Reynsla íslenskra leikskóla af AEPS-2 færnimatslista við gerð einstaklingsnámskráa fyrir börn

Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur staðið fyrir námskeiðum í notkun AEPS-2 færnimatslista við gerð einstaklingsnámskráa fyrir börn allt frá árinu 2012.

AEPS-2 færnimatslistinn tengir saman mat á færni, íhlutun og eftirfylgd á framförum. Atriði listans taka til aðstæðna barna í daglegu lífi þar sem áherslan er á mat á færni og þátttöku barna í daglegum athöfnum, sett eru fram mælanleg markmið og framförum er fylgt eftir. Forráðamenn taka þátt í mati og ákvarðanatöku um áhersluatriði og markmið. Matslistinn hefur reynst vel í vinnu með börnum sem þurfa sérkennslu á leikskólaaldri og fyrstu árum grunnskóla. Þessu til viðbótar fylgja listanum fjölmargar hugmyndir af leiðum til að vinna með færnimarkmið í leik og starfi barnsins. Sýnt hefur verið fram á gott réttmæti og áreiðanleika listans.

Yngri barna svið Ráðgjafar- og greiningarstöðvar stóð á síðasta ári (2023) fyrir könnun á notkun færnimatslistans í leikskólum landsins og hvernig hann nýtist starfsfólki. Könnunin var send á 264 netföng leikskóla um allt land og var svarhlutfallið tæp 72% eða 189 leikskólar. Helstu niðurstöður voru þær að 160 leikskólar nota AEPS-2 færnimatslistann við námskrárgerð og töldu 93% svarenda færnimatslistann nýtast vel eða mjög vel í starfi. Mikill meirihluti þeirra sem sátu námskeið sátu einnig handleiðslutíma sem í boði voru í kjölfar námskeiðsins eða tæp 70%. Almenn ánægja var með handleiðsluna en tæp 92% þeirra sem sátu handleiðslutímana töldu hana nýtast vel eða mjög vel. Varðandi nýtingu listans í starfi þá lýstu svarendur meðal annars ánægju sinni með aðgang að hugmyndum við útfærslu á vinnu við markmið sem fylgja færnimatslistanum, handleiðslunni og mælanleika markmiðanna sem sett eru.

Það er því ljóst að AEPS-2 færnimatslistinn nýtist vel í starfi leikskóla til að útbúa markvissar einstaklingsáætlanir sem innihalda mælanleg markmið. Einn helsti kostur þessa lista er sá að foreldrar eiga að taka virkan þátt, bæði í mati á færni og markmiðssetningu.