einhverf börn snemma til að auka möguleika þeirra á að njóta þjónustu sem getur haft áhrif á þroska þeirra og lífsgæði.

Helstu niðurstöður sýndu að greining einhverfu eftir sex ára aldur var algeng í þeim fjórum árgöngum sem skoðaðir voru. Engu að síður voru flestir foreldrar farnir að hafa áhyggjur af þroska barnsins fyrir þriggja ára aldur þess og töldu, eftir á að hyggja, að einkenni einhverfu hefðu verið komin fram fyrir tveggja ára aldur. Við skimun 1586 barna fundust fleiri einhverf börn en við venjubundið eftirlit með þroska. Sértæki M-CHAT-R/F var hátt sem þýðir að flestöll börn sem skimuðust neikvæð voru ekki einhverf. Næmi tækisins var hins vegar miðlungs gott þannig að það missti af ríflega þriðjungi þeirra barna sem síðar greindust einhverf. Börn sem fundust við skimun voru að meðaltali 10 mánuðum yngri við greiningu en börn sem skimunin missti af. Námskeið um einhverfu stuðlaði að mati starfsfólks í ung- og smábarnavernd að aukinni þekkingu þeirra og meira öryggi til að bera kennsl á einkenni sem gætu bent til einhverfu.

Nánari upplýsingar um doktorsvörnin a og ritgerðina má sjá hér.