PCS myndiR

PCS (Picture Communication Symbols) er myndrænt táknkerfi sem hannað var sérstaklega til að nota til tjáskipta. Myndirnar eru tiltölulega einfaldar og hægt að nota þær á fjölbreyttan hátt.

   

Útbreyðsla og notkun á PCS hefur aukist verulega undanfarin ár. Framleiðandi PCS (Mayer-Johnson) hefur verið ötull í þróun tölvuforrita og kennslugagna sem auðvelt er að nálgast á netinu. PCS er sérstaklega notað með þeim sem eiga erfitt með að tjá sig með tali. Þá er táknmyndunum komið fyrir á sérstakar tjáskiptatöflur eða tjáskiptamöppur sem þróaðar eru með hvern notanda í huga. Notandinn tjáir sig með því að benda á eða rétta viðeigandi tákn. Auk þess að nota PCS til tjáskipta hefur það mikið verið notað í myndrænar vísbendingar eða myndrænt skipulag. Þannig er t.d. hægt að setja upp töflur í mismunandi útfærslum sem sýna og halda utan um ákveðnar athafnaraðir, dagskipan og stundaskrár í skólum, leikskólum, heimilum og vinnustöðum. 

   

Ýmsar kennslu- og þjálfunaraðferðir hafa þróast í notkun myndrænna tjáskiptaleiða. Má þar nefna PECS ( The Picture Exchange Communication system) og TEACCH (Treatment and Education of Autistic and related Communication Handicapped Children). Aðferðir þessar geta einnig nýst vel með öðrum hópum og eru þá gjarnan aðlagaðar hverjum og einum.

Fólk með hreyfihömlun er stór hópur þeirra sem nota myndrænar tjáskiptaleiðir og er PCS ein af þeim. Þar sem hreyfihömlunin getur verið  svo misjöfn eru kennslu- og þjálfunaraðferðirnar oft á tíðum mjög einstaklingsbundnar. Það þarf að útfæra sérstakleg fyrir hvern og einn hvernig gera má táknmyndirnar aðgengilegar þannig að þær nýtist til tjáskipta. Í sumum tilvikum þarf að nota tjáskiptahjálpartæki hvort sem um er að ræða tiltölulega einföld áhöld og tæki eða flókin og tæknileg s.s. tölvur og talvélar.

Sigrún Grendal Magnúsdóttir, des. 2010