Skipulögð kennsla (TEACCH)

TEACCH - er skammstöfun sem stendur fyrir Treatment and Education of Autistic and related Communications Handicapped Children, eða meðferð og kennsla barna með einhverfu og skyldar boðskiptatruflanir.

Hér er um að ræða alhliða þjónustulíkan fyrir fólk með röskun á einhverfurófi og fjölskyldur þeirra. Þjónustan miðast við alla aldurshópa allt frá snemmtækri íhlutun (early intervention) til fullorðins ára. Líkan þetta er upprunnið frá Norður Karólínufylki í Bandaríkjunum, nánar tiltekið frá háskólanum í borginni Chapel Hill. Hugmyndafræði TEACCH var fyrst sett fram árið 1965 af prófessor Eric Schopler þar sem hann lagði til að meðferð einstaklinga með röskun á einhverfurófi yrði sérstaklega sniðin að þörfum þeirra.  Lögð er áhersla á einstaklingsmat og út frá því er smíðuð þjálfunar og kennsluáætlun þar sem markvisst er unnið með styrkleika og þá þætti sem styrkja færni, sjálfstæði og áhuga  einstaklingsins. TEACCH nálgunin er eins og aðrar íhlutunarleiðir vænlegust til árangurs ef hún er í stöðugri endurskoðun og nær yfir sem flestar aðstæður í lífi viðkomandi einstaklingsins.

Skipulögð kennsla (Structured Teaching) nefnist sú kennsluaðferð sem þróuð hefur verið innan TEACCH-líkansins. Rannsóknir  hafa sýnt að skilpulögð kennsla hentar mjög vel einstaklingum með röskun á einhverfurófi. Með því að skipuleggja umhverfið, setja upp dagskrá, vinnukerfi, sjónrænt boðskiptakerfi, og veita yfirsýn yfir það sem er í vændum, hefur áhrifamikil leið verið fundin til að auka færni barna með röskun á einhverfurófi og gera þau færari um að framkvæma hluti án stuðnings frá öðrum.  Þessir áhersluþættir eru sérstaklega mikilvægir vegna þess að allt of oft fær barnið ekki tækifæri til að virkja sjálfstæði sitt í mismunandi aðstæðum vegna skorts á frumkvæði.

Einstaklingskennsla er mjög mikilvægur þáttur í dagsskipulaginu til að barnið geti tileinkað sér nýja færni. Þá færni þarf barnið að geta yfirfært á aðrar nýjar aðstæður. Mörg börn með röskun á einhverfurófi geta vel nýtt sér kennslu í almennum skólum, meðan önnur þurfa á sérhæfðari úrræðum að halda þar sem umhverfi og námsefni er aðlagað sérstaklega að þörfum hvers og eins.  Skipulagða kennslu er hægt að framkvæma hvar sem er og við hvaða aðstæður sem er.

TEACCH-modelið leggur áherslu á samfellda þjónustu alla ævi. Meginmarkmiðið er ávallt að einstaklingurinn lifi sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og aðlagist samfélaginu eins vel og kostur er.   

(Fengið af heimasíðu TEACCH: www.unc.edu/depts/teacch/ með leyfi höfundar)

Hér er hægt að nálgast ýmis konar TEACCH ráðleggingar