Algengi einhverfu hefur aukist mjög á síðustu áratugum og fer greining hennar nú fram á fleiri stöðum en áður á Íslandi. Þessar breytingar kalla á samræmd vinnubrögð og ítarlegar leiðbeiningar um verklag við greiningu.
Þessar leiðbeiningar eru ætlaðar fagfólki við greiningu einhverfu hjá börnum og ungmennum. Markmið leiðbeininganna er að hvetja fagfólk til þess að nota gagnreyndar aðferðir við greiningu sem leggur grunn að viðeigandi íhlutun og annarri þjónustu við barnið eða ungmennið.
Á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (nú Ráðgjafar- og greiningarstöð) er starfandi fagráð um einhverfu sem hefur haft yfirumsjón með útgáfu þessara leiðbeininga.
Hjá fagráðinu komu eftirtaldir aðilar að verkefninu:
Emilía Guðmundsdóttir, sálfræðingur, Dr. Evald Sæmundsen, sálfræðingur og sérfræðingur í fötlunum barna, Guðrún Þorsteinsdóttir, MA, félagsráðgjafi og sérfræðingur í félagsþjónustu og fötlun, Sigrún Hjartardóttir, MA, sérkennari og einhverfuráðgjafi, Sigurrós Jóhannsdóttir, sálfræðingur, Unnur Jakobsdóttir Smári, sálfræðingur. Auk þess var leitað álits dr. Ingibjargar Georgsdóttur og dr. Solveigar Sigurðardóttur, sérfræðinga í barnalækningum, Sigríðar Lóu Jónsdóttur, sálfræðings og sérfræðings í fötlunum, Páls Magnússonar og Svandísar Ásu Sigurjónsdóttur, sérfræðinga í klínískri barnasálfræði, auk Brynju Jónsdóttur, talmeinafræðings. Ennfremur var fengið álit frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Embætti landlæknis, Einhverfusamtökunum og Þroska- og hegðunarstöð.
Við vinnslu leiðbeininganna var tekið mið af sambærilegum erlendum leiðbeiningum, sbr. NICE (National Institute for Health and Care Excellence) frá Bretlandi, SIGN 145 (Scottish Intercollegiate Guidelines Network) frá Skotlandi og BUP á Skáni (Barn- och ungdomspsykiatrin i Skåne) frá Svíþjóð. Ennfremur var stuðst við bókina Litróf einhverfunnar (2014) og leiðbeiningar Landlæknisembættisins um greiningu ADHD (styttri útgáfu).
Litið er á þessar leiðbeiningar sem lifandi skjal, sem þarf stöðugt að uppfæra samfara aukinni þekkingu á einhverfu og nýjum greiningar- og flokkunarkerfum. Æskilegt væri að gera svipaðar leiðbeiningar fyrir greiningu einhverfu hjá fullorðnum sem og leiðbeiningar um þjálfunar- og kennsluaðferðir, lyfjameðferð og stuðning og þjónustu við einhverf börn og fjölskyldur þeirra.