Starfsfólk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar sótti alþjóðlega ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í Lissabon

Þrettán starfsmenn Ráðgjafar- og greiningarstöðvar tóku þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni International Society on Early Intervention (ISEI) sem haldin var í Lissabon dagana 2.–5. september 2025. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við European Association on Early Childhood Intervention (Eurlyaid) og Iscte–University Institute of Lisbon.

Yfir 600 þátttakendur frá 50 löndum komu saman til að ræða nýjustu rannsóknir, aðferðir og stefnumótun í málefnum barna með fjölbreyttar þroska- og stuðningsþarfir.

Meginþema ráðstefnunnar

Rauður þráður í gegnum ráðstefnuna var fjölskyldumiðuð nálgun í allri snemmtækri íhlutun — að fjölskyldan sé ávallt í miðju vinnunnar og að áhersla sé lögð á styrkleika barnsins og fjölskyldunnar. Mikilvægt er að raddir foreldra heyrist, að fagfólk sýni virðingu og nærgætni og að stuðningur sé einstaklingsmiðaður og sveigjanlegur.

Vinnustofur sem starfsfólk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar sótti

  • Vinnustofan ,,The Role of Personell and AI“ í umsjón Mary Beth Bruder, prófessors og sérfræðings í snemmtækri íhlutun, fjallaði um mikilvægi vel menntaðs fagfólks og jafnvægis milli fræðilegrar menntunar og starfsþjálfunar. Hún lagði áherslu á fjölskyldumiðaða nálgun þar sem teymisvinna og daglegt líf fjölskyldunnar eru í brennidepli og hvatti til þess að tekið væri mið af menningarbakgrunni og aðstæðum fjölskyldna. Að lokum undirstrikaði hún þörfina á áframhaldandi handleiðslu og eftirfylgd í námi fagfólks svo þekking og aðferðir festist í starfi.

  • Vinnustofan ,,AI“ í umsjón James D. Basham, prófessors við University of Kansas, fjallaði um hvernig gervigreind getur stutt við nám nemenda með fötlun, sérstaklega með verkfærum eins og Magic School, Notebook LM og Be My Eyes. Hann lagði áherslu á ábyrga notkun („responsible use“) gervigreindar í skólum og minnti á að tæknin geti verið öflugt hjálpartæki en komi aldrei í stað mannlegrar dómgreindar — gæði niðurstaðna ráðist alltaf af því sem við setjum inn í kerfið.

  • Vinnustofan „Supported Lying“ í umsjón Denise Luscombe, sjúkraþjálfara frá Ástralíu, fjallaði um áhrif þyngdaraflsins á líkamsstöðu barna með alvarlega hreyfihömlun og mikilvægi þess að grípa snemma inn í til að koma í veg fyrir skekkjur. Kynnt voru sleep system-lausnir sem veita líkamanum góðan stuðning í legu og hjálpa til við að viðhalda réttri stöðu mjaðmagrindar og bringubeins. Lögð var áhersla á að nota einfaldan stuðningsbúnað sem þegar er til á heimilinu og fræða foreldra um hversu brýnt er að huga að líkamsstöðu barnsins frá fæðingu.

  • Vinnustofan „Children with Feeding Challenges – A Long Journey From Looking at the Food to Swallowing“ fjallaði um hvernig skapa má jákvæða og styðjandi upplifun við matarborðið fyrir börn með fæðuinntökuvanda. Lögð var áhersla á að byggja upp öryggi, samveru og gleði í kringum máltíðir og fagna litlum framförum á leiðinni. Einnig var rætt um mikilvægi þess að hlusta á foreldra, sem þekkja barnið best, og að nýta reynslu þeirra og stuðning sín á milli — meðal annars með skapandi lausnum eins og uppskriftabók sem foreldrar barna með fæðuhnapp höfðu útbúið.

Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og þekkingarmiðlunar á sviði snemmtækrar íhlutunar. Starfsfólk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar snýr heim með nýjar hugmyndir, innblástur og tengslanet sem mun efla starf stofnunarinnar og stuðla að bættri þjónustu við börn og fjölskyldur.