Frá vinstri: Herdís Ingibjörg, Anna Marín, Katrín Sveina (hætt störfum á RGR), Lilja, Margrét Unnur og Rakel Rós.
Atferlisfræðingar Ráðgjafar- og greiningarstöðvar tóku þátt í tveimur alþjóðlegum ráðstefnum á haustmánuðum 2025. Þátttakan var liður í faglegri þróun og miðlun þekkingar á sviði atferlisgreiningar.
Dagana 9. og 10. október sóttu þeir ráðstefnu á vegum SATÍS í samstarfi við OBM Network, sem haldin var í Hörpu. Ráðstefnan markaði tímamót í sögu SATÍS, en í fyrsta sinn stóð félagið fyrir viðburði af þessari stærðargráðu í samstarfi við alþjóðlegt fagfélag. OBM Network er þekkt á heimsvísu fyrir starf sitt á sviði atferlisgreiningar og skipulagsstjórnunar. Dagskrá ráðstefnunnar samanstóð af fyrirlestrum og vinnustofum þar sem fjallað var um nýjustu strauma og stefnur í faginu.
Dagana 11.–13. nóvember sóttu þeir tólftu alþjóðlegu ráðstefnuna á vegum ABAI sem haldin var á Altis Grand Hotel í Lissabon. Þar var fjallað um fjölbreytt viðfangsefni innan atferlisgreiningar, meðal annars starfsmannaþjálfun, vinnu með öldruðum, skrollhegðun í snjallsímum, krefjandi hegðun, foreldraþjálfun og gagnreyndar aðferðir við ákvarðanatöku í inngripum. Ráðstefnan var í formi fyrirlestra, vinnustofa, pallborðsumræðna og kynninga á nýjustu rannsóknum og útgefnum fræðigreinum.
