Guðný Stefánsdóttir heiðursfélagi AAIDD

Guðný Stefánsdóttir, sviðsstjóri á RGR
Guðný Stefánsdóttir, sviðsstjóri á RGR

Guðný Stefánsdóttir, sviðsstjóri á Mati á stuðningsþörf hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, hefur verið tilnefnd heiðursfélagi í bandarískum samtökum sem bera nafnið American Association on Intellectual and Developmental Disabilities (AAIDD) en hún er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan einstaka heiður. Samtökin, sem voru stofnuð árið 1876, eru elstu og virtustu samtök fagfólks og annarra sem vinna með og að velferð fólks með fatlanir og þroskafrávik í Norður Ameríku. Félagar innan samtakanna stuðla að framsæknu rannsóknarstarfi, viðurkenndu verklagi og mannréttindum fyrir  fatlað fólki og fólk með þroskafrávik.

Heiðursfélagar geta þeir orðið sem hafa verið virkir félagar í samtökunum í meira en sjö ár og lagt af mörkum lofsvert framlag til málefna fatlaðs fólk og fólks með þroskafrávik. Sjá nánar hér um forsendur tilnefningarinnar. Guðný fær sína heiðursfélaganafnbót vegna mikilvægs framlags í málaflokknum á Íslandi m.a. fyrir þróun og uppbyggingu á kerfi hérlendis sem heitir Staðlað mat á umfangi stuðningsþarfa sem var upprunalega þróað innan AAIDD samtakanna. Markmiðið með mati á umfangi stuðningsþarfa er að nýta niðurstöður til úthlutunar fjármagns frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og til að gera einstaklingsbundnar áætlanir um stuðning sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Matinu er ætlað að tryggja markvissa og réttláta skiptingu þess fjármagns sem veitt er af hálfu ríkisins til þjónustu við fatlaða. Sjá nánar um Mat á stuðningsþörf hér.

Guðný tekur formlega við nafnbótinni á ársfundi samtakanna 5. – 7. júní næstkomandi en tekið hefur verið fram að hún hafi nú þegar verið tilnefnd og geti tileinkað sér heiðursfélaganafnbótina.

Matskerfi þessi eru gefin út af AAIDD og sáu sérfræðingar þáverandi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um stöðlun þeirra  sem voru Dr. Tryggvi Sigurðsson og Guðný Stefánsdóttir í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann í Kansas, félagsmálaráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hefur nú Ráðgjafar- og greiningastöð einkarétt á notkun þeirra. Matið er framkvæmt af óháðum sérstaklega þjálfuðum sérfræðingum með víðtæka reynslu af starfi með fötluðum börnum og fullorðnum og matið er framkvæmt í nærumhverfi þjónustunotenda.