Kvíði

Hvað er kvíði?

Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa á einhverjum tímapunkti. Þetta er gagnleg og nauðsynleg tilfinning sem hjálpar okkur að komast af. Kvíði er lífeðlislegt viðbragð sem virkjast þegar manneskja stendur frammi fyrir mögulegri ógn. Raunveruleg ógn þarf ekki að vera til staðar heldur er nóg að manneskja dragi þá ályktun að sér sé ógnað með einhverjum hætti til að viðbragðið kvikni. Kvíðakerfi mannsins er svo öflugt að það virkjast nær ósjálfrátt í vissum aðstæðum, t.d. andspænis villidýrum, skordýrum, slöngum, reiðum andlitum, lokuðum rýmum eða háum hæðum. Líta má á kvíða sem nokkurs konar varnarkerfi líkamans sem ætlað er að vernda okkur í hættulegum aðstæðum. Kvíði er þannig ekki alltaf slæmur, hann getur oft verið hjálplegur. Oft verður fólk kvíðið fyrir mikilvægan atburð eins og lokapróf, framkomu á tónleikum eða frumsýningu á leikriti. Kvíði er tilfinning sem við finnum flest í tengslum við hluti sem skipta okkur máli og hann getur verið mjög gagnlegur. Kvíði getur bætt einbeitingu og fengið fólk til að leggja sig betur fram eða vanda sig meira. Fólk finnur fyrir kvíða við mismunandi aðstæður, það sem veldur einni manneskju kvíða hefur ekki endilega áhrif á einhvern annan.

Hvenær verður kvíði hamlandi?

Þó að kvíði geti verið gagnlegur þá getur hann líka verið vandamál. Þegar kvíði verður viðvarandi og truflar daglegt líf er hann ekki lengur hjálplegur. Þegar kvíðinn kemur í veg fyrir að einstaklingur geri það sem hann þarf eða langar að gera eða þegar viðkomandi hættir að gera hluti sem hann réði áður við, er talað um hamlandi kvíða. Börn og unglingar átta sig fljótt á því að líðan þeirra batnar þegar þau forðast erfiðar aðstæður en þá er líklegra að kvíðinn festi sig í sessi. Einnig er algengt að koma sér upp ákveðnum venjum og siðum til að auðvelda sér erfiðar aðstæður sem geta samt sem áður ýtt enn frekar undir kvíðann. Líkja má of miklum kvíða við bilaðan reykskynjara sem fer í gang við minnsta tilefni. Líkaminn okkar ræður við minniháttar kvíða en langvarandi, viðvarandi og óhóflegur kvíði getur truflað daglegt líf og dregið úr lífshamingju okkar.

Hver eru einkenni kvíða?

Kvíði getur verið óþægilegur og honum geta fylgt ýmis óþægileg líkamleg einkenni, en hann er ekki hættulegur. Þegar við teljum okkur vera í hættu bregst líkami okkar við og undirbýr okkur til að takast á við hættuna. Þetta lífeðlislega viðbragð kallast berjast, flýja eða frjósa viðbragðið (e. fight-flight-freeze response). Þegar við stöndum frammi fyrir hættulegum aðstæðum getum við barist (þ.e. tekist á við aðstæðurnar), flúið (þ.e. forðast aðstæðurnar) eða frosið (þ.e. látið lítið fyrir okkur fara þangað til hættan líður hjá). Þetta viðbragð þjónaði mikilvægum tilgangi áður fyrr þegar forfeður okkar lentu í hættulegum aðstæðum, t.d. andspænis villtum dýrum. Ef ljón varð á vegi þeirra þurftu þeir ýmist að berjast við ljónið, flýja það eða frjósa og vona að ljónið tæki ekki eftir þeim. Kvíðaviðbragðið hefur þannig þjónað ákveðnum tilgangi með því að hjálpa okkur að vernda okkur gegn hættu. Í dag er ólíklegt að við hittum villt dýr á förnum vegi en við upplifum enn hættu. Algengt er að upplifa hættu þegar fólk er undir miklu álagi, byrjar í nýjum skóla, er miðpunktur athyglinnar eða talar við nýtt fólk.

Hér eru nokkur líkamleg einkenni kvíða:

  • Hraður hjartsláttur
  • Doði eða kuldi í höndum/fótum
  • Hröð öndun
  • Vöðvaspenna
  • Sviti
  • Meltingartruflanir (hnútur í maga)
  • Einbeitingarerfiðleikar
  • Eirðarleysi
  • Þreyta
  • Svefnerfiðleikar
  • Skjálfandi rödd
  • Spennt raddbönd
  • Roði
  • Tíð þvaglát
  • Depurð og pirringur

Við getum líka fundið fyrir þessum óþægilegu líkamlegu einkennum þegar við upplifum hjálplegan kvíða, þannig að líkamleg einkenni tengjast ekki bara hamlandi kvíða heldur kvíða almennt.

Hvernig birtist kvíði?

Kvíði birtist á mismunandi hátt hjá mismunandi einstaklingum. Hér eru nokkur dæmi um hvernig kvíði getur birst hjá börnum:

  • Uppnám og grátur
  • Skapofsaköst og reiði
  • Stöðugar áhyggjur og þrálátar spurningar
  • Mikil þörf fyrir hughreystingu
  • Leita í öryggi hjá þeim sem eldri eru
  • Vilja ekki vera aðskilin frá foreldrum sínum
  • Erfitt að fara í leikskóla eða skóla
  • Kvarta oft yfir líkamlegum einkennum s.s. magaverk, höfuðverk eða vöðvabólgu
  • Erfiðleikar með að sofna
  • Stjórnsemi við aðra í kringum sig
  • Hræðsla við annað fólk og í félagslegum aðstæðum
  • Áhyggjur af áliti annarra
  • Viðkvæmni fyrir stríðni og mistökum
  • Forðast áskoranir og vilja komast sem fyrst í burtu úr aðstæðum sem valda óöryggi (segja kannski að sér finnist þetta og hitt leiðinlegt)
  • Pirrast auðveldlega og tilfinningar eru sveiflukenndar
  • Komast í uppnám við ákveðnar aðstæður eða þegar þau eru í nálægð við eitthvað ákveðið, t.d. dýrategundir, náttúrufyrirbæri eða sprautur
  • Bregðast oft illa við breytingum á skipulagðri dagskrá eða nýjum/ófyrirséðum aðstæðum
  • Endurtekningar, vilja gera sama hlutinn aftur og aftur í sérstakri röð eða á tiltekinn hátt
  • Endurteknar hugsanir og/eða ímyndir sem virðast órökréttar og erfitt er að hafa stjórn á

Hverjar geta afleiðingar kvíða verið?

Áhrif kvíða á líf fólks eru oft vanmetin. Kvíði veldur fólki mikilli vanlíðan og getur gert því erfiðara fyrir að takast á við daglegt líf. Hann getur skert lífsgæði fólks, dregið úr sjálfstrausti þess og komið í veg fyrir að það geri hluti sem það langar til að gera. Kvíði getur leitt til þess að fólk nær ekki að njóta daglegs lífs. Hann getur haft áhrif á virkni á mörgum sviðum t.d. námsgetu og félagsleg samskipti. Sumir hætta að hitta vini og fjölskyldu, aðrir hætta að mæta í skóla, hætta að hreyfa sig eða einangra sig.

Kvíði hjá einhverfum

Mörg einhverf upplifa kvíða í daglegu lífi. Rannsóknir benda til þess að einhverf séu líklegri til að upplifa hamlandi kvíða og að um 40% einhverfra barna og unglinga uppfylli greiningarskilmerki fyrir kvíðaröskun (van Steensel o.fl., 2011). Á meðan er áætlað að 6% íslenskra barna í almennu þýði séu með alvarlegan kvíða (Kvíði barna og ungmenna, 2018).

Kvíðatilfinning hjá einhverfum getur tengst:

  • Skynjunarvanda
  • Óöryggi við að lesa í félagsleg samskipti og aðstæður
  • Því að reyna stöðugt að fylgja óskrifuðum reglum samfélagsins
  • Skorti á fyrirsjáanleika
  • Breytingum á rútínu, sérstaklega óvæntum breytingum
  • Erfiðleikum við að bera kennsl á, skilja og ná tökum á tilfinningum sínum
  • Ótta við að vera misskilin eða vera ekki samþykkt af óeinhverfum. Til þess að passa í hópinn og vera ekki álitinn öðruvísi grípa margir einhverfir til þess að reyna að fela einhverfuna sína (e. masking). Þetta getur aukið á kvíða og haft neikvæð áhrif á geðheilsu.
  • Því að reyna að vera „normal“ og passa að gera ekki eitthvað sem telst óviðeigandi
  • Einelti er einnig stór kvíða- og þunglyndisvaldur og rannsóknir hafa sýnt að mun algengara er að einhverfir verði fyrir einelti en aðrir

Langvarandi kvíði getur leitt til þess að einstaklingurinn verður úrvinda og fer í bráðnun (e. meltdown)*. Aðrar afleiðingar geta verið þreyta og kulnun en allt þetta getur haft gífurleg áhrif á lífsgæði tengd til dæmis líkamlegri og andlegri heilsu, skóla, vinnu og félagslífi.

* Bráðnun er viðbragð við yfirþyrmandi aðstæðum. Einstaklingur ræður ekki við aðstæður og missir tímabundið stjórn á hegðun sinni. Bráðnun getur fylgt hreyfingar (t.d. sparka og bíta) og hljóð (t.d öskra og gráta) (Einhverfusamtökin, 2021).

Kvíði og einhverfa í skólaumhverfinu

Algengt er að einhverf börn og unglingar upplifi mikinn kvíða í skóla. Það er margt í skólaumhverfinu sem getur virkjað kvíðaviðbragðið, til dæmis ef þar er mikið af fólki, miklir möguleikar á ófyrirséðum breytingum og lítil stjórn á aðstæðum. Það spilar einnig inn í að einhverfir upplifa og skynja umhverfi sitt oft öðruvísi en aðrir. Þess vegna þarf að taka tillit til þess og aðlaga umhverfi eins og hægt er. Dæmi um það sem getur virkjað kvíðabragðið í skóla meðal einhverfra er:

  • Hvernig einhverfir skilja félagsleg samskipti við jafningja og kennara
  • Óskrifaðar reglur eða kröfur í félagslegum samskiptum eða verkefnavinnu
  • Skyndilegar breytingar

Reglur eða fyrirmæli sem hafa engan skýran tilgang (að minnsta kosti ekki fyrir einhverfa barninu) geta líka valdið einhverfum kvíða. Þau munu setja spurningamerki við þessar reglur eða fyrirmæli, ólíkt öðrum börnum, til að reyna að skilja betur hvers vegna þessar kröfur eru gerðar til þeirra. Eins og:

  • Af hverju þarf ég að setjast í samverustund?
  • Af hverju þarf ég að taka þátt í samsöng?
  • Af hverju þarf ég að bjóða góðan dag?
  • Af hverju þarf ég að læra x?

Þessi börn eru ekki að reyna að vera erfið eða rífast heldur eru þau að reyna að skilja aðstæður betur með því að afla sér frekari upplýsinga.

Kveikjur (e. triggers) geta einnig hlaðist upp. Dagur sem byrjar á því að barn missir af strætó, gleymir nestinu sínu eða fær ókunnugan afleysingarkennara getur leitt til dags sem einkennist af ótta, óvissu og kvíða, sem getur síðan leitt til einbeitingarerfiðleika og þar af leiðandi erfiðleika með að læra.

Það að hafa hugræna getu til að hugsa, vinna með og nýta upplýsingar úr umhverfinu verður ómögulegt ef barnið er stöðugt á varðbergi og að velta fyrir sér:

  • Hvað gerist næst? (af því það getur ekki giskað á það)
  • Hvað á ég að vera að gera? (af því það fékk ekki nægilega skýr og hnitmiðuð fyrirmæli frá kennara)
  • Af hverju eru bekkjarfélagar að hlæja? (af því það skildi ekki brandarann)

Á endanum virkjast berjast, flýja eða frjósa viðbragðið og barnið er einfaldlega að reyna að lifa daginn af.

Þess vegna er mikilvægt að við leggjum okkur fram við að skilja einhverfan hugsunarhátt og áttum okkur á því að einhverfan gerir börnunum og unglingunum oft erfitt fyrir að takast á við óeinhverfan heim.

Það virkar ekki að segja:

  • Láttu ekki svona
  • Slakaðu á
  • Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þessu

Þetta getur látið barninu/unglingnum líða eins og áhyggjur hans séu ómerkilegar, ekki sé hlustað og það sé kjánalegt að hafa þessar áhyggjur. Þetta eru skilaboð sem einhverf börn eru vön að fá: Þitt álit á heiminum er rangt og kjánalegt.

Það virkar betur að hlusta og heyra hlið barnsins, af hverju það er kvíðið. Samþykkjum það að barnið sé kvíðið, það hafi rétt á sínum tilfinningum. Reynum að setja okkur í spor barnsins og ímynda okkur hvernig því líður.

Við þurfum að reyna að vera einu skrefi á undan og spá fyrir um hvaða aðstæður gætu valdið kvíða hjá þessu tiltekna barni. Því betur sem þú skilur hvernig einhverfueinkennin hafa áhrif á barnið, því rólegri verða þau af því þeim líður eins og þú skiljir þau. Dæmi: Ef barnið á erfitt með að hitta nýtt fólk, varaðu það við fyrirfram, sýndu því myndir af einstaklingnum, segðu því eitthvað um einstaklinginn sem þeim gæti þótt áhugavert - reyndu að láta manneskjuna verða „minna nýja“, minna ókunnuga og fyrirsjáanlegri. Ef barnið á erfitt með munnleg samskipti skaltu gefa því önnur verkfæri til að koma hugsunum sínum til skila, til dæmis með tónlist, teikningum, Lego eða með öðrum hætti sem hentar hverjum og einum.

Ef þú leggur þig fram um að skilja „einhverfsku“ getur þú átt auðveldara með að skilja þær áskoranir sem fylgja því að vera einhverfur í óeinhverfum heimi og hversu streituvaldandi það getur verið. Barnið er ekki vandamálið, heldur þessi órökrétti, sveigjanlegi og síbreytilegi heimur sem þau neyðast til að búa í.

Stuðningur við einhverf börn og unglinga getur dregið úr þeim kvíða sem þau upplifa bara við tilhugsunina um að fara í skólann. Einhverfir eru alla jafna forvitnir og vilja afla sér þekkingar og læra. Við þurfum bara að reyna að gera skólann að umhverfi sem veitir þeim tækifæri til að gera það.

Hvað er til ráða?

Hvað getur einstaklingurinn sjálfur gert?

  • Kortlagt kveikjur
  • Haltu dagbók til að átta þig betur á hvenær þú finnur fyrir kvíða og hvað er hjálplegt og óhjálplegt
  • Fylgstu með orkustigi
  • Fylgstu með orkustigi þínu eftir félagsleg samskipti og aðra viðburði/aðstæður sem þér gætu þótt þreytandi eða erfiðir
  • Það er mikilvægt að hvíla sig og hlaða batteríin með því að gera hluti fyrir þig sjálft og sem þér finnst skemmtilegir
  • Aðlagaðu umhverfið
  • Reyndu að aðlaga umhverfið að þínum þörfum þegar það er hægt
  • Til dæmis með að minnka birtustig, prófa hljóðeinangrandi heyrnartól o.fl. til draga úr álagi á skynkerfið
  • Leiðir til að róa sig
  • Notaðu skynjunardót og stimm til að minnka kvíða
  • Skynúrvinnslusett
  • Komdu þér upp skynúrvinnslusetti sem þú getur tekið með þér hvert sem er
  • Skynúrvinnslusett gæti innihaldið sólgleraugu, hettupeysu, nagarmbönd, stimmleikföng eða lítið þyngingarteppi
  • Slökun og róandi athafnir
  • Prófaðu slökunaraðferðir eins og hugleiðslu, núvitund, jóga og hreyfingu
  • Sjónrænt skipulag
  • Sjónrænt skipulag hjálpar til við að ramma inn daginn, auka fyrirsjáanleika og minnka óvissu

Hvað geta foreldrar gert?

  • Muna að kvíði minnkar við það að mæta kvíðanum
  • Börn þurfa að læra á eigin skinni að þau ráða við aðstæðurnar
  • Ekki leyfa forðun, hún viðheldur kvíðanum
  • Mikil aðstoð og ofverndun dregur úr sjálfstæði og trú á eigin getu
  • Forðast óbein skilaboð um að barnið/unglingurinn ráði ekki við aðstæður
  • Ekki vera sífellt að róa og hughreysta, það viðheldur kvíða
  • Mikilvægt að láta þau fá hæfilega ábyrgð
  • Aðstoðað barnið við að finna leiðir til að takast á við aðstæður.
  • Til dæmis með því að undirbúa barnið með sjónrænu skipulagi og félagsfærnisögum
  • Aðstoða barnið við að læra betur á eigin tilfinningar
  • Hjálpa barninu að bera kennsl á eigin kveikjur og kenna því leiðir til að fjarlægja sig úr aðstæður ef kvíðinn verður yfirþyrmandi
  • Ef kvíðinn er vegna skynúrvinnsluvanda aðstoðið barnið/unglinginn að finna leiðir til að gera því kleift að takast á við aðstæðurnar (t.d. með því að nota hljóðeinangrandi heyrnartól)
  • Fækka valmöguleikum (ekki spyrja spurninga á við „Hvað langar þig að borða?“, frekar spyrja „langar þig í x eða y?”)
  • Vera góðar fyrirmyndir
  • Takast á við eigin kvíða á hugrakkan hátt
  • Hvað gera foreldrarnir sjálfir þegar þeim líður illa? Jóga, út að hlaupa eða horfa á sjónvarp?
  • Skoða eigin viðbrögð þegar barn greinir frá kvíða
  • Eru viðbrögð foreldris hluti af vítahring?
  • Ekki bregðast við á dramatískan hátt, haldið ró ykkar og hlustið á barnið
  • Leyfa ungmennum að kenna okkur það sem þau kunna
  • Skapa tíma fyrir sameiginleg áhugamál
  • Námskeið og bækur
  • Foreldramiðuð kvíðameðferð: Hjálp fyrir kvíðin börn (heilsugaeslan.is)
  • Kvíði 101 (litlakms.is)
  • Hjálp fyrir kvíðin börn (bók)
  • Ráð handa kvíðnum krökkum (bók)
  • Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? (bók)

Hvað getur skólinn gert?

  • Sjónrænt skipulag
  • Draga úr álagsþáttum
  • Kröfur í samræmi við getu
  • Skipta verkefnum upp í smærri einingar
  • Að ungmenni viti til hvers er ætlast við ólíkar aðstæður í skólaumhverfinu
  • Skýr og hnitmiðuð fyrirmæli
  • Skapa stöðugleika, fyrirsjáanleika og öryggi
  • Huga að þessu líka þegar vel gengur
  • Ekki vanmeta þörf á undirbúningi
  • Þemadagar, óhefðbundnir dagar
  • Draga úr óvissu
  • Ýta undir félagsfærni og aðstoða við félagsleg tengsl
  • Uppskriftir af hegðun/félagsfærnisögur
  • Gera mikið úr styrkleikum og áhugamálum
  • Ýta undir virkni varðandi tómstundir og hreyfingu
  • Jákvæðar tilfinningar og samvera með verndandi áhrif
  • Nota húmor og gleði
  • CAT kassinn
  • Efni fyrir meðferðaraðila, kennara og foreldra, byggt á HAM hugmyndafræðinni
  • Sjónrænt kennsluefni um hugsanir, tilfinningar og hegðun
  • Kortleggja skynjunarvanda nemandans og reyna að aðlaga skólaumhverfið með tilliti til þess
  • Næðisrými fyrir barnið í pásum
  • Skynvænt rými
  • Skynvæn rými í skólum geta nýst vel fyrir einhverfa nemendur til að fá næði og hlaða batteríin
  • Slík rými þurfa að vera með þægilega lýsingu, vera laus við hljóðáreiti og bjóða uppá hvíld í þægilegum húsgögnum auk þess að leyfa stimm á borð við snúninga og rugg
  • Jógaboltar, baunapúðar og stólar sem hanga í loftinu gætu verið góður kostur
  • Inni í skynvænum rýmum ættu líka að vera skynúrvinnslusett. Þau má setja saman á ýmsa vegu en ættu að innihalda einhvers konar fiktvörur til að stimma með og hjálpartæki til að draga úr umhverfisáreitum
  • Þyngdarteppi, heyrnaskjól, gríma yfir augun, slökunarflækjur, nagvörur og þvíumlíkt
  • Leyfa barninu að koma/fara fyrr, áður en gangarnir fyllast af krökkum til dæmis í byrjun eða lok dags, matartímum og frímínútum
  • Fræðsla til bekkjarfélaga um fjölbreyttan taugaþroska (í samráði við nemandann og foreldra hans). Þannig er hægt að auka skilning samnemanda, ýta undir umburðarlyndi og hafa jákvæð áhrif á samskipti

Hvað er hægt að gera til að auka vellíðan og fyrirbyggja hamlandi kvíða?

  • Skilningur og umburðarlyndi
  • Huga að svefni og næringu
  • Tómstundir og áhugamál
  • Hreyfing
  • Draga úr álagsþáttum
  • Hvíld og slökun
  • Núvitund og hugleiðsla
  • Efla jákvæðni og hrósa fyrir vel unnin verk
  • Nærandi samvera og hlátur
  • Reyna allt til að fyrirbyggja einelti
  • Meiri gæsla við óskipulagðar aðstæður
  • Leyfa þeim að eiga sér athvarf í skólanum
  • Eineltisáætlun
  • Fræðsla
  • Efla umburðarlyndi í samfélaginu
  • Myndbönd sem sýna einhverfu í jákvæðu ljósi
  • Nota viðurkenndar kennsluaðferðir
  • Skipulögð kennsla sem er byggð á TEACCH líkaninu og/eða aðferðir út hagnýtri atferlisgreiningu
  • Nota félagsfærnisögur
  • Sjónrænn fyrirsjáanleiki
  • Kenna félagsfærni á hverjum degi
  • Óskrifaðar reglur
  • Hvernig er hægt að takast á við stríðni
  • Hvernig velur maður viðeigandi vinahóp
  • Hvernig á að viðhalda vináttu og margt fleira hagnýtt

Heimildir

Einhverfusamtökin. (2021). Einhverfa [bæklingur].
https://www.einhverfa.is/static/files/skrar/baekl2023/einhverfa_is_2023_web.pdf

Kvíði barna og ungmenna. (2018, 10. janúar). Heilsuvera.
https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/kvidi-barna-og-
ungmenna/

van Steensel, F.J.A., Bögels, S.M. og Perrin, S. (2011). Anxiety Disorders in Children and
Adolescents with Autistic Spectrum Disorders: A Meta-Analysis. Clinical Child and
Family Psychology, 14, 302-317. https://doi.org/10.1007/s10567-011-0097-0)

 

© Thelma Rún van Erven, Ráðgjafar- og greiningarstöð, ágúst 2024.