Um Ráðgjafar- og greiningarstöð

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra.

Ráðgjafar- og greiningarstöð er miðlæg þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem starfar á þverfaglegum grunni og sinnir börnum að 18 ára aldri hvar sem þau búa á landinu. Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 83 frá árinu 2003 með vísan í breytingu frá 1. janúar 2022. Hlutverk hennar er meðal annars að annast ráðgjöf og greiningu barna með víðtækar þroskaskerðingar, sinna fræðilegum rannsóknum á þessu sviði og veita börnum með óvenjuflóknar eða sjaldgæfar fatlanir langtímaeftirfylgd. Öflun og miðlun þekkingar um fatlanir og þroskaskerðingar og fræðsla um helstu íhlutunarleiðir er enn fremur meðal hlutverka stofnunarinnar.

Starfsemin er skipulögð á grundvelli heildstæðrar þjónustu og fjölskyldumiðaðrar nálgunar. Foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í þjónustuferlinu og að eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða þjónustu fyrir barn og fjölskyldu. Áður en barni er vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð þarf að vera búið að meta þroska þess og færni (frumathugun). Algengustu ástæður tilvísunar eru grunur um einhverfu og skyldar raskanir, þroskahömlun og hreyfihamlanir.

Börn sem greinast með fatlanir eiga rétt á aðstoð á uppvaxtarárum sínum samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Ennfremur njóta þau þjónustu fyrir fatlaða á vegum viðkomandi sveitarfélags.

Foreldrar eiga rétt á umönnunargreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins (www.tr.is) vegna aukinna útgjalda í tengslum við fötlun barns. Þá greiða Sjúkratryggingar Íslands (www.sjukra.is) fyrir hjálpartæki, þjálfun og ferðakostnað.

Framtíðarsýn Ráðgjafar- og greiningarstöðvar byggist á því að veitt verðit þjónusta byggð á bestu þekkingu sem til er á hverjum tíma með því að tengja þjónustuna við rannsóknir og miðla henni með fræðslu.

Ráðgjafar- og greiningarstöð er staðsett að Dalshrauni 1b, Hafnarfirði. Sjá nánar hér.

 

Fjögur gildi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar

 

Fagmennska 

Við sýnum færni og ábyrgð í störfum okkar og leitumst við að veita börnum og fjölskyldum þeirra bestu mögulegu þjónustu

Framsækni

Við leitumst við að vera leiðandi afl í rannóknum og miðlun þekkingar

Velferð

Við leitumst við að auka lífsgæði fjölskyldunnar til framtíðar

Virðing 
Við sýnum virðingu í samskiptum við fjölskyldur og samstarfsfólk þar sem þarfir, gildi og óskir fjölskyldunnar eru í forgrunni

Lög um Ráðgjafar- og greiningarstöð: 

Hér má finna lög um Ráðgjafar- og greiningarstöð frá 2003 með breytingu sem tók gildi 1. janúar 2022

Ágrip af sögu Greiningar og ráðgjafarstöðvar

Fyrst er minnst á Greiningarstöð ríkisins í lögum um aðstoð við þroskahefta sem tóku gildi 1. janúar 1980. Í 10 gr. þeirra laga var kveðið sérstaklega á um Greiningarstöð ríkisins og í fyrsta sinn skilgreint hvernig stofnun af þessu tagi skyldi starfa. Undirbúningur hófst í febrúar 1980. Þegar var ljóst að athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi, sem hafði verið stofnuð árið 1975, þurfti aukið rými og að skilgreina yrði fljótt hvenær og hvernig það tæki við hlutverki greiningarstöðvarinnar eins og henni var lýst í lögunum. Í ársbyrjun 1981 fékk félagsmálaráðuneytið lóð undir væntanlega nýbyggingu sem hýsa skyldi Greiningarstöð ríkisins. Málið fór þó í biðstöðu og því frestaðist stofnsetning Greiningarstöðvar í nokkur ár en á sama tíma margfölduðust umsvif starfseminnar í Kjarvalshúsi. 

Árið 1981 var alþjóðlegt ár fatlaðra og ákvað ríkisstjórn snemma á því ári að setja endurskoðun á gildandi lögum og reglugerðum um málefni fatlaðra í forgang. Frumvarp kom fram á Alþingi sem fól meðal annars í sér heildarskipulag um þjónustu hins opinbera við fatlað fólk. Frumvarpið varð að lögum í maí 1983 og tóku þau gildi 1. janúar árið eftir. Í 16. gr. laganna var sérstaklega fjallað um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og kveðið á um að ríkið skyldi starfrækja eina aðal greiningar- og ráðgjafarstöð er heyrði undir félagsmálaráðuneytið.

Stofnun Greiningar- og ráðgjafarstöðvar varð að veruleika 1. janúar 1986 og var stofnuninni fundinn staður að Digranesvegi 5 í Kópavogi, í húsi sem áður hýsti Reiknistofu bankanna. Húsnæðið var innréttað að nýju og starfsemin flutti inn í október 1988. Starfsfólk á þessum tíma var 21 talsins úr röðum ýmissa faggreina s.s. lækna, sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga, félagsráðgjafa og þroskaþjálfa auk lækna- og móttökuritara. Starfsemin skiptist í göngudeild, sérhæfða athugunardeild og dagdeild þar sem börnin dvöldu daglangt nokkrar vikur í senn. Í janúar 1997 fól félagsmálaráðuneytið Greiningar- og ráðgjafarstöð að sinna greiningu vegna barna með einhverfu en fyrir þann tíma hafði slík þjónusta einnig verið veitt á Barna- og unglingageðdeild Landspítala.

Um mitt ár 1997 voru gerðar róttækar breytingar á skipulagi starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. Í stað deilda voru sett á laggirnar fagsvið sem voru til að byrja með fjögur talsins en var fækkað í þrjú nokkrum árum síðar: Fagsvið einhverfu, fagsvið hreyfi- og skynhamlana og fagsvið þroskahamlana. Samhliða þessum breytingum voru athugunardeildir lagðar niður og eingöngu byggt á göngudeildarforminu. Í mars 2003 voru á Alþingi samþykkt lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og öðluðust þau gildi 1. júní það ár. Jafnframt féll 16. gr. laga um málefni fatlaðra frá 1992 úr gildi.

Nánar um sögu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. 

Ítarefni: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, þjónusta á landsvísu. Grein sem birtist í Fagtímariti Félags íslenskra sérkennara.