Hvað er þunglyndi?
Allir upplifa vanlíðan öðru hverju, til dæmis ef maður fellur á prófi, besti vinur flytur í burtu eða þegar einhver nákominn manni deyr. Það er eðlilegt að verða dapur við þess konar aðstæður en tilfinningin minnkar síðan með tímanum þegar við aðlögumst breyttum aðstæðum. Það er eðlilegt að finna fyrir depurð öðru hverju, en ef depurðin varir lengur og er til staðar fleiri daga en færri getur hún þróast yfir í þunglyndi.
Þunglyndi er alvarlegra ástand en eðlileg depurð. Þegar fólk upplifir þunglyndi er algengt að það eigi erfitt með að sinna athöfnum daglegs lífs, eins og skóla, félagslífi, heimilinu og eigin þörfum. Algengt er að fólk forðist samskipti við aðra og einangri sig félagslega. Margir upplifa vonleysi, missa áhugann á hlutum sem áður veittu þeim ánægju og eiga erfitt með að sjá tilgang með lífinu. Þunglyndi getur einnig haft áhrif á einbeitingu og úthald.
Hver eru einkenni þunglyndis?
Þunglyndi birtist á mismunandi hátt milli einstaklinga og það upplifa ekki allir sömu einkennin. Kjarnaeinkenni þunglyndis eru:
- Viðvarandi depurð eða leiði
- Áhugaleysi fyrir því sem áður veitti ánægju
- Stöðugur pirringur eða reiði
Önnur einkenni eru:
- Neikvæðni
- Neikvæðar hugsanir um mann sjálfan, aðra og framtíðina
- Svartsýni og vonleysi
- Tómleikatilfinning
- Breyting á matarlyst
- Lystarleysi eða ofát - Þessu geta fylgt þyngdarbreytingar
- Svefnerfiðleikar
- Finnast erfitt að sofna eða halda sér sofandi
- Aukin svefnþörf
- Síþreyta og orkuleysi (sem á sér ekki aðra skýringu)
- Finnast erfitt að framkvæma hluti sem áður voru auðveldir
- Minni virkni í daglegu lífi
- Einangrun
- Minni samskipti við fjölskyldu og vini
- Sjálfsgagnrýni
- Sektarkennd og finnast vera lítils virði
- Slakt sjálfstraust
- Hugsanir um dauðann, sjálfsskaða eða sjálfsvíg
- Doði eða skortur á tilfinningum
- Eirðarleysi eða hægagangur
- Eiga erfitt með að vera kyrr, vera sífellt á iði og eiga erfitt með að slaka á
- Hreyfa sig hægar en venjulega
- Erfiðleikar með að taka ákvarðanir
- Einbeitingarerfiðleikar
- Minniserfiðleikar
- Erfiðleikar í skóla
- Eldri börn gætu misnotað áfengi eða vímuefni
- Stundum finna börn einnig fyrir kvíða eða líkamlegum einkennum eins og höfuðverk eða óþægindum í maga.
Þunglyndi hjá einhverfum
Rannsóknir benda til þess að einhverf séu líklegri til að upplifa þunglyndi en þau sem ekki eru einhverf. Einhverf eru fjórum sinnum líklegri til að upplifa þunglyndi en einstaklingar sem eru ekki einhverfir (Hudson o.fl., 2019) og áætlað er að um 40% einhverfra upplifi þunglyndi einhvern tímann á lífsleiðinni (Hollocks o.fl., 2019). Einhverf upplifa sömu einkenni og aðrir, en þau eru líklegri til að:
- Einangra sig félagslega
- Sýna meira af endurtekningarsamri hegðun
- Breyta um áhugasvið, fá til dæmis meiri áhuga á dauðanum eða að deyja
- Upplifa oftar bráðnun (e. meltdowns)*
- Skaða sig eða upplifa sjálfsvígshugsanir
Ástæður fyrir þunglyndi eru mismunandi. Orsakir þunglyndis geta verið:
- Mikil streita
- Áfall
- Fjölskyldusaga um þunglyndi
- Aðrar geðraskanir eða líkamlegir kvillar
- Neysla lyfja, áfengis eða vímuefna
Daglegt líf getur verið meiri áskorun fyrir einhverfa og það eru líklega fleiri ástæður fyrir þunglyndi meðal einhverfra en þær sem eru taldar hér upp. Óöryggi við að lesa í og skilja félagslegar aðstæður, ótti við að vera misskilin eða ekki samþykkt af óeinhverfum getur aukið á kvíða og streitu. Þetta getur síðan leitt til lágs sjálfsmats, félagslegrar einangrunar og einmanaleika. Allt þetta getur ýtt undir þunglyndi. Aðrar ástæður fyrir þunglyndi meðal einhverfra geta verið:
- Erfiðleikar við að bera kennsl á, skilja og ná tökum á eigin tilfinningum
- Skortur á viðeigandi stuðningi
* Bráðnun er viðbragð við yfirþyrmandi aðstæðum. Einstaklingur ræður ekki við aðstæður og missir tímabundið stjórn á hegðun sinni. Bráðnun getur fylgt hreyfingar (t.d. sparka og bíta) og hljóð (t.d öskra og gráta) (Einhverfusamtökin, 2021).
Sjálfsskaði
Um það bil 10-20% unglinga skaða sig á einhverjum tímapunkti og eru flestir eru á aldrinum 14-17 ára. Ástæður sjálfsskaða eru mismunandi:
- Sjálfsskaði getur stundum látið fólki finnast það hafa stjórn á aðstæðum
- Einnig getur sjálfsskaði minnkað óþægilegar tilfinningar, streitu eða spennu í stutta stund
- Sjálfsskaði getur líka þjónað þeim tilgangi að finna eitthvað, fyrir þau sem eru dofin og finnst þau ekki upplifa neinar tilfinningar
- Stundum getur sjálfsskaði virkað eins og ákveðin refsing ef fólki líður eins og það eigi ekkert gott skilið
Aðrar ástæður fyrir sjálfsskaða meðal einhverfra geta verið:
- Skynúrvinnsluvandi - reyna að ná tökum á skynnæmi gagnart hljóði, ljósi, áferð og snertingu
- Erfiðleikar með að skilja og ná stjórn á tilfinningum
- Erfiðleikar með breytingar
Það að einstaklingur sýni sjálfskaðandi hegðun þarf ekki að þýða að viðkomandi sé með sjálfsvígshugsanir. Hjá mörgum snýst sjálfsskaði um að reyna að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður. Sumir hafa lýst sjálfsskaða sem leið til að lifa af og komast í gegnum erfiðleika. Þau sem stunda sjálfsskaða gætu þó mögulega verið með sjálfsvígshugsanir og gætu reynt að enda líf sitt. Þess vegna er mikilvægt að hegðunin sé alltaf tekin alvarlega.
Tölfræðin sýnir að geðraskanir eru algengari eftir því sem einkenni einhverfu eru minna áberandi og meðal þeirra sem fela einhverfuna meira. Tíðni sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana er líka hærri í þeim hópi sem gefur til kynna að minna sýnileg einhverfa er ekki ávísun á betri líðan heldur þveröfugt.
Hvað er til ráða?
Hvað getur einstaklingurinn sjálfur gert?
Þegar einkenni þunglyndis eru væg og skerðing í lágmarki er hægt að gera margt til að bæta ástandið:
- Gæta þess að sofa nóg
- Nærast vel og reglulega
- Auka daglega hreyfingu
- Þetta þarf ekki að vera orkufrek hreyfing, göngutúr getur verið góð byrjun
- Ræða um líðan við aðra
- Hafa ramma og rútínu í daglegu lífi
- Reyna að einfalda líf sitt
- Verja tíma með fjölskyldu og vinum
- Veita sér auka tíma til að klára verkefni - samþykkja það að sumt mun taka lengri tíma en vanalega og það er allt í lagi
- Verja tíma sínum við athafnir sem hafa róandi áhrif
Þegar einkennum fjölgar og þau valda meiri skerðingu í daglegu lífi er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Þetta á við þegar einstaklingur hefur lítinn áhuga á að hitta vini og/eða viðkomandi tekur minni þátt í íþróttum eða tómstundum en vanalega. Hægt er að leita til ýmissa aðila, til dæmis:
- Umsjónarkennara
- Námsráðgjafa
- Skólahjúkrunarfræðings
- Heilsugæslulæknis
- Þjónustumiðstöðvar í Reykjavík eða félags- og skólaþjónustu í öðrum sveitafélögum
- Sálfræðinga og annars fagfólks á einkastofum, en mikilvægt er að viðkomandi hafi þekkingu á einhverfu
Nauðsynlegt er að hafa samband við fagaðila sem fyrst þegar einkenni eru alvarleg og talsverð skerðing er orðin í daglegu lífi. Þetta á til dæmis við ef hugsanir um að enda eigið líf eru til staðar eða ef barnið hefur einangrað sig félagslega. Hægt er að hafa samband við:
- Heilsugæslulækni
- Sérfræðilækni ef hann er til staðar
- Bráðamóttöku barna
- Bráðamóttöku BUGL
Hvað geta foreldrar gert?
Ef þú telur að barnið þitt sé að glíma við þunglyndi er mikilvægt að ræða við það og reyna að komast að því hvað sé að angra barnið og hvernig því líður. Það er mikilvægt að taka barnið alvarlega, sama um hvað málið snýst og hvað umönnunaraðila finnst um það. Ekki er víst að öðrum finnist þetta vera stórt vandamál en barninu gæti þótt það. Ef barnið vill ekki ræða málið skaltu láta það vita að það geti alltaf leitað til þín ef það þarf á því að halda. Það getur líka verið gott að hvetja barnið til þess að ræða við einhvern annan sem það treystir, eins og annan fjölskyldumeðlim, besta vin eða einhvern í skólanum. Það gæti líka verið hjálplegt að ræða við kennara eða annað starfsfólk í skóla barnsins til að heyra hvort það hafi einnig vaknað áhyggjur þar. Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli heimilis og skóla til að tryggja að barnið fái þann stuðning sem það þarf.
Ef barnið þitt glímir við þunglyndi er mikilvægt að forsjáraðilar sýni því umburðarlyndi og skilning. Þunglyndi er geðröskun sem hefur hamlandi áhrif á virkni. Reyndu að hvetja barnið til að nýta sér verkfæri eins og þau sem talin eru upp hér að ofan, án þess þó að þau upplifi of mikla pressu.
Mælt er með að leita til fagaðila þegar einkenni eru farin að hafa áhrif á daglegt líf. Þegar leitað er til fagaðila er mikilvægt að upplýsa viðkomandi um einhverfugreiningu barnsins og gott er að leita til aðila sem hefur góða þekkingu á einhverfu.
Heimildir
Einhverfusamtökin. (2021). Einhverfa [bæklingur].
https://www.einhverfa.is/static/files/skrar/baekl2023/einhverfa_is_2023_web.pdf
Hollocks M.J., Lerh J.W., Magiati I., Meiser-Stedman R. og Brugha T.S. (2019). Anxiety and
depression in adults with autism spectrum disorder: A systematic review and meta
analysis. Psychological Medicine, 49(4), 559-572.
https://doi:10.1017/S0033291718002283.
Hudson C.C., Hall L., Harkness K.L. (2019). Prevalence of Depressive Disorders in Individuals with Autism Spectrum Disorder: A Meta-Analysis. Journal of Abnormal Child Psychology, 47(1), 165-175. https://doi: 10.1007/s10802-018-0402-1.
© Thelma Rún van Erven, Ráðgjafar- og greiningarstöð, ágúst 2024.