Í ár er vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar haldin í samvinnu við Landssamtökin Þroskahjálp. Ráðstefnan er einn stærsti vettvangur þeirra sem starfa með börnum með öðruvísi taugaþroska.
Ráðstefnan er sú fertugasta í röðinni og verður hún haldin á Hilton Reykjavík Nordica og í streymi 8. og 9. maí 2025. Ráðstefnan mun standa í einn og hálfan dag en henni lýkur um hádegi á föstudeginum.
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Fötluð börn og fjölbreyttur menningar- og tungumálabakgrunnur - áskoranir og tækifæri.
Með auknum fjölda einstaklinga á Íslandi með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn skapast ákall um samtal um stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna og fjölskyldna þeirra.
Markmið ráðstefnunnar í ár er að stuðla að vitundarvakningu um áskoranir og tækifæri í þjónustu við þennan hóp. Auk þess að draga fram ólík sjónarhorn, úr fræða- og reynsluheimi, og horfa til framtíðar með það fyrir augum að mæta og styðja enn betur við fjölskyldur með fjölbreyttar þarfir.
Hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar
Jarno Lehtonen þróunarstjóri hjá Tukena Foundation í Finnlandi mun sækja ráðstefnuna og deila með ráðstefnugestum upplýsingum um stöðu málaflokksins í Finnlandi og aðgerðir sem eiga að stuðla að jöfnum réttindum til þjónustu. Jarno hefur starfað í tuttugu ár innan félags- og heilbrigðisþjónustu í Finnlandi þar sem hann hefur ásamt öðru borið ábyrgð á skipulagi þjónustu og innleiðingu fjölbreyttra þróunarverkefna tengd fjölskyldum fatlaðra barna með erlendan bakgrunn.
Tukena Foundation er sjálfseignarstofnun í Finnlandi sem starfar á landsvísu og miðar að því að styðja við gott líf fyrir fólk með mismunandi stuðningsþarfir. Stofnunin stuðlar að jöfnum réttindum og mannréttindum í samfélaginu og eflir einstaklinga með fjölbreyttar þarfir í daglegu lífi. Hér er hægt að lesa meira um Tukena.
Á ráðstefnunni verður fjallað um tvöfalda jaðarsetningu (e. Double Minority Challenge) sem vísar til samtvinnunar mismunarbreyta sem fatlaðir einstaklingar standa frammi fyrir þegar þeir eru innflytjendur eða flóttafólk. Farið verður yfir þjónustu, áskoranir og tækifæri í starsemi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar sem og fjölgun tilvísana barna með erlendan bakgrunn til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Reynsla sveitarfélaga af þjónustu við börn og fjölskyldur af erlendum uppruna verður dregin fram.
Kynning verður á störfum brúarsmiða, MEMM verkefninu og notkun gervigreindar til að styðja við fjölbreytni og ólíka menningu. Þar að auki verða áætlanir kynntar hvað varðar nýjan matsferil til að samræma námsmat í grunnskólum út frá ólíkum hópi barna. Sjónarhorn ÍSAT kennara verður dregið fram sem og reynsla og upplifun starfsfólks í þjónustu við fötluð börn af erlendum uppruna. Auk þess verður varpað ljósi á sjónarhorn og reynslu fjölskyldna og einstaklinga með ólíkar þarfir og fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
Umfjöllun verður um stöðu túlkamála á Íslandi auk þess sem fjallað verður um málþroska fatlaðra barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn og hagnýt ráð til að styðja við málþroska og tjáskipti þeirra. Klettaskóli mun varpa ljósi á tækifæri í tækninni og Æfingastöð mun deila reynslu sinni af fjölskyldumiðaðri endurhæfingu. Umfjöllun verður um áfallamiðaða nálgun í vinnu með börnum með hegðunarvanda og farið verður yfir menningarfærni og inngildingu í starfi með fjölbreyttum hópi.
Boðið verður upp á veitingar í kaffihléum og hádegisverðarhlaðborð á fimmtudeginum!
Boðið verður upp á drykk í lok ráðstefnudags á fimmtudeginum til að fagna fertugustu vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar!
- Snemmskráningargjald er frá 14. mars til og með 15. apríl.
- Síðskráningargjald er frá 16. apríl til og með 30. apríl.
- Boðið er upp á aðstandendagjald fyrir fatlað fólk og forsjáraðila sem sækja ráðstefnuna sem foreldri.
Snemmskráningargjald fagaðila
Snemmskráningargjald aðstandenda
Síðskráningargjald fagaðila
Síðskráningargjald aðstandenda
Streymi (fyrir einstakling)
Von er á góðri þátttöku og því er mikilvægt að tryggja sér sæti sem fyrst!
Hér getur þú nálgast ráðstefnuna á Facebook.
Ráðstefnugjald og greiðsluskilmálar
Nauðsynlegt er að ganga frá greiðslu með debet- eða kreditkorti við skráningu. Skráning er ekki gild nema gengið sé frá greiðslu í skrefi þrjú með debet- eða kreditkorti. Kvittun sem hægt er að nýta vegna endurgreiðslu frá stéttarfélögum berst þátttakanda með staðfestingarpósti skráningar.
Afskráning þarf að berast skriflega í síðasta lagi 30. apríl 2025 með því að senda tölvupóst á fraedsla@rgr.is. Við það fæst ráðstefnugjald endurgreitt að fráteknu skráningar- og umsýslugjaldi að upphæð kr. 3.000,-.
Hægt er að hafa samband við Ráðgjafar- og greiningarstöð í gegnum netfangið fraedsla@rgr.is ef þú lendir í vandræðum með skráninguna.