Glærur og upptökur af fyrirlestrum frá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2. og 3. maí 2024 eru komnar á vef RGR. Athugið að ekki er allt efni aðgengilegt. Yfirskrift ráðstefnunnar var Kynheilbrigði og fjölbreyttur taugaþroski - Mætum ólíkum þörfum frá bernsku til fullorðinsára.
Á ráðstefnunni voru mismunandi sjónarhorn kynheilbrigðis og ólíkra þarfa til umfjöllunar út frá bakgrunni og reynslu fyrirlesara. Lögð var áhersla á fræðilegt og praktískt sjónarhorn og ekki síst í að draga fram reynsluheim fullorðinna og barna með ólíkar þarfir sem og reynslu þeirra sem starfa í kynheilbrigðismálum innan mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins.
Þátttaka var frábær en rúmlega 430 aðilar sóttu ráðstefnuna og þar af voru rúmlega 90 skráðir í streymi.
Út frá niðurstöðum rafrænnar könnunar sem send var til þátttakenda að ráðstefnu lokinni líkaði flestum þátttakendum, af þeim sem svöruðu, mjög vel við erindi á dagskrá ráðstefnunnar, skipulag hennar og tímastjórnun. Auk þess var mikil ánægja með upplýsingagjöf og gæði streymis. Nánast allir þátttakendur töldu að þeir hefðu bætt þekkingu sína og færni og töldu sig geta nýtt í starfi sínu það sem þeir fræddust um á ráðstefnunni.
Vorráðstefna 2025 verður 8. og 9. maí og verður þar fjallað um áskoranir og tækifæri hvað varðar fötluð börn með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
Hér má nálgast glærur og upptökur frá vorráðstefnu 2024.