Dagskrá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar liggur fyrir

Dagskrá vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar liggur nú fyrir en ráðstefnan verður haldin 11. - 12. maí 2023. Ráðstefnan stendur yfir í einn og hálfan dag, en henni lýkur á hádegi föstudaginn 12. maí. Yfirskrift hennar að þessu sinni er: Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir.

Dagskrána í heild má sjá hér.

Dr. Sigurður Kristinsson prófessor við Háskólann á Akureyri mun fjalla um fagmennsku í víðu samhengi, hvað felst í hugtakinu og hvaða skyldur það leggur á herðar fagfólks. Dr. Sigrún Harðardóttir dósent og dr. Sigrún Júlíusdóttir munu fjalla um sjálfsrækt og mikilvægi handleiðslu fyrir fagfólk til að þroskast í starfi. Sagt verður frá hvernig Akranesbær útfærir þjónustu við börn í anda Farsældarlaganna og Ragnheiður Hergeirsdóttir lektor kynnir Farsæld barna sem er ný námsleið við HÍ. Guðný Stefánsdóttir sviðsstjóri á RGR kynnir SIS matið og hvernig það nýtist í daglegu starfi með börnum og sagt verður frá verkefni í grunnskólum í Kópavogi sem kallast „Þegar réttindi og velferð grunnskólabarna stangast á“.

Sagt verður frá hvernig uppáhaldsorðin Færni – Fjölskylda – Form – Fjör – Vinir – Framtíð eru fléttuð inn starfið á Æfingastöðinni og ungar konur með CP kynna jafningjafræðslu á vegum CP félagsins. Inga Björk Margrétar Bjarnardóttir doktorsnemi mun fjalla um áskoranir sem fatlaðir standa frammi fyrir í rafræna heiminum og Haraldur Bjarnason frá Auðkenni mun kynna rafrænar lausnir sem eiga að nýtast öllum.

Óttarr Proppé verkefnastjóri í Mennta- og barnamálaráðuneytinu mun kynna stefnumótun í málefnum fatlaðra barna af erlendum uppruna og einnig verður sagt frá Alþjóðateymi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og hvernig það tryggir réttindi flóttafólks m.a. skólagöngu barna.

Margt fleira er á dagskránni og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að fræðast og gleðjast með okkur á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík í vor. Sem fyrr verður boðið upp á streymi fyrir þátttakendur sem ekki eiga heimangengt. 

Athygli er vakin á því að hádegisverður er innifalinn í ráðstefnugjaldi fyrir þau sem taka þátt staðbundið á fimmtudeginum. Einnig vekjum við athygli á að eingöngu er hægt að greiða með debet- eða kreditkortum við skráningu, ekki verður hægt að fá greiðsluseðla senda í banka eins og undanfarin ár. 

Afsláttartilboð á gistingu á Hilton

Þau sem vilja gista á Reykjavík Hilton Nordica hótelinu geta nýtt sér afsláttarkóða sem er virkur fyrir dagana frá 11.05 – 14.05.23. Kóðinn er WHPRO1 og gefur 15% afslátt af verði hótelsins þessar nætur. Farið er inn á slóð hér, dagsetningar valdar (kóðinn er ekki settur strax inn). Þegar búið er að velja viðeigandi dagsetningar er ýtt á „Check Rooms & Rates“ og þá síðan yfir á aðra síðu með  „Special Rates“ og kóðinn settur undir „Promotion / Offer Code“. Athugið að RGR getur ekki gefið leiðbeiningar eða svarað spurningum varðandi gistingu en hægt er að senda t,póst á netfangið: miceres@icehotels.is ef fólk þarf ítarlegri upplýsingar vegna gistingar. 

 Skráning fer fram hér (neðst á síðunni)