Ráðleggingar í tengslum við frí og ferðalög með fatlað barn

Áður en farið er af stað:

  • Þegar flugmiði er keyptur er gott að setja inn sem athugasemd að ferðast sé með fatlað barn.
  • Við bókun flugferðar er hægt að óska eftir séraðstoð hjá viðkomandi flugfélagi fyrir einstaklinga með skerta ferðafærni. Mikilvægt er að muna láta flugfélagið vita um óskir um séraðstoð að minnsta kosti 48 tímum fyrir brottför. Í sumum tilfellum felst hjálp í því að fá lánaða kerru eða hjólastól á flugvellinum og stundum er ferðast með slíkt á eigin vegum. Ef óskað er eftir að fá að nota slík tæki á flugvellinum og að flugvélinni er æskilegt slík ósk komi fram fyrir flugferðina. Nánari upplýsingar má finna um aðstoð á Keflavíkurflugvelli með því að smella á þennan hlekk Aðstoð á flugvellinum og á vegum icelandair: https://www.icelandair.com/is/adstod/seradstod/born-og-ungaborn/
  • Gott er að panta sæti fremst í vélinni þar sem er meira rými eða sæti við gang, sérstaklega ef barnið hefur mikla hreyfiþörf.
  • Hafa samband beint við Isavia 425-6026 og láta vita að ferðast sé með fatlað barn. Gott að láta vita með smá fyrirvara (kannski deginum áður) og hringja svo aftur eftir að innritun er lokið. Þá er hægt að fá forgang í öryggisleitinni. Gott getur verið að tryggja að til sé sólblómaband fyrir barnið í leiðinni.
  • Sólblómabönd fást á innritunarborðum afgreiðsluaðila í brottfararsal og á upplýsingaborði í komusal. Starfsfólk flugstöðvarinnar er upplýst um að farþegar sem bera bandið gætu þurft viðbótartíma, aukna þolinmæði, skilning og tillitssemi. Upplýsingamyndband um sólblómabandið má skoða á þessari slóð.
  • Hægt er að skoða myndband með barninu sem tekið er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að undirbúa ferðina, þá er líka hægt að ræða um hljóðin sem heyrast í flugstöðinni. Slóðin er hér.
  • Lesa félagsfærnisögu um það að fara í flugvél og ferðast. Lesa hana áður en farið er og hafa hana uppi við á meðan á ferðinni stendur og lesa saman og minna á það sem tekið er fram þar.
  • Setja í handfarangstösku/bakpoka barnsins ýmislegt til að láta tímann líða í vélinni. Barnið getur í sumum tilfellum verið með í að velja milli hluta sem fara í töskuna. Til dæmis:
    • Leikföng og bækur sem eru í uppáhaldi (ef barnið er með mikla snertiþörf þá getur verið gott að hafa leir fyrir barnið til að leika með).
    • Nesti sem þú veist að barnið borðar og jafnvel eitthvað sem barnið elskar (notað ef barnið er að verða mjög órólegt).
    • Heyrnartól fyrir barnið (jafnvel noice canceling) og spjaldtölvu/tölvu/síma sem barnið getur notað á flugstillingu.
    • Sólgleraugu eða derhúfa getur dregið úr sjónrænum áreitum og ekki síst í sólarlöndum.
    • Eitthvað sem róar barnið (t.d. teppi eða bangsa sem hægt er að rétta því ef barnið verður óöruggt).
    • Aukaföt á barnið ef skipta þarf um föt af einhverju tilefni.

Í flugstöðinni:

  •  Látið starfsmann í hliðinu (gate) vita að það sé fatlað barn að ferðast með ykkur og þá er í flestum tilfellum forgangur í að fara um borð eða þið fáið að vera síðust. Það að vera síðust um borð hjálpar stundum varðandi það að vera styttri tíma í vélinni.
  • Fylgist með hvort áreiti séu að verða of mikil og breyta þá um umhverfi – fara þar sem færri eru eða bjóða nýtt að leika með.
  • Sumir hafa útbúið lítið upplýsingakort sem hægt er að rétta fólki ef barnið fær meltdown þar sem stendur eitthvað í áttina við „takk fyrir að sýna okkur skilning og þolinmæði, hér er barn með öðruvísi skynúrvinnslu að takast á við krefjandi aðstæður“.
  • Hafið í huga að meltdown eiga sér stað hjá öllum börnum og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Ferðalög reyna á allar fjölskyldur.

Í flugvélinni:

  • Til að draga úr líkum á því að barnið fái illt í eyrun þegar flugvélin fer í loftið eða lendir þá gæti verið gott að leyfa barninu að tyggja tyggjó eða fá brjóstsykur eða sleikjó til að sjúga. Nagdót hjálpar einnig varðandi þetta.
  • Niðurteljari í síma getur í sumum tilfellum hjálpað barninu að vita hversu langan tíma flugferðin tekur.

Í fríinu:

  • Horfið á styrkleika barnsins. Ef barnið er mjög virkt þá er gott að velja afþreyingu sem styður við það. Til dæmis að synda, leika með bolta og svo framvegis.
  • Reynið að halda heimarútínunni þegar það er mögulegt. Endurtekning og rútína hjálpar til við að byggja upp öryggi í nýju umhverfi. Ef barninu hentar best að vera mjög virkt á morgnana og eiga rólega stund seinnipart dags þá er gott að halda í þá rútínu til dæmis.
  • Fríið er fyrir alla fjölskylduna. Mikilvægt er að huga að því að systkini fái líka tíma og þeirra áhugasviði sé sinnt. Þá getur verið gott að skipta upp hópnum.

Öryggisatriði:

  • Vera með merkimiða í öllum fötum barnsins með símanúmeri foreldra.
  • Vera með air-tags eða Samsung galaxy smart tags á fatnaði barnsins þegar farið er í margmenni.
  • MedicAlert armbönd hafa hentað í einhverjum tilfellum til að upplýsingar sjáist fljótt um barnið, Merkin – MedicAlert á Íslandi. Sumir hafa jafnvel skrifað á hendi eða upphandlegg barns ef ekkert annað er mögulegt.
  • Ræða við starfsfólk hótels um að í hópnum sé fatlað barn. Ef áhyggjur eru af því að barnið gæti villst í burtu gæti verið gott að starfsfólk sé meðvitað um að barnið eigi ekki að vera eitt og þá sé strax haft samband við foreldra.
  • Huga að því að barnið geti ekki opnað hurðina á hótelherberginu ef það vaknar að næturlagi.

 

© Herdís Hersteinsdóttir, Ráðgjafar- og greiningarstöð, 2023