Laugardaginn 9. nóvember verður haldinn fyrsti íþróttadagur ALLIR MEÐ verkefnisins, í Laugardalshöllinni í Reykjavík.
Sérstakur markhópur eru börn á grunnskólaaldri, - börn með fötlun, sérþarfir og/eða stuðningsþarfir. Börn sem ekki hafa fallið inn í almennt íþróttastarf á einhvern hátt og /eða ekki tekið þátt
Verkefnið ALLIR MEÐ var sett á fót í janúar 2023 og hefur að markmiði að virkja fleiri börn og ungmenni til þátttöku í íþróttastarfi. Verkefnastjóri er Valdimar Gunnarsson.
Horft er sérstaklega til þeirra sem hafa einhverskonar fötlun, sérþarfir/ stuðningsþarfir eða greiningar sem hafa haft áhrif á þátttöku í almennu íþróttastarfi eða hindrað þátttöku.
Á bak við ALLIR MEÐ verkefnið er öll íþróttahreyfingin, ÍF, UMFÍ og ÍSÍ auk þriggja ráðuneyta og Þroskahjálpar og ÖBÍ.
Það er ljóst að það er verk að vinna því aðeins 4% barna og ungmenna á grunnskólaaldri taka þátt í formlegu íþróttastarfi skv. skráningakerfi íþróttahreyfingarinnar.
Verkefnið var sett á fót sem samstarfsverkefni íþróttahreyfingarinnar til að reyna að ná betur til þessa hóps og virkja almenn íþróttafélög og nærsamfélag barna til aukins samstarfs.
Íþróttagreinar verður áfram í boði innan aðildarfélaga ÍF en verið er að hvetja almenn iþróttafélög til að taka vel á móti „öllum“ börnum og vinna að aukinni þátttöku þessa hóps almennt eða /og með sérverkefnum.
Í Laugardalshöllinni 9. nóvember verður tekið vel á móti öllum og þar geta þeir mætt sem aldrei hafa prófað íþróttir, jafnt og hinir sem lengra eru komnir.
Skipt verður í hópa og þeir mega vera saman í hóp sem vilja vera saman. Hver hópur prófar allar greinar með góðum stuðningi, fær pizzaveislu í hádeginu og í lokin verður diskó og fjör.
Fulltrúar sérsambanda skipuleggja hverja grein auk nemenda á íþróttafræðisviði HÍ
Meginmarkmið er að skapa umgjörð sem gefur tækifæri til að prófa fjölbreyttar íþróttir sama hvert getustig er, allir geta verið með á þann hátt sem hentar best.
Þeir sem vilja bara mæta og fylgjast með áður en ákveðið er hvort þeir vilja prófa, - geta gert það, allt er valfrjálst á þessum degi.
Dagskrá hefst kl. 10, skipt verður í hópa og prófaðar mismunandi greinar.
Eftir pizzuveislu í hádegi er farið saman í skrúðgöngu í fimleikasal Ármanns og síðan dansað saman í lokin og haft gaman.
Þátttökugjald er 1.500 kr sem er greitt við skráningu á heimasíðu www.allirmed.is