Metþátttaka á vel heppnaðri vorráðstefnu
Hin árlega vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fór fram dagana 8. og 9. maí 2025 á Hilton Reykjavík Nordica og var einnig streymt á netinu. Í ár var hún haldin í samstarfi við Landssamtökin Þroskahjálp undir yfirskriftinni Fötluð börn og fjölbreyttur menningar- og tungumálabakgrunnur – áskoranir og tækifæri. Um 550 þátttakendur sóttu ráðstefnuna, þar af um 100 í gegnum streymi – sem gerir hana að einni stærstu ráðstefnu RGR til þessa.
Ráðstefnan var sú fertugasta í röðinni og þótti einstaklega vel heppnuð, bæði hvað varðar faglegt innihald og skipulag. „Algjörlega frábær ráðstefna og skipulag til fyrirmyndar,“ sagði einn þátttakandi í ráðstefnukönnun. Annar bætti við: „Ótrúlega flott ráðstefna. Takk fyrir mig.“
Barna- og menntamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, ávarpaði gesti við upphaf ráðstefnunnar. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Jarno Lehtonen frá Tukena Foundation í Finnlandi. Hann fjallaði um jöfn réttindi til þjónustu fyrir fjölskyldur fatlaðra barna með erlendan bakgrunn.
Á ráðstefnunni var fjallað um fjölmörg málefni, þar á meðal tvöfalda jaðarsetningu (e. Double Minority Challenge) sem fatlaðir einstaklingar standa frammi fyrir þegar þeir eru innflytjendur eða flóttafólk. Einnig var farið yfir þjónustu, áskoranir og tækifæri í starfsemi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, sem og fjölgun tilvísana barna með erlendan bakgrunn til stofnunarinnar. Reynslusögur foreldra, ungmenna og sveitarfélaga af þjónustu við börn og fjölskyldur af erlendum uppruna voru einnig dregnar fram.
Kynnt voru störf brúarsmiða, MEMM-verkefnið og notkun gervigreindar til að styðja við fjölbreytni og ólíka menningu. Einnig voru kynntar áætlanir um nýjan matsferil til að samræma námsmat í grunnskólum út frá ólíkum hópi barna. Sjónarhorn ÍSAT-kennara og reynsla starfsfólks í þjónustu við fötluð börn af erlendum uppruna voru einnig rædd.
Ráðstefnan fjallaði einnig um stöðu túlkamála á Íslandi, málþroska fatlaðra barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn og hagnýt ráð til að styðja við málþroska og tjáskipti þeirra. Klettaskóli kynnti tækifæri í tækninotkun og Æfingastöð deildi reynslu sinni af fjölskyldumiðaðri endurhæfingu. Að auki var fjallað um áfallamiðaða nálgun í vinnu með börnum með hegðunarvanda, sem og menningarfærni og inngildingu í starfi með fjölbreyttum hópi.
Þátttakendur lýstu ánægju með erindin: „Erindi voru vel valin og pössuðu vel saman“ sagði einn og annar bætti við „maður lærir alltaf eitthvað nýtt og gaman að heyra önnur sjónarhorn,“ Enn annar komst svo að orði: „Allt var svo frábært… og viðtölin við foreldra mjög áhrifarík.“
Tónlistarhópurinn Niceguys stigu á stokk á fimmtudeginum og hleyptu lífi í stemmninguna með kraftmiklu atriði sem fékk salinn til að iða.
Niðurstöður úr ráðstefnukönnun sýna að 99% þeirra sem hafa nú þegar svarað myndu líklega sækja ráðstefnu RGR aftur. Um 95% sögðust hafa bætt þekkingu og færni og yfir 94% töldu að þau gætu nýtt það sem þau fræddust um í eigin starfi.
Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi inngildandi samfélags þar sem öll börn fái tækifæri til að þroskast og njóta sín – óháð uppruna, fötlun eða tungumálabakgrunni.
Við þökkum öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar – sérstaklega fyrirlesurum, þátttakendum og fundarstjórum – fyrir þeirra mikilvæga framlag. Sérstakar þakkir fá Niceguys fyrir að hleypa lífi í stemninguna með sinni kraftmiklu sviðsframkomu.

                      Soffía Lárusdóttir forstjóri Ráðgjafar- og greiningarstöðvar
 

                   Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra
 
 
 

     Katarzyna Kubis, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna hjá Þroskahjálp
 

Emilía Guðmundsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri rannsókna á Ráðgjafar- og greiningarstöð
 
 
 

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna og fjölskylduteymis hjá Reykjanesbæ og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni og ráðgjafateymis hjá Reykjanesbæ
 

Ali Tahseen og Salah Karim, brúarsmiðir Miðju máls og læsis og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
 
 
 

Donata H. Bukowska, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu
 

Birna Imsland, kennari í samfélagstúlkun
 
 
 

Guðrún Þorsteinsdóttir, sviðstjóri greiningarsviðs á Ráðgjafar- og greiningarstöð og Sandra Björg Sigurjónsdóttir, sálfræðingur á Ráðgjafar- og greiningarstöð
 

Erla Guðrún Gísladóttir, ÍSAT-kennari og verkefnastjóri Íslenskubrúar Breiðholts
 
 

Æfingastöðin
 
 
 

Atli F. Magnússon, klínískur atferlisfræðingur með vottun frá SATÍS
 

Jarno Lehtonen, Development Manager, Family Services and Children's Living Arrangements
 
 
 

Harpa Stefánsdóttir og Ragna Laufey Þórðardóttir, talmeinafræðingar á Ráðgjafar- og greiningarstöð
 

Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri í fjölmenningu hjá Miðju máls og læsis og læsis á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar
 
 
 

Hanna Rún Eiríksdóttir, tjáskiptaráðgjafi og kennari og Lísa Njálsdóttir, skólafélagsráðgjafi í Klettaskóla
 

Fulltrúar frá Klettaskóla
 
 
 

Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
 

Páll Ásgeir Torfason, stafrænn leiðtogi hjá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu
 
 
 
 

Fabiana Teixeira Morais, talskona fatlaðs fólks hja Þroskahjálp
 

Fabiana og Anna Lára Steindal, framkvæmdarstjóri Þroskahjálpar
 
 
 

Niceguys
 
 

Niceguys
 
 
 

Niceguys
 

Vorráðstefnuteymi 2025 f.h. Ráðgjafar- og greiningarstöðvar
Frá vinstri: Eva Dögg Gylfadóttir, Helga Kristín Gestsdóttir, Hrönn Björnsdóttir og Sandra Zarif