Linda Kristmundsdóttir, forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar barna, Dögg Hauksdóttir, framkvæmdarstjóri kvenna- og barnaþjónustu Landspítala, Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir á Geðheilsumiðstöð barna, Solveig Sigurðardótitr, barnalæknir á Ráðgjafar- og greiningarstöð og Bertrand Andre Marc Lauth, sérfræðilæknir á BUGL.
Landspítali hefur undirritað samstarfssamning við Ráðgjafar- og greiningarstöð (RGR) og Geðheilsumiðstöð barna (GMB) um sérnám í barna- og unglingageðlækningum. Samningurinn var undirritaður 5. nóvember og markar mikilvægt skref í því að fjölga sérfræðilæknum á þessu sviði og efla þjónustu við börn og ungmenni um allt land.
Hlutverk RGR er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar, sem geta leitt til fötlunar síðar á ævinni, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. GMB veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn allt að 18 ára aldri og sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga. Barna- og unglingageðdeild Landspítala veitir 3. stigs heilbrigðisþjónustu vegna geð- og þroskaraskana barna og unglinga.
Formlegt samstarf þessara þriggja aðila tryggir að sérfræðilæknar framtíðarinnar fái heildstæða nálgun og þjálfun í þjónustu við börn sem þurfa á sérhæfðri greiningu eða meðferð á vegum geðlækna að halda.
* Umfjöllun og mynd byggja á frétt sem birtist á Spítalapúlsi LSH