Í dag, 30. apríl 2025, er síðasti dagur til að skrá sig á vorráðstefnu 2025.
Í ár er vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar haldin í samvinnu við Landssamtökin Þroskahjálp. Ráðstefnan er einn stærsti vettvangur þeirra sem starfa með börnum með öðruvísi taugaþroska.
Ráðstefnan er sú fertugasta í röðinni og verður hún haldin á Hilton Reykjavík Nordica og í streymi 8. og 9. maí 2025. Ráðstefnan mun standa í einn og hálfan dag en henni lýkur um hádegi á föstudeginum.
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Fötluð börn og fjölbreyttur menningar- og tungumálabakgrunnur - áskoranir og tækifæri.
Með auknum fjölda einstaklinga á Íslandi með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn skapast ákall um samtal um stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna og fjölskyldna þeirra.
Markmið ráðstefnunnar í ár er að stuðla að vitundarvakningu um áskoranir og tækifæri í þjónustu við þennan hóp. Auk þess að draga fram ólík sjónarhorn, úr fræða- og reynsluheimi, og horfa til framtíðar með það fyrir augum að mæta og styðja enn betur við fjölskyldur með fjölbreyttar þarfir.
Hér er hægt að nálgast dagskrá og skráningu á ráðstefnuna.
