Gagnreynt kennsluefni eftir Dr. Kathryn Pedgrif sem nefnist Sambönd og samskipti (e. Relationship Decoded) og fjallað var um á vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar í maí 2024 er komið inn á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Efnið er ætlað fólki frá 18 ára aldri og er þýtt af Maríu Jónsdóttur félagsráðgjafa á Ráðgjafar- og greiningarstöð. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið styrkti þýðingu og tilskilin leyfi.
Sambönd og samskipti er námsefni sem byggist á því að kenna nemendum að bera kennsl á ofbeldi og þvinganir, styrkja sjálfstraust, nota ákveðni og hvernig á að tilkynna misnotkun. Samhliða felst inntak námsefnisins í að þjálfa fólk í hvernig á að fá samþykki og læra um lög og reglur. Þá er markmiðið að nemendur öðlist jafnframt færni til að læra um skrefin til að byggja upp rómantískt samband og læra um hverjir koma til greina, um daður og hvaða reglum þarf að fylgja. Einnig að læra að skilgreina muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum.
Námsefnið Sambönd og samskipti skiptist í tvo hluta, annars vegar inngangsnámskeið og hinsvegar framhaldsnámskeið. Í inngangsnámskeiðinu er lögð áhersla á grundvallarhugtök eins og að greina á milli almenningsstaða og einkarýmis, bera kennsl á æskilega og óæskilega snertingu og æfa sig í að nota ákveðni í samskipti. Einnig er fjallað um grunnatriði eins og hvað felst í að laðsta að öðrum/hrifning, um stefnumót, hegðun á almenningsstöðum í tengslum við stefnumót og kynferðisofbeldi. Á framhaldsnámskeiðinu er skilgreindur munur á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum, þá er einnig rýnt í eigin gildi og mörk í samkiptum skoðuð. Fjallað er um mikilvæg atriði sem varða eigið öryggi á stefnumótum (þar á meðal netöryggi). Einnig um samþykki, þvingun, kynferðisofbeldi, getnaðarvarnir og kynheilbrigði.
Auk kennsluleiðbeininga fylgja bæði fyrri og seinni hlutanum nemendaverkefni sem skiptast í myndir og myndbönd (sem eru flest á ensku).
Hægt er að nálgast efnið hér
Hér má nálgast umfjöllun um efnið á vorráðstefnu RGR 2024