Nýtt námskeið - Svefnvandi barna með þroskafrávik

Nú á haustönn býður Ráðgjafar- og greiningarstöð upp á glænýtt námskeið sem fjallar um svefnvanda barna með þroskafrávik.

Námskeiðið er ætlað fagaðilum sem sinna ráðgjöf til foreldra barna með þroskafrávik, til dæmis ráðgjöfum í málefnum fatlaðra hjá sveitarfélögum, sérkennsluráðgjöfum, sérkennslustjórum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum hjá heilsugæslu eða af öðrum vettvangi.

Efni námskeiðsins miðast fyrst og fremst að börnum á aldrinum 1-10 ára en hluti efnisins getur einnig gagnast fyrir aðra aldurshópa.

Á námskeiðinu verður fjallað um svefn og svefnvanda barna, aðferðir til að meta svefnvanda og leiðir til að bæta svefn. Á fyrri degi námskeiðsins verður farið yfir grunnþætti svefns, hvað einkennir góðan svefn og mögulegar ástæður svefnvanda. Þátttakendur verða kynntir fyrir leiðum til að meta svefnvanda í samvinnu við foreldra, þar á meðal notkun á Sleep Assessment and Treatment Tool viðtalsramma. Á seinni degi námskeiðsins verður farið ítarlega í möguleg úrræði við mismunandi svefnvanda, uppsetningu á einstaklingsmiðaðri áætlun til að bæta svefn og eftirfylgd til foreldra.

Gert er ráð fyrir því að þátttakendur hafi möguleika á því að æfa sig í að meta svefnvanda, vinna úr gögnum, setja upp einstaklingsmiðaða áætlun og veita eftirfylgd til foreldra í kjölfarið.

Að námskeiðinu loknu er hóphandleiðsla í eitt skipti þar sem þátttakendur fá tækifæri til að spyrja spurninga, leita ráða og fá aðstoð við að meta næstu skref.

Einungis 20 pláss eru í boði – Skráning og nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér