Vel heppnuð vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar var haldin í byrjun maí

Einkar vel heppnuð vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar var haldin á Hilton Reykjavík Nordica 2. og 3. maí síðastliðinn undir yfirskriftinni Kynheilbrigði og fjölbreyttur taugaþroski – Mætum ólíkum þörfum frá bernsku til fullorðinsára. Ráðstefnan er talin marka ákveðin tímamót í vitundarvakningu og þekkingu hvað varðar kynheilbrigði og fjölbreyttan taugaþroska.

Þátttaka var frábær en rúmlega 430 aðilar sóttu ráðstefnuna og þar af voru rúmlega 90 skráðir í streymi. Töluverð þátttaka aðstandenda var á ráðstefnunni og þátttakendur komu víða úr þjónustukerfinu t.d. leik-, grunn- og framhaldsskólum, félags- og skólaþjónustu, félagsmiðstöðvum, heilsugæslu, búsetuþjónustu og skammtímadvöl, barnavernd, barna- og fjölskyldustofu, Æfingastöðinni og frá hagsmunasamtökum.

Á ráðstefnunni voru mismunandi sjónarhorn kynheilbrigðis og ólíkra þarfa til umfjöllunar út frá bakgrunni og reynslu fyrirlesara. Lögð var áhersla á fræðilegt og praktískt sjónarhorn og ekki síst í að draga fram reynsluheim fullorðinna og barna með ólíkar þarfir sem og reynslu þeirra sem starfa í kynheilbrigðismálum innan mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins. Hægt er að nálgast dagskrá ráðstefnunnar í heild hér.

 Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, ávarpaði ráðstefnugesti í upphafi og lagði áherslu á mikilvægi þekkingar á sviði kynheilbrigðis, bæði hjá börnum og ungmennum með fjölbreyttar þarfir sem og í þjónustukerfinu í heild. Dr. Kathryn Pedgrift sálfræðingur frá North Bay Center of California var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar og kynnti hún ásamt félögum sínum nýtt gagnreynt kennsluefni sem er fullunnið fyrir 18 ára og eldri. Það efni verður hægt að nálgast í fræðslugátt Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins í lok mánaðarins. Félagar okkar í Kaliforníu kynntu einnig sambærilegt efni fyrir unglinga sem þeir eru að leggja lokahönd á. Áætlað er að það efni verði aðgengilegt á íslensku árið 2026.

Út frá niðurstöðum rafrænnar könnunar sem send var til þátttakenda að ráðstefnu lokinni líkaði flestum þátttakendum, af þeim sem svöruðu, mjög vel við erindi á dagskrá ráðstefnunnar, skipulag hennar og tímastjórnun. Auk þess var mikil ánægja með upplýsingagjöf og gæði streymis en þó voru þrír aðilar sem voru ekki ánægðir með streymið. Nánast allir þátttakendur töldu að þeir hefðu bætt þekkingu sína og færni og töldu sig geta nýtt í starfi sínu það sem þeir fræddust um á ráðstefnunni.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu lóð á vogarskálarnar við að gera ráðstefnuna að flottum og innihaldsríkum viðburði. Við þökkum sérstaklega fyrirlesurum, þátttakendum og fundarstjórum fyrir þeirra framlag.

Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2025 verður 8. og 9. maí og við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Nokkrar umsagnir þátttakenda:

  • „Skipulag bæði í aðdraganda og á ráðstefnunni sjálfri var alveg til fyrirmyndar. Dagskráin vel skipulögð og góður stígandi í henni. Gaman að fá erlenda fyrirlesara. Myndböndin inn á milli líka góð hugmynd og braut upp dagskránna“
  • „Ég hafði áhuga á efninu fyrir ráðstefnuna en erindin langflest stóðu langt fram úr væntingum. Einnig verð ég að hrósa matnum, sérstaklega hádegisverðimum á fimmtudeginum, eitthvað fyrir alla og allt ljúffengt og gott“
  • „Ráðstefnan kom mér skemmtilega á óvart. Kem úr leikskóla og fannst efnið ekki mikið leikskólamiðað þegar ég las dagskrána en fræðslan sem fór fram er svo góð samfélagsleg fræðsla, vildi að öll á landinu fengju þessa frábæru fræðslu. Takk fyrir mig ❤️“
  • „Einkar glæsileg og metnaðarfull ráðstefna. Gott jafnvægi á fyrirlestrum og myndbönd voru fræðandi, relevant og gott uppbrot í dagskránni“
  • „Þessi ráðstefna var algjört MUST fyrir öll sem starfa á þessum vettvangi. Takk fyrir mig!“
  • „Þakka kærlega fyrir mig, sem móðir unglingsdrengs þá er þetta eitthvað sem ég get nýtt mér í hans uppeldi.“
  • „Mjög flott ráðstefna um mikilvægt málefni þar sem var virkilega gaman að sjá fjölbreytni í erindum, það sannarlega skilaði sér í aukinni þekkingu“
  • „Til lukku með ráðstefnuna, hún var ein sú besta sem ég hef farið á“